18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

148. mál, hafnamál

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. fyrirspyrjanda um og ég held að samráðherrar mínir í ríkisstjórn hafi orðið heldur betur varir við það að fjárveitingum til hafnamála hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Ég hef verið mjög óánægður með það og það er í hróplegu ósamræmi við það sem ég hef lagt til sem samgrh. Hins vegar skulum við líta a að það hafa verið nokkrar aukafjárveitingar, einkum á s.l. ári og árinu þar á undan, þannig að þessar tölur eru ekki eins lágar sem hefur verið í brýnustu tilfellum um að ræða.

Varðandi samanburð sem hv. þm. gerði hvað snertir byggingu brennivínsbúðar og kaup á súrmjólkurstöð, eins og hann kallaði það, og vörumarkaði, þá held ég að við hefðum lítið fengið til viðbótar til hafnarframkvæmda af þeim peningum sem hafa þegar verið lagðir fram í þessu skyni. Það er sitt hvað að kaupa og yfirfæra skuldir og annað eins og á þessum húsum, en það mál er óháð hafnarframkvæmdum og framlögum til hafnarmála. Ég er enginn sérstakur talsmaður þessara dæma sem hann nefndi, en þó þeir fjármunir sem ríkið hefur þegar lagt til þeirra hefðu farið til hafnarframkvæmda hefði það ekki orðið til að auka þær mikið.