18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

48. mál, lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda starfar sérstök átta manna nefnd innan endurskoðunarnefndar um lífeyriskerfið. Hún hefur unnið að tillögugerð í þessu efni að undanförnu og þess er að vænta að hún skili nú í þessari viku tillögum varðandi þetta mál og í frumvarpsformi.

Í kjarasamningum Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna í febr. s.l. féllust samningsaðilar í meginatriðum á tillögur átta manna nefndarinnar um myndun lágmarksréttinda í lífeyrissjóðum og greiðslu iðgjalda af öllum lánum. Í tillögunum er gert ráð fyrir að kveðið verði á um þessi atriði í lögum um starfsemi lífeyrissjóða og þessi ákvæði, svo og lögin öll, taki með sama hætti til allra lífeyrissjóða. Jafnframt er reiknað með að á móti tilteknu lágmarksiðgjaldi standi tiltekin myndun lágmarksréttinda og verði sjóðum ekki heimilt að veita minni réttindi og ekki heldur meiri réttindi nema gegn hærra iðgjaldi. Meginhugmyndin að baki þessu er sú að iðgjaldagreiðslur og lífeyrisréttindi verði eins hjá öllum starfandi mönnum. Er þá haft í huga að kjör manna á almennum vinnumarkaði séu ekki sambærileg við kjör opinberra starfsmanna vegna þess hve hinir síðarnefndu hafa miklu betri lífeyri sem þeir greiða þó ekki fyrir með iðgjöldum.

Á hinn bóginn hafa umbjóðendur átta manna nefndarinnar ítrekað látið koma fram að með þessum tillögum sé ekki stefnt að því að skerða heildarkjör opinberra starfsmanna, heldur að tryggja öllum sambærilegan lífeyri eftir sambærilegar greiðslur í lífeyrissjóð.

Ég geri ráð fyrir að geta lagt fram frv. um þetta efni á þessu þingi. Ég hef ekki enn fengið í hendur tillögur nefndarinnar en auðvitað hlýtur framgangur málsins að ráðast af því hversu góð og víðtæk samstaða næst um efnisatriði þeirra tillagna sem nú eru fyrir hendi af hálfu nefndarinnar. Það verður auðvitað að ráða framgangi málsins hér á hinu háa Alþingi.

Nefndin hefur ekki gert mér grein fyrir neinum höfuðágreiningsefnum að því er þetta varðar en auðvitað er það svo, eins og kunnugt er, að um ýmis atriði í lífeyrissjóðamálum eru skoðanir skiptar og þeim ágreiningi verður sjálfsagt seint útrýmt. En það er vert að hafa í huga í þessu sambandi að samkomulag um lífeyrissjóðamál, sem gert var á hinum almenna vinnumarkaði og ég hef áður vikið að, byggir á því að breytingar verði gerðar á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna eigi reglur þeirra sjóða að falla að almennum lögum um lífeyrissjóði. Og með samkomulagi fjmrh. og samtaka opinberra starfsmanna s.l. vetur um sérstaka nefnd til viðræðna um lífeyrismál er nú til vettvangur til umræðu um lífeyrissjóði á samningssviði opinberra starfsmanna. Fastlega verður að reikna með að lausn lífeyrismála opinberra starfsmanna krefjist sérstakra samninga þar að lútandi. Þessir samningar hljóta að verða vandasamir þar sem þeir þurfa að taka til heildarkjara opinberra starfsmanna og skiptingar þeirra á starfsævina eða lífeyrisævina ef þannig má að orði komast.