06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

84. mál, auglýsingalöggjöf

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um auglýsingalöggjöf. Þetta er 84. mál Sþ. á þskj. 84. Tillagan gengur út á það að kjósa nefnd níu þm. til að vinna að og undirbúa í samráði við helstu hagsmunaaðila heildarlöggjöf um auglýsingar og nefndin skal við vinnu sína, eins og segir í tillgr., taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa í fjölmiðlun og standa fyrir dyrum á því sviði og öllum eru kunnar. Einnig skal nefndin hafa það sérstaklega að leiðarljósi að tryggja sem best gæði auglýsinga og eðlilega og nauðsynlega neytendavernd, þar með talið að vernda börn og unglinga fyrir innrætandi auglýsingum. Enn fremur segir í till. að nefndin skuli hraða störfum sínum og skila áliti á þessum vetri eigi síðar en í lok febrúar 1987 ef þess er kostur. Þessi tímamörk hljóta þó að ráðast af því hversu greiðlega hv. Alþingi gengur að vinna mál þetta.

Ég held, herra forseti, að þörfin fyrir þessa lagasetningu verði fljótlega nokkuð augljós þeim sem kynna sér málið og þarf því út af fyrir sig ekki að hafa mjög mörg orð um það. Staða málsins er í stuttu máli sú að á Íslandi er engin heildarlöggjöf til um auglýsingar. Þar er helst stuðst við eina grein í lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og sú grein er ákaflega stuttaralega orðuð miðað við það víðfeðma svið sem hér er á ferðinni.

Nýlega hafa komið fram í fjölmiðlum upplýsingar um að auglýsingamarkaðurinn, ef svo má að orði komast, velti geysilegum fjárhæðum nú þegar á Íslandi og ætla má vegna þeirra breytinga sem nú standa yfir að þessi upphæð fari ár frá ári ört vaxandi. Það er því öllum ljóst að hér er miklum fjármunum þjóðarbúsins ráðstafað og þar sem slíkt gerist er þörf á því að vel og skynsamlega sé með hlutina farið.

Það sem fyrir flm. vakir kemur reyndar fram í sjálfri tillgr. og einnig í greinargerð og er til komið ekki bara vegna þess hvernig þessum málum er komið í löggjöf og hvað reglur varðar heldur og ekki síður vegna hins að almennt á sviði neytendamála og neytendaverndar stöndum við Íslendingar mjög afturlega. Þetta kom greinilega í ljós þegar formaður sænsku neytendamálastofnunarinnar, Konsumentverket, kom hingað til Íslands í boði Neytendasamtakanna og flutti erindi á þingi samtakanna í október s.l. Það er mjög athyglisvert að kynna sér þetta erindi og bera það saman við stöðu þessara mála á Íslandi. Ég hygg að það sé síst of djúpt í árinni tekið að segja að við Íslendingar séum áratugum á eftir nálægum þjóðum, eins og t.d. Svíum, á sviði neytendamála. Þeim mun minna aðhald sem er frá þeirri hlið, þeim mun meiri þörf er á skýrum lögum og reglum.

Ég vil, með leyfi forseta, grípa ofan í erindi formanns sænsku neytendamálastofnunarinnar þar sem hún rekur þróun mála í Svíþjóð á undanförnum áratugum:

„Neytendaþjónusta á vegum hins opinbera [þ.e. í Svíþjóð] þróaðist og óx jafnt og þétt á 7. áratugnum. Hinn almenni markaður stækkaði, varð flóknari og það varð erfiðara að fylgjast með. Mikil umræða og dellur voru um auglýsingar. Það nægði ekki lengur að prófa og veita upplýsingar um vörur. Neytendafræðslan ein dugði ekki lengur. Nú vildu neytendastofnanir fá að hafa áhrif á framboð og starfshætti þeirra sem buðu vörur og þjónustu. Það þótti nauðsynlegt að þjóðfélagið aðstoðaði hinn almenna neytanda til þess að ná rétti sínum og vernda hann gegn óréttmætum viðskiptaháttum.“

