11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

100. mál, aukning fjár til Byggingarsjóðs verkamanna

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Enn um húsnæðismálin. Í samkomulagi Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins um húsnæðismál frá 26. febr. 1986 var gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs verkamanna yrði aukið um 200 millj. kr. á þessu ári og lánsfé sjóðsins síðan aukið miðað við fast verðlag. Þetta er staðfest í grg. með frv. til 1. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem fylgdi í kjölfar samkomulagsins svo og í nál. félmn. Nd. við afgreiðslu málsins í apríl í vor.

Ég gerði þennan þátt að umtalsefni í umræðunum um frv. og spurði hæstv. félmrh. hvernig staðið yrði að útvegun þessa viðbótarframlags, hvort um beint framlag úr ríkissjóði yrði að ræða eða m.ö.o. aukafjárveitingu úr ríkissjóði eða hvort gerð yrði breyting á lánsfjárlögum svo að heimild fengist til aukins lánsfjár. Svar hæstv. félmrh, var á þá leið að um tilfærslu yrði að ræða, en það fékkst ekki skýrt nánar. Ég var ekki ánægð með svör hans þá og sá ekki að þar með væri framlagið tryggt og sé raunar ekki enn hvernig um aðra tilfærslu gæti verið að ræða en þá sem þarfnast breytinga á lánsfjárlögum. Hvernig sem að yrði farið hlaut þetta fyrirheit að kalla á einhverjar ráðstafanir. Því miður var hæstv. fjmrh. ekki viðstaddur þessa umræðu og í tímaþrönginni í þinglok varð að láta þetta gott heita, enda varð ekki öðru trúað en ríkisstjórnin mundi með einhverjum hætti standa við þetta fyrirheit.

Nú má vel vera að áhyggjur mínar séu óþarfar og útvegun þessa fjár hafi ekki reynst sá þröskuldur sem ég óttaðist, en enn þá hafa ekki borist fréttir af aukafjárveitingu og heldur ekki af breytingum á lánsfjárlögum. Þess vegna spyr ég hæstv. félmrh. á þskj. 101 hvort Byggingarsjóður verkamanna hafi fengið þá 200 millj. kr. aukningu sem gert var ráð fyrir þegar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins voru samþykktar á Alþingi s.l. vor og ef svo væri, hvaðan það fé hafi þá komið.