19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4551 í B-deild Alþingistíðinda. (4426)

Afgreiðsla mála úr heilbr.- og trn. neðri deildar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég óskaði eftir því í gær og í fyrradag að hv. heilbr.- og trn. tæki afstöðu til frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem flutt var af hv. 2. þm. Austurl. Helga Seljan, en frv. gerði ráð fyrir að Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið ættu aðild að tryggingaráði. Nefndin var kölluð saman í morgun, eins og hv. 12. þm. Reykv. hefur greint frá, og afgreiddi þá ekki frá sér neitt mál, að því að mér skildist, m.a. ekki þetta mál. Ég lít þannig á að þar með liggi fyrir að meiri hl. nefndarinnar hafi hafnað frv. Ég hefði að vísu talið mikið eðlilegra að málið hefði komið inn í þingið til afgreiðslu þannig að þingdeildin hefði fengið að taka afstöðu til þess, en það væri ekki lokað af inni í nefndinni með því að meiri hlutinn gefur ekki út nál. En Ed. hafði afgreitt þetta mál samhljóða og ég hygg að við höfum öll gert ráð fyrir því að það fengi greiðan gang í gegnum hv. deild.

Því kemur mér á óvart þessi niðurstaða í hv. nefnd og mér sýnist að formaður tryggingaráðs, hv. 9. landsk. þm., hafi þarna ráðið úrslitum í málinu og hafnað afgreiðslu þess. Ég harma þessa niðurstöðu og hlýt að gagnrýna mjög harðlega meiri hlutann í þinginu fyrir þá afstöðu og niðurstöðu sem hann hefur komist að, í fyrsta lagi að hafna málinu efnislega og í öðru lagi að koma í veg fyrir að þingdeildin fengi að taka afstöðu til þess.