Það hefði verið fróðlegt fyrir hv. alþm. að heyra fleira úr þessu ágæta framsöguerindi talsmanns sænsku neytendastofnunarinnar, en tímans vegna og kannske einnig vegna þess að hér eru ekki ýkjamargir þm. til að hlýða á mál mitt sleppi ég því að lesa miklu meira úr þessu. En það er þó vikið fróðlega að þeim þætti neytendamálanna sem auglýsingar eru og m.a. fjallað um það fyrirkomulag sem er í sænskri neytendalöggjöf til að koma í veg fyrir ítrekuð brot á auglýsingalöggjöf og siðareglum um auglýsingar í því vísa landi, Svíþjóð.

Mér er ofarlega í huga að tryggja að auglýsingar segi satt. Það er þannig að undirstöðuhugsun allra siðareglna um auglýsingar, hvort sem þær eru settar af einstökum löndum eða við tölum um siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins t.d., er í sem allra stystu máli að auglýsingar þurfi að segja satt. Auglýsingar þurfa að veita þær upplýsingar sem neytendur eiga heimtingu á og það þarf að vera hægt að koma viðurlögum yfir þá aðila sem ekki hlíta þessum reglum. Alþjóðaverslunarráðið hefur einnig sett allítarlegar siðareglur sem vernda eiga börn og unglinga og aðra hópa, sem sérstaklega næmir eru fyrir áhrifum og innrætingu, fyrir óprúttinni auglýsingamennsku. Á þessu sviði er mikil þörf á aðhaldi, ekki síst vegna þeirrar hvimleiðu áráttu, ég leyfi mér að segja, herra forseti, margra auglýsenda og sérfræðinga á því sviði að nota beinlínis börn og unglinga til að hafa áhrif á aðstandendur, gjarnan foreldra. Það er heil fræðigrein innan auglýsingamennskunnar að nota sér þá möguleika sem gefast í gegnum áhrifagirni og trúgirni barna til að hafa áhrif á foreldra. Við þessu er mjög víða reynt að reisa skorður með reglum, en lítið hefur farið fyrir slíku hér á Íslandi. Ég tel nauðsynlegt að binda þessi ákvæði beinlínis í lög þrátt fyrir að siðareglur Sambands ísl. auglýsingastofa taki þær upp eins og þær eru birtar í reglum Alþjóðaverslunarráðsins.

Í forustugrein í Neytendablaðinu á þessu ári er einnig vikið á mjög fróðlegan hátt að þörfinni fyrir að skoða þessi.mál. Þar er réttilega bent á þær miklu breytingar sem eru að verða á auglýsingamarkaðnum í kjölfar fjölmiðlabyltingarinnar og þar er einnig vikið á athyglisverðan hátt að svonefndum duldum auglýsingum og þeirri tegund auglýsingamennsku, sem virðist því miður fara vaxandi hér á landi eins og reyndar víðar, að auglýsingar eru dulbúnar í formi viðtala og frétta og þannig er neytendum gert mjög erfitt fyrir að greina á milli hvað eru annars vegar auglýsingar og hvað eru fréttir eða viðtöl eða annað efni af því tagi þrátt fyrir að ein undirstöðuregla allra siðareglna um auglýsingar eigi að vera að neytendum sé það ávallt ljóst hvað eru auglýsingar og hvað er eitthvað annað.

