11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

59. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég er vön, og kannske aðrir hv. þm. líka, útúrsnúningi frá síðasta hv. ræðumanni þannig að ég læt mér hann í léttu rúmi liggja, en þar sem hv. þm. ræddi um að það væri eðlilegra að ég legði fram frv. um málið en að koma fram með fsp. um túlkun á lagaákvæði vil ég upplýsa að þetta sýnir hve mikið hv. þm. fylgist með störfum hér á þingi. Það var lagt fram frv. um þetta mál á síðasta þingi. Og hver var afstaða hv. þm. Halldórs Blöndals til þess máls? Hann samþykkti nál. um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar með þeim rökstuðningi að það þyrfti að láta félmrn. og fjmrn. skera úr um túlkun á þessum lögum. Ég vildi einmitt taka af allan vafa í þessu efni og lagði fram frv. og óskaði auðvitað eftir stuðningi hv. þm. Halldórs Blöndals í málinu en hann vildi láta ráðuneytin um að skera úr um túlkun laganna og greiddi því atkvæði hér á þingi.