11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

59. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Varðandi þessa fsp. verð ég því miður að segja að það hefði verið frekar ástæða fyrir hv. þm. að bera hana fram við hæstv. fjmrh. þar sem hann ber ábyrgð á þessum lögum, en þau voru flutt og samin af fjmrh. á sínum tíma. Þar hefði kannske fengist svar við því sem ég get ekki svarað hér.

Þetta mál hefur verið til umræðu milli ráðuneytanna og sérfræðinga þeirra og ekki náðst enn þá samkomulag. Enn er ekki lokið meðferð málsins. Það er enn í umræðu. Mín afstaða er óbreytt, eins og kemur fram í afstöðu ráðuneytisins til hv. félmn. á síðasta þingi þegar þetta var til meðferðar. Mín persónulega afstaða er einnig alveg skýr. Ég tel að túlkun fjmrn., eins og hún hefur komið fram í opinberum skjölum, sé of þröng túlkun. Ég tel einnig að sú túlkun sé í andstöðu við tilgang laganna um að auka sparnað fólks, ekki síst unga fólksins, til öflunar húsnæðis.

Mín skoðun er sú að ég tel sjálfsagt að öllum sé heimilt að notfæra sér þetta sparnaðarform, enda sé úttekt sparnaðarins miðuð við það eignarform sem sparandi velur sér og fari ekki fram úr því sem hann greiðir fyrir íbúð eða eignarhluta í íbúð né verði hærri en nemur því framlagi sem hlutaðeigandi þarf að greiða til tryggingar afnotaréttar íbúðar.

Þetta er það sjónarmið sem starfsmenn í félmrn. hafa í viðræðum við starfsmenn fjmrn., en því miður liggur þetta ekki endanlega fyrir í dag. Ég hefði kosið að það hefði tekist, en hæstv. fjmrh. er erlendis. Ég hefði gjarnan viljað í tilefni þessarar fsp. að afstaðan hefði legið skýr fyrir þegar þessari fsp. var svarað, en sennilega hefði verið hyggilegra fyrir hv. fyrirspyrjanda að spyrja fjmrh. beint.

Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að segja að það hefur valdið mér miklum vonbrigðum og mörgum öðrum hvað þetta hagstæða sparnaðarform fyrir fólk, sem hefur inni að halda skattafslátt sem nemur hluta af innleggi innan þeirra marka sem lögin gera ráð fyrir og gefur aukinn rétt til húsnæðis, hefur verið lítið notað. Ég kenni að hluta til bankakerfinu um hvað bankarnir hafa gert lítið í því að auglýsa þetta sparnaðarform miðað við allar þær auglýsingar sem þeir láta frá sér fara í fjölmiðlum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í lok októbermánaðar mun í viðskiptabankakerfinu ekki vera um að ræða sparnað í samræmi við þessi lög yfir 15 millj. kr., einhvers staðar á milli 150 og 180 aðilar. Svo kemur að vísu til viðbótar fé í sparisjóðunum sem við höfum ekki nákvæmar upplýsingar um, en sjálfsagt er ekki varlegt að áætla þá upphæð yfir 1012 millj. Hér er því um vannýtt sparnaðarform að ræða sem hefur gífurlega mikið gildi fyrir ungt fólk í landinu. Ég er ekki enn þá búinn að átta mig á því hvernig stendur á því að bankakerfið vill ekki gera meira í að auglýsa þetta en raun ber vitni.

Í framhaldi af þessu vil ég segja að það er áfram unnið að því að reyna að ná samkomulagi við fjmrn. um túlkun eða breytingu á þessum lögum sem er í mínum huga ósköp einföld. Það þarf ekki að gera nema smábreytingu á þessu þannig að það tryggi að það sé ekki endilega miðað við 100% eign á húsnæði þegar sparnaðurinn er tekinn upp. Mér finnst þetta svo einfalt mál.

Fleira get ég ekki sagt um þetta sem svar við þessari fsp., en það er áfram unnið að málinu.