Nú er það svo að sá sem hér talar er enginn ofsatrúarmaður á það að lög og reglur leysi allan vanda og leysi úr öllum hlutum, en ég held þó að það sé alveg ljóst að það sé löggjafans að setja lagaramma, að marka ákveðinn grundvöll til að standa á og vinna út frá. Ég tel það ekki vansalaust ef Alþingi horfir upp á þær geysilegu breytingar sem nú eru að verða á þessu sviði, horfir upp á þá miklu og ört vaxandi fjármuni sem renna til auglýsingastarfs og horfir upp á þær hættur sem áhrifamætti nútímafjölmiðla eru samfara á þessum sviðum án þess svo mikið sem hugleiða að breyta eða betrumbæta áratugagamla löggjöf eða lagagrein, ef svo má að orði komast, sem víkur að þessu sviði og þess þá heldur sem á Íslandi er tiltölulega litlum takmörkunum beitt við auglýsingar. Með fáum undantekningum, herra forseti, má segja að auglýsingar hvers kyns vöru og þjónustu séu leyfðar í öllum fjölmiðlum á Íslandi. Undantekningarnar eru þó nokkrar og það þekkja menn. Þar eru undantekningar á í sérlögum, svo sein um áfengi og tóbak, lyf og lækningavörur og ýmislegt því um líkt, en að því slepptu er frelsi á þessu sviði mjög víðtækt hér og takmarkanir fáar þannig að þeim mun meiri ástæða og nauðsyn er fyrir skýra löggjöf um þessi efni.

Ég vil sérstaklega taka fram, ef einhverjir skyldu misskilja mig á þann hátt. að ég er ekki sérstaklega að rökstyðja þörf þessara breytinga vegna þess að ég geri ráð fyrir því að auglýsendur og seljendur vöru og þjónustu á Íslandi séu sérstaklega óprúttnir. Það er ég ekki að gera og ég undirstrika að yfirleitt er það svo að það er ekki síður að auglýsendurnir sjálfir, að verslunin og þjónustuaðilarnir sjálfir leggi á það áherslu að hafa skýrar og hreinar línur í þessum efnum. Fari maður aðeins lengra með þá hugsun gefur það auga leið að óheft starfseini af þessu tagi getur farið út í öfgar. Það er öllum fyrir bestu, einnig þeim sem standa að auglýsingunum, að þær séu innan hóflegra marka og það séu skýrar reglur um hvernig er heimilt og rétt að auglýsa.

Ég tel einnig rétt, herra forseti, og það kemur fram í grg. með till., að það verði athugað hvort ekki sé ástæða til að setja einnig ákvæði og skoða hluti eins og upplýsingar á vörum og um vörur, upplýsingar á umbúðum o.s.frv. Þó að það flokkist ekki beint undir keyptar auglýsingar eða seldar auglýsingar er þó ljóst að með þeim hætti er ákveðnum upplýsingum miðlað til neytenda og neytendur þurfa að geta treyst því að þær upplýsingar séu réttar.

Það má segja að við stöndum jafnilla og jafnvel verr hvað varðar ákvæði um að umbúðir til að mynda séu innan þessara marka, þ.e. þær villi ekki um fyrir neytendum og þær miðli eingöngu réttum og nauðsynlegum upplýsingum. Væri hægt að taka mörg dæmi um hvað auglýsingar ganga langt hér á landi án þess að þær séu stoppaðar, hversu óprúttnar sumar auglýsingar í raun og veru eru. Þó er það þannig að flest dæmin liggja á því sviði sem segja má að sé jaðarsvæði eða markasvæði, eru kannske á mörkum þess að vera eðlilegar og réttmætar.

Í grg. eru nefnd tvö dæmi einmitt á þessum mörkum og ég ætla að renna yfir þau, með leyfi forseta. Hið fyrra lýtur að auglýsingum sem oft heyrast um vörukaup með afborgunarskilmálum. Það er reyndar merkilegt, herra forseti, að í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið nokkur umræða um viðskipti af þessu tagi, þ.e. vörukaup með afborgunarskilmálum. Það kannast eflaust allir við auglýsingar sem hljóða eitthvað á þessa leið: „Átt þú 4 þús. kr.? Þá færð þú einhverja tiltekna vöru hjá okkur.“ Svona auglýsingar glymja í eyrum dag eftir dag og viku eftir viku þrátt fyrir að verið sé að auglýsa vöru sem í heild kostar 50 eða 100 þús. kr. Af auglýsingunni einni saman verður ekki annað ráðið en útborgunarupphæðin ein dugi fyrir vörunni. Það er skemmtilegt að segja frá því og þó ekki skemmtilegt að síðan ég lagði fram þessa till. hafa komið að máli við mig eða haft samband við mig foreldrar sem einmitt hafa sagt: Við verðum látlaust fyrir því að börnin okkar spyrja: Pabbi, þú hlýtur nú að eiga 5 þús. kr. Þú hlýtur nú að eiga 4 þúsund kall. Þá getum við fengið þetta tiltekna apparat eða þessa tilteknu vöru inn á heimilið, halda blessuð börnin vegna þess að eðlilega villast þau á því að verð vörunnar er í raun miklu hærra.

