08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það gengur ekki hjá hæstv. ráðherra að ætla að fara á handahlaupum frá málunum með þessum hætti. Hæstv. ráðherra hóf framsöguræðu einmitt um það að segja að þessar tekjuskattsbreytingar eða kerfisbreytingar yrðu ekki slitnar úr samhengi við önnur mál í skattakerfinu almennt og fór um það mörgum fögrum orðum að hann væri að gera þar víðtækar ráðstafanir og tíundaði þær nokkuð, tvinnaði þar með saman öll efnisatriði og alla efnisþætti þeirrar víðtæku skattkerfisuppstokkunar sem fyrir dyrum stendur. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að aðrar spurningar hafi verið um óskyld efnisatriði sem ekki eigi heima í umræðunni, eða ég skildi hann svo, og þar með er hæstv. ráðherra kominn í beina mótsögn við sjálfan sig og sína eigin framsöguræðu. Ég ítreka það því að það gengur ekki að ljúka þessari umræðu án þess að hæstv. ráðherra svari beinum efnislegum spurningum. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson svaraði svona þriðjungi, kom inn á þriðjung af því sem spurt var um. Það var spurt um bein efnisatriði, eins og húsnæðisbætur sem hv. þm. minntist ekki á. Þar spurði ég ítrekað um þær breytingar sem orðið hafa á þeim lið frá því sem milliþinganefndin vann með. Það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra svari þar til. Ég spurði um einstaka hópa eins og námsmenn og ýmsa fleiri. Ég held að ráðherrann komist engan veginn upp með að skýla sér á bak við annars ágæta ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, sem aðeins kom inn á brot af því sem hér var til umfjöllunar, og ég sé enga nauðsyn til þess að hv. þm. gefi sér ekki tíma til að ljúka þessari umræðu með skaplegum hætti á fundi deildarinnar á morgun. Ég tel að það ætti ekki að taka jafngagnorðan mann og hæstv. ráðherra nema svo sem stundarfjórðung að svara, ef hann undirbýr sig vel í nótt, þeim spurningum sem til hans var beint. Af minni hálfu er það alveg fyrir séð, herra forseti, að ég mun ekki lengja umræðuna á þeim fundi.