03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

150. mál, fangelsismál

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka dómsmrh. fyrir svörin. Ég átti von á að fram kæmi í hans máli að verulegar endurbætur mundu verða gerðar á núverandi fangelsum og að búið væri að taka ákvörðun um að byggja nýtt fangelsi.

Það er rétt að á sínum tíma var fyrirhugað að byggja ríkisfangelsi og lögin, sem sett voru 1973, voru sett með það að markmiði að koma á fangelsi er liti á fanga sem sjúklinga og að hægt væri að bæta þá svo að þeir væru tilbúnir til að taka þátt í þjóðfélaginu aftur. Sú hugsun sem lá að baki þessu fangelsi er kennd við svokallaða meðferðarstefnu sem því miður er úrelt orðin.

Ég fagna því að dómsmrh. hyggst gera eitthvað í málefnum kvenfanga. Það er mjög brýnt verkefni og er okkur Íslendingum til mikils ósóma að ekki skuli fyrir löngu vera búið að taka á þeim málum. Eins og staðan er núna afplána þrír kvenfangar refsingu. Tveir eru vistaðir á Skólavörðustíg og hafa verið þar, alla vega annar, síðan í apríl og þriðji fanginn er á Bitru.

Ég ætla ekki að sinni að fara betur ofan í meðferðina á föngunum, en fyrir liggur önnur fsp. sem ég mun ræða á eftir.