Annað dæmi sá ég á ferð minni um hið flata Suðurland s.l. sumar. Þar ók ég fram hjá söluturni þar sem auglýst var á spjaldi með stórum stöfum ein ákveðin vörutegund með því að skrifa orðið „nammi“. Þarna er höfðað beint til barnanna og þeir foreldrar sem standa í því að reyna að vernda tennur barnanna sinna og gefa þeim ekki sælgæti í óhófi geta borið um hversu það er þægilegt að auglýsingum sé stillt upp með þessum hætti.

Ég er ekki að fella dóm yfir þessum tilteknu auglýsingum, en ég tek þær sem dæmi um auglýsingar sem óljóta að teljast á mörkunum og því væri eðlilegt að þessi tilvik og önnur slík væru skoðuð. Ég gæti vissulega nefnt miklu verri dæmi og þau hef ég undir höndum, en af ástæðum sem ég tel óþarft að rekja fyrir hv. þm. tel ég ekki rétt að taka upp slík einstök dæmi sem jafnvel mætti rekja, þó að nöfnum væri sleppt, beint til einstakra fyrirtækja og teldi ég slíkt ekki heppilegt.

Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að við undirbúning löggjafar um þessi mál verði haft náið samstarf við alla hagsmunaaðila, svo sem samtök neytenda, auglýsendur, starfsfólk í auglýsingaiðnaði, verðlagsyfirvöld, þá aðila sem annast hollustu og gæðaeftirlit og marga fleiri mætti telja. Ég er viss um að innan þessara samtaka og hjá þessum aðilum er mikill áhugi fyrir því að á þessum málum verði tekið. Ég hef fundið þann áhuga. Ég tel því eðlilegt að reyna að hafa sem mest og best samband við þessa aðila við undirbúning þessarar löggjafar.

Að síðustu má velta því fyrir sér hvort það fyrirkomulag sem hér er lagt til, þ.e. að Alþingi kjósi nefnd níu þm. til að undirbúa þessa löggjöf, sé hið heppilegasta eða rétta. Það er með ýmsum hætti þegar hv. þm. flytja þáltill. hvort þeir beina málum til ríkisstjórnar eða velja sér einhvern annan verkmáta. Ég tel í sjálfu sér eðlilegast og rismest fyrir einstaka þm., sem flytja vilja mál með þessum hætti inn í Alþingi, að þeir ætli Alþingi sjálfu forustuhlutverkið. Sjálfur uni ég því verr, þó ég geri mér grein fyrir að stundum er það nauðsynlegt og nánast eina færa leiðin, að vísa þeim málum með einhverjum hætti til ríkisstjórnar sem ekki hefur sinnt viðkomandi málaflokki á nokkurn hátt. Það er einmitt tilfellið sem hér um ræðir. Ég tel því eðlilegra og heppilegra að Alþingi kjósi nefnd sem hafi þetta starf með höndum og stýri þessu verki sem í sjálfu sér ætti ekki að þurfa að vefjast mjög fyrir mönnum og ætti að mega vinna á tiltölulega stuttum tíma, a.m.k. gera verulegar úrbætur þó svo kynni að fara að verkinu í heild sinni og jafnvel í víðtækari skilningi yrði vísað áfram til frekari skoðunar.

Flm. hefur ekki tillögu um sérstaka þingnefnd. Hann hefur ekki gætt að því að skoða hvert eðlilegast væri að vísa slíku máli, en trúlega mundi það vera annaðhvort allshn. eða atvmn. Ég fel forseta að úrskurða í því máli.