08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Fáeinar athugasemdir og innlegg í þessa umræðu.

Ég vil í fyrsta lagi taka undir með hv. þm. Steingrími Sigfússyni um nauðsyn þess að þjóðin verði vel upplýst um þær breytingar sem fram undan eru. Mér er reyndar kunnugt um að ríkisskattstjóraembættið er með opna línu, en ég er hræddur um það hafi ekki verið auglýst nægilega vel.

Í annan stað vil ég þakka fjmrh. fyrir ágæta ræðu og vinsamleg orð í garð nefndarinnar sem ég geri engan ágreining um.

Fáein atriði sem komið hafa hér til umfjöllunar. Menn hafa sagt, bæði Steingrímur Sigfússon og Óli Þ. Guðbjartsson, að hér sé um mikla skattaþyngingu að ræða. Óli Þ. Guðbjartsson og Benedikt Bogason töluðu um að það væri þynging um fjórðung. Það væri auðvelt að sjá af því að 3,4% færu upp í 4,2%. En ef menn hins vegar skoða útreikninga sjá menn að það sem hér um ræðir — og því eru ítarleg skil gerð í álitsgerð milliþinganefndarinnar — er 2–3% af tekjum. Mismunur á því hvað menn borga stóran hluta af tekjum sínum á hinum algengustu tekjubilum fer hæst upp í 2–3%. Ég held að það gefi réttari mynd af því hvað hér um ræðir en að vitna í þessar tölur, 3,4 og 4,2. Auk þess ber þá að taka tillit til þess að inni í þeim tölum, þegar verið er að reikna 2–3%, er ekki tekið að vísu hvernig skattlagning á bifreiðastyrkjum og þess konar hlunnindum kemur inn.

Það sést líka að hátekjufólk fær ekki lækkun. Þetta er reiknað allt upp í 10 millj. kr. árstekjur. Og hvernig stendur á því? Skýringin er sú sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. Við höfum nefnilega alls ekki verið með jaðarskatt upp á 47,5% í reynd. Þegar tekjubreytingar og verðlagsbreytingar eru miklar milli ára, ef við reiknum það af tekjuárinu, er jaðarskattur nú einhvers staðar í kringum 34% þannig að jaðarskatturinn miðað við tekjuárið, það ár sem menn eru að greiða skattana, er mjög svipaður eftir sem áður. Það er skýringin á því, ef menn skoða þessar töflur, að á háum tekjum, jafnvel upp í 10 millj. kr. árstekjur, þá er skattbyrðin heldur að aukast milli áranna. Engu að síður geta menn vitaskuld haft skoðun á því að það eigi að vera fleiri skattþrep, en það hefði gert framkvæmdina alla miklu flóknari eins og ég held að öllum eigi að vera ljóst.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon talaði um skattþyngingu á fyrri hluta næsta árs. Ég skal viðurkenna að vaxtaafsláttur kemur ekki til útgreiðslu fyrr en á miðju ári, en það er það sem ég sé fyrst og fremst í þessum tillögum sem megi leggja út á þann hátt að það verði skattbyrðisaukning hjá einhverjum hópum á fyrri hluta næsta árs miðað við það sem þeir hafa átt að venjast. Það er hins vegar séð fyrir barnabótunum, þær eru fyrirframgreiddar. Ég held að það sé ekki hægt að tala um að aðrir frádráttarliðir hafi nýst mönnum þannig í gegnum tíðina að það þýði beinlínis sérstakan tilflutning á skattbyrði innan ársins. (Gripið fram í.) Já, en það hefur verið einn mánuður á fyrri hluta ársins og einn mánuður á síðari hluta ársins sem menn hafa verið skattlausir. Ekki nema fyrri hluti ársins nái átta mánuði fram í tímann hjá hv. þm. (Gripið fram í.) Við skulum ekki deila um það að ágúst er áttundi mánuður ársins.

Hv. þm. gerði nokkuð að umtalsefni að vísitölufjölskyldan þyrfti 1300 þús. kr. til að framfæra sig. Það má vel vera að það sé rétt og ég dreg það ekki í efa. En af þeirri upphæð var matarliður upp á tæpar 25 þús. kr. á mánuði og af því reiknaði hv. þm. hækkun upp á 1400 kr. í útgjöldum á mánuði eða um 20 þús. kr. á ári. En ef fjölskyldan eyddi þessum 108 þús. kr. á mánuði, sem þm. var að gera ráð fyrir, eru þarna eftir 83 þús. kr. sem fjölskyldan hefur í útgjöld til annarra hluta og ef fram fer sem horfir og eins og ríkisstjórnin hefur markað stefnumálum sínum bás mundi verulegur hluti af þeim útgjöldum bera lægri skatta í óbeinum sköttum en áður, þessum útgjöldum sem eru upp á 83 þús., og heildarútkoman á náttúrlega að vera núll samkvæmt þeim boðskap sem út hefur gengið einmitt miðað við vísitölufjölskylduna. En hitt er annað mál að þetta kemur mismunandi út miðað við hvers konar tekjur menn hafa og hvers konar fjölskyldu menn hafa. En að því leytinu held ég að það sé misvísandi að taka þessa viðmiðun að einmitt þessi fjölskylda á að geta komið jafnvel út.

