15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

18. mál, kosningar til Alþingis

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þegar gildandi kosningalög voru samþykkt var þeim sem að því stóðu öllum ljóst að á þeim lögum væru ýmsir vankantar og ánægja manna með þau lög var misjafnlega mikil eða lítil. Menn töldu hins vegar að það væri ekki stætt á öðru en að í gildi væru kosningalög í landinu á hverjum tíma og lögin sem slík voru samþykkt vegna þess að það var talið nauðsynlegt að í gildi væru kosningalög, en með þeim fyrirvara og því fororði af hálfu þeirra sem að þessu stóðu að leggja ætti vinnu í að ná fram endurbótum á því kerfi sem þarna hafði verið samþykkt. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að allir hafi verið sammála um að það væri sjálfsagt að leita eftir betra kerfi, sanngjarnara og einfaldara, en því sem við vorum með á milli handanna. Árangur af því starfi hefur ekki orðið sjáanlegur enn þá. Við Alþýðuflokksmenn erum enn sömu skoðunar. Við teljum nauðsynlegt að það sé lögð vinna í að skoða þetta betur og leita að einfaldara, sanngjarnara, réttlátara kerfi.

Hitt er annað mál að tíminn er orðinn skammur. Skoðun okkar er óbreytt í þessu efni, en tíminn er orðinn skammur. Þess vegna ríður á miklu að menn vindi að því bráðan bug, ef breyta skal, að breyta. Ég tel að það sé ótækt að það hangi yfir mönnum langt fram eftir þingi að leikreglurnar í þeim kosningum sem fram undan eru séu óvissar. Niðurstaða í þessu máli verður því að fást á alnæstu mánuðum þannig að það liggi ljóst fyrir hverjar leikreglurnar eru.

Ég ætla ekki að fara út í vangaveltur um hvort d'Hondt, Lague eða einhver annar herramaður eigi að vera til fyrirmyndar. Á sínum tíma stóðu menn upp frá þessu verki þannig að menn höfðu ekki bundið sig á klafa neins ákveðins fyrirkomulags í þeim efnum og ég held að ef menn ætla að ná árangri eigi menn ekki að gera það fyrir fram. En við í Alþfl. höfum áhuga á því og við erum reiðubúnir að skoða þetta mál áfram, en leggjum þá jafnframt áherslu á að það verði gert fljótt og hratt og menn standi að því með opnum huga.