12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

137. mál, verðlag, samkeppnishömlur og órettmætir viðskiptahættir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég held að við vitum það báðir, ég og hv. flm., að daglega er auglýst nýtt verð, t.d. á erlendum gjaldmiðli, og það getur því verið mjög mismunandi frá degi til dags eða einni viku til annarrar hvað neysluvörur kosta í íslenskum krónum vegna þeirra breytinga sem eru innbyrðis á erlendum gjaldmiðli og getur valdið því að vörur eru ekki nákvæmlega á sama verðinu tvær vörusendingar í röð. Þá er spurning hvernig með skuli fara, hvort kaupanda sé þá skylt, ef verðið þokast aðeins upp á við, að auglýsa sérstaklega í sinni verslun þær breytingar sem eru beinlínis komnar af minni háttar breytingum á verði erlends gjaldmiðils. Ég held að af praktískum ástæðum geti afleiðing svo strangra reglna, sem hér er gert ráð fyrir, orðið til þess að álagningin hækki til þess að menn hafi borð fyrir báru og þurfi ekki að vera með pennann á lofti eins og hv. þm. gerir ráð fyrir.

En ég skal ekki um þetta fullyrða, ég hef ekki íhugað þetta mál til neinnar þrautar, vildi aðeins koma fram þeirri almennu athugasemd að ég er ekki jafnsannfærður og þessir hv. þm. um að þetta frv., ef að lögum verður, verki til lækkunar. Ég vil raunar minna á að það er ekki langt síðan algerlega var óheimilt að hækka vöruverð í verslunum. Menn urðu að selja þær vörur sem þeir höfðu leyst til sín í verslanir á því verði sem þær voru keyptar í krónum talið og hið sama var að segja um heildverslanir, að þær máttu ekki leggja á vörur sannanlegt tjón sem heildverslanir höfðu orðið fyrir vegna þess að viðkomandi vörur voru greiddar með greiðslufresti og miklar breytingar orðið á gengi krónunnar þannig að menn urðu að selja vörurnar kannske langt undir raunverði.

Á tímum mikillar verðbólgu er augljóst að slíkt hlýtur að hafa mjög slæm áhrif, en ég skil að hv. þm. er orðinn svo hrifinn af því hversu góðan árangur stjórnarstefnan nú hefur borið að hann vill með þessum hætti vekja athygli á því að það sé jafnvel gerlegt að setja svo strangar reglur um verðbreytingar sem gert er ráð fyrir í þessu frv.