08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

181. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í fyrstu leiðrétta orð hv. 3. þm. Vestf. varðandi frv. það sem þm. Borgarafi. hafa lagt fram um húsnæðismál. Þar kemur fram á níu stöðum heimild til ráðherra til að setja reglugerð. Þar er ekki heimild fyrir ráðherra til að kveða á um í reglugerð efnisatriði heldur aðeins verklagsatriði. Reglurnar eru skýrar í frv., en hins vegar varðandi framkvæmd laganna er ráðherra heimilt að kveða svo á í reglugerð. Það er annað með það frv. sem hér um ræðir. Þar er nánast kveðið á um að allar reglur sem um sjávarútveg gilda eða varðandi stjórn sjávarútvegs skuli settar í reglugerð. Þarna er greinarmunur á.

Annars má taka undir töluvert af því sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði áðan, 3. þm. Vestf., um frv. sem hér liggur fyrir. Það er greinilegt að margt í hans málflutningi er mjög líkt og það sem við höfum fjallað um hér og er stefna Borgarafl. Ég hlýt að fagna því að hann er tilbúinn að taka upp fyrri stjórnunaraðferðir varðandi fiskveiðar með ýmsum lagfæringum eins og hér var talað um.

Ég vil auk þess taka undir það sem hann talaði um varðandi seinaganginn í þessum málum og harma að frv. skuli ekki fyrr vera komið hingað inn á þing. Af þessu tilefni leyfi ég mér að lesa bókun sem fulltrúi Borgarafl. lagði fram á 11. fundi ráðgjafarnefndar um fiskveiðistefnu hinn 30. okt. sl. Hún er þannig, með leyfi forseta:

„Borgarafl. lýsir furðu sinni á því að ekki skyldi farið eftir ákvæðum laga nr. 97/1985 um að kalla saman ráðgjafarnefnd þm. og hagsmunaaðila í sjávarútvegi fyrir 1. nóv. 1986. Í stað þess er nú verið að þröngva í gegn í mikilli tímaþröng óvissum og vanhugsuðum tillögum að fiskveiðistefnu fyrir næstu fjögur ár. Núgildandi lög um stjórn fiskveiða voru upphaflega sett 1984 vegna neyðarástands á fiskistofnum við Ísland að mati fiskifræðinga sem birtist í hinni svokölluðu „svörtu skýrslu“. Á sama tíma var fallist á þessi neyðarlög þar sem engin önnur fær leið fannst sem samkomulag gæti orðið um að mati hagsmunaaðila. Þrátt fyrir að fljótlega komu í ljós augljósir alvarlegir ágallar á þessari aðferð við stjórn fiskveiða voru lögin framlengd nær óbreytt í árslok 1987. Borgarafl. mótmælir því harðlega að nú eigi að því er virðist að framlengja neyðarástandslögin og grípa til enn frekari skerðingar á fiskveiðum, en alls ekki reynt að finna neinar nýjar leiðir né sníða verstu annmarka af núverandi fyrirkomulagi. Skýtur þar skökku við því í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar eru fögur fyrirheit um nýja fiskveiðistefnu þar sem taka á meira tillit til byggðasjónarmiða og auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi í samræmi við stefnuskrá Borgarafl.“

Að gefnu tilefni og vegna fullyrðingar hv. þm. Skúla Alexanderssonar í gær skal upplýst hér að Borgarafl. taldi ekki ástæðu meðan ráðgjafarnefndin væri starfandi að skipa þm. í sérstaka þingmannanefnd. Þetta vil ég að komi hér fram.

Frv. hefur verið sett fram um stjórn fiskveiða. Það ber að athuga þegar Alþingi setur lög að þau verða að vera í samræmi við önnur lög og innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur hinum almenna löggjafa. Þetta er rifjað hér upp þegar lögin um stjórn fiskveiða eru skoðuð og rædd. Það yrði t.d. háskaleg stefna sem gengi út á það að setja lög um veiðar í vötnum sem væru almenningseign í friðunartilgangi og þeim einum heimiluð veiði sem keypt hefði sér veiðistöng fyrir gildistöku laganna. Flestum mundi finnast slík lagasetning furðuleg og jafnast á við stjórnarskrárbrot gagnvart þeim sem keyptu sér veiðistöng síðar. Þetta er það fyrsta sem kom mér í hug þegar ég bar saman 1. og 4. gr. frv. um stjórn fiskveiða.