Þm. spurði: Hvers vegna ekki vaxtaafslátt lengur en sex ár? Þm., Steingrími Sigfússyni, er kannski kunnugt um að mín skoðun var sú að þetta mætti framlengja til lengri tíma, t.d. tíu ára. Það er ekki í frv. eins og það liggur núna fyrir, en við höfum alla vega sex ár til að ganga úr skugga um hvort ekki sé ástæða til að framlengja þetta. Við erum því ekki búnir að missa af strætisvagninum í þeim efnum hvernig sem þetta mál fer.

Þm. spurði um aukaskattkort, hvernig fara eigi með ef menn vinna hjá mörgum. (Forseti: Þar sem klukkan er nú orðin sex vil ég spyrja ræðumann hvort hann á langt mál eftir.) Herra forseti. Ef ég mætti aðeins taka fáein atriði til viðbótar og reyna að láta mér duga það. (Forseti: Já, ég mun fallast á nokkrar mínútur til viðbótar ef það nægði til þess að ræðumaður lyki máli sínu.) Ég skal leitast við að stytta mál mitt.

Spurt var um aukaskattkort. Það er þannig að ef menn vinna hjá fleiri en einum aðila verða menn að fá sér aukaskattkort til að nýta persónuafsláttinn sinn á þeim stöðum þar sem menn vinna. Það er gert ráð fyrir því og voru einmitt rýmkaðar ýmsar heimildir í sambandi við það í meðferð nefndarinnar.

Ég ætla þá aðeins að víkja fáeinum orðum að þeim tillögum sem þm. Borgarafl. hafa lagt fram. Það var misskilningur hjá hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssyni að hann væri að leggja fram tillögur varðandi 5. gr. sem væru nákvæmlega eins og milliþinganefndin hefði gengið frá því. Hann hefur misskilið það, þær tillögur sem milliþinganefndin lagði fram um þetta efni og birtast í fylgiriti með álitsgerðinni varða álagningu á árinu 1987 en ekki framtíðina eins og menn munu sjá ef þeir skoða orðalagið og lesa nákvæmlega hvernig þetta fskj. lítur út. Það varðar breytingar á lögum sem í gildi eru þangað til staðgreiðslan tekur gildi, og því einungis álagningu á árinu 1987, og þess vegna er hér á ferðinni misskilningur hjá þm. Borgarafl.

Ég held líka, þó að meiningin kannski komist til skila, að það sé ákaflega varasamt að bera fram tillögu um að ellilífeyrisþegi skili inn skattkortinu sínu vegna þess að við það lendir hann í því að borga full 35% af ellilífeyrinum sínum í skatt. Ef hann hefur ekkert skattkort hefur hann engan persónuafslátt. Ég vil því beina því til þm. Borgarafl. að þeir endurskoði tillögur sínar þannig að þær verði brúklegar því að ég held að það sé ljóst hvað fyrir þeim vakir.

Herra forseti. Það eru fjölmörg atriði sem ég hefði í sjálfu sér haft áhuga á að reifa hér, en ég taldi mikilvægast að koma alla vega þessum atriðum til skila.

En ég vil einungis minna á það að lokum, þegar við nú þráttum um prósentur og framkvæmdaatriði, hvers vegna við erum að taka upp staðgreiðsluskatta. Það er vegna þess að við erum óánægð með eftirágreiðsluskattkerfið vegna þess að menn hafa verið að drepast undan skattahalanum sínum, vegna þess að þetta hefur verið öryggi fyrir sveitarfélögin og ríkið. Það er af þessum sökum sem við erum að taka upp staðgreiðslu. Það er mikils virði fyrir sveitarfélög, fyrir ríki og ekki síst fyrir launþegana sjálfa að við skulum vera að taka upp staðgreiðslu og hefði mátt vera fyrr.

Herra forseti. Vegna þess hversu naumt er skammtaður tíminn mun ég stilla mig um að ræða þetta frekar eða svara ýmsum öðrum ábendingum sem hér hafa fram komið, en væntanlega gefst til þess tækifæri síðar.