18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

21. mál, áhrif markaðshyggju

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hygg að ræða hv. 5. þm. Vestf. hafi sýnt glöggt að hér er brýnt mál á ferðinni. Það er nauðsynlegt að þessir hlutir verði rannsakaðir ofan í kjölinn. En það var í rauninni ákaflega athyglisvert að það skyldi vera þm. af Vestfjörðum sem reis upp til að andmæla þessari till., einmitt frá Vestfjörðum. (KP: Hann er ekki búsettur þar.) Maður skyldi ætla að hann þekkti þar þó til, hv. þm. Karvel Pálmason. Ég veit að hann gerir það. Ég hefði þó haldið að það væri ekki sú gullöld og gleðitíð uppi á Vestfjörðum, t.d. í hans fæðingarsveit, að það væri ástæða til að hrópa fagnandi á afrek ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar úr þessum ræðustól. Ég hygg satt að segja að það séu fá byggðarlög á Íslandi sem hafi orðið eins hrottalega fyrir stjórnarstefnunni og pláss sem heitir Suðureyri við Súgandafjörð þar sem fólk hefur yfirgefið íbúðarhús sín í stórum stíl. Fyrir liggur að íbúum fækkar á skömmum tíma úr 420 í 350 í þessu eina plássi. Ég nefni þetta pláss til að sýna hv. þm. alla sanngirni vegna þess að ég veit að hann þekkir þarna betur til en annars staðar og getur betur varið sig á þessum slóðum en kannske annars staðar. (ÓÞÞ: 350 sagði ræðumaður.) Hér er auðvitað um hrikalega fækkun íbúa að ræða í þessu byggðarlagi, hrikalega fækkun íbúa, og þetta eru tölur sem komu fram á fundi sem ég sat ásamt hv. þm. um húsnæðismál á Suðureyri s.l. vor og hann mótmælti þeim þá ekki.

Ég vil aðeins, herra forseti, af því að ég hef ekki leyfi til að tala lengi, benda á þann hálfkæring sem kemur fram í máli hv. þm. Öldruðum fjölgar, segir hann, og þó að ríkisstjórnin hafi verið vond er meðalaldur hár á Íslandi. Ja, þakka skyldi að Steingrímur Hermannsson og ríkisstjórn hans skuli ekki hafa lagt að velli áhrif fúkkalyfjanna og nútímalæknisvísinda með svo að segja einu höggi. Þvílíkt og annað eins. (ÓÞÞ: Eru það fúkkalyfin sem hafa lengt meðalaldurinn?) Nútímalæknavísindi hafa m.a. átt hlut í því að lengja hér meðalaldurinn. (ÓÞÞ: Eru þau ekki kunn í Rússlandi?) Ég þekki ekki svo vel til þar. Hv. þm. getur kannske frætt mig betur um það en ég kann á. Hins vegar gæti hann kannske spurt hæstv. forsrh. um hvernig þetta er í Kína eða í Svíþjóð eða á Grænhöfðaeyjum svo að ég nefni þrjá nýjustu lendingarstaði hans.

Ég skora á hv. 5. þm. Vestf. að taka þessari till. vel eins og aðrir hér hafa gert og vera ekki að drepa málinu á dreif með útúrsnúningum. Það er alveg óþarfi. Hér er um að ræða mál sem hefur verið ágætlega tekið í af fulltrúum þriggja þingflokka og hv. þm. taldi að það mætti laga eina spurninguna aðeins frá því sem þarna er. Ég vil koma til móts við hv. þm. að þessu efni til og fallast á hans ábendingar og skora á hann að skipa sér í þá sveit sem rannsakar áhrif frjálshyggjunnar, m.a. á byggðarlagið Vestfirði og kannske einkum og sér í lagi á Suðureyri í Súgandafirði sem mætti út af fyrir sig rannsaka alveg sérstaklega í þessu efni. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. hafi neitt á móti því.