Í 1. gr. segir: „Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Í 4. gr. segir að aðeins þeir sem fengið hafa leyfi til botnfiskveiða á árinu 1985 komi til greina við veitingu leyfis til veiða úr þessari sameign þjóðarinnar. Í þessum tveimur greinum er greinileg þversögn. Ef takmarka á veiðar við ákveðinn aðila eru fiskistofnarnir ekki sameign þjóðarinnar heldur eign þeirra aðila sem fá leyfi til að veiða þessa fiskistofna. Lagasetning af þessu tagi er varhugaverð út frá hugmyndinni um frelsi og lýðræði, að útiloka þá nýju aðila sem koma vilja inn í þennan atvinnuveg og spreyta sig í keppni við hina sem á markaðnum eru. Með þessum orðum er ég ekki að segja að öllum sem vilja eigi að vera frjálst að nýta sér þessa auðlind á tímum nauðsynlegra takmarkana heldur að vara við slíkri lagasetningu að útiloka alla þá sem vilja stunda þennan atvinnurekstur.

Annað atriði er í frv. sem ég vil vara Alþingi við og það sem minnst var á áðan. Það er hið mikla vald sem með frv. er falið ráðherra til ákvörðunar um efnisatriði frv. Ef frv. verður óbreytt að lögum felur það í sér ramma um að takmarkana sé þörf en ekkert um hvernig skipta eigi þessum fiskistofnum sem ákveðið verður af hálfu ráðherra að veiða megi. Slík lagasetning er ekki aðeins varhugaverð heldur stórhættuleg með tilliti til hagsmuna almennings og þeirra sem leyfi eiga að fá til að veiða þennan takmarkaða afla. Ef rétt á að vera á að vera skýrt kveðið á um það í lögum hvað mikið veiða má af hverjum fiskistofni og hvað hver tegund fiskibáta megi veiða.

Í frv. er aðeins talað um rétt þeirra sem leyfi eigi að fá til veiða af þeirri auðlind sem fiskistofnarnir eru, en hvergi er talað um skyldu þessara leyfishafa, hvorki til þess að skila fiskinum í vinnsluhæfu ástandi að landi né að þessir aðilar komi að landi með öll þau verðmæti sem fiskurinn geti gefið. Mér mundi ekki finnast það óeðlilegt með tilliti til l. gr. frv. um sameign þjóðarinnar að hægt verði að binda veiðileyfi skilyrðum að því leytinu til að engu sé hent frá borði sem nýta má og að gæði fisksins þegar komið er með hann að landi skuli vera 100%.

Hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes hefur lýst stefnu Borgarafl. í sjávarútvegsmálum og ætla ég ekki að tíunda það sem hann hefur sagt. En ég leyfi mér að ítreka þá skoðun sem kom fram í hans máli um gildistöku laganna, meðferð sjútvrh. á smábátaeigendum og skiptingu landsins í tvö veiðisvæði. Ég rakti áðan að mér fyndist það vera í verkahring Alþingis að ákveða hvað veiða mætti mikið úr fiskistofnum hér við land. Með vísan til þess er mín skoðun að það ætti að vera ákvörðun Alþingis ár hvert að marka hve mikið megi veiða úr hverjum stofni og af hverri tegund.

Smábátaeigendur telja rétt sinn fyrir borð borinn í frv. og leyfi ég mér að taka undir þau sjónarmið. Það er ljóst að enginn getur lifað af 40 tonna afla og er því með frv. verið að kippa stoðum undan þessum aðilum jafnframt því sem þessi kvóti kemur verst niður á þeim sem hafa haft trilluútgerð að ævistarfi. Ef frv. þetta verður samþykkt leyfi ég mér að gera athugasemdir við 10. gr. frv. og mun á síðari stigum ásamt öðrum þm. Borgarafl. leggja fram brtt. við þá grein frv. í þá átt sem er í núverandi lögum.

Þriðja atriðið sem ég vil ítreka er hin svokallaða norður-suður lína sem að vísu er ekki tiltekin í frv. en hefur verið notuð við ákvörðun aflakvóta til skipa á sóknarmarki. Engin haldbær rök eru í dag til að halda þessari línu. Hins vegar hefur hún leitt til óeðlilegs mismunar milli landshluta eins og glöggt hefur komið fram við sölu skipa frá Suðurlandi til Norður- og Austurlands.

Ég hef aðeins lítillega farið yfir þau atriði sem ég tel að þurfi að breyta ef frv. þetta verður að lögum. Ég er hins vegar algerlega ósammála þessu frv. í meginatriðum, en geri mér grein fyrir því að á þeim stutta tíma sem við höfum verði ekki tekin upp ný stjórn á fiskveiðum. Vil ég því leggja á það ríka áherslu að gildistíminn verði ekki lengri en eitt ár svo að hægt verði að íhuga aðra möguleika, sérstaklega þá sem við borgaraflokksmenn höfum bent á og komu fram í ræðu hv. 7. þm. Reykn. Júlíusar Sólnes.

Ég vil ekki orðlengja þetta frekar svo að ég verði ekki vændur um að draga þetta mál á langinn á hv. Alþingi, en kem aftur upp ef ástæða þykir til.