12.12.1987
Efri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

Vinnubrögð í efri deild

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í fjh.- og viðskn. þessarar virðulegu deildar var í gærmorgun fjallað um hvernig sú nefnd mætti skila af sér í næstu viku þeim mörgu frumvörpum sem fyrir henni liggja. Nefndinni tókst greiðlega að tala sig í gegnum þau verkefni sem fyrir henni liggja þannig að það er alveg ljóst að hún getur komið málum frá sér með eðlilegum hætti í næstu viku. Þá var ekki séð af viðræðum fulltrúa flokkanna í þessari deild að það bæri neina nauðsyn til að halda fund í deildinni á laugardegi, enda hygg ég að það hafi sést að á þessum fyrra fundi voru ekki mál sem hefði ekki mátt bíða með að afgreiða til nefndar eftir helgi. En látum það vera. Það er búið. Ég taldi þess vegna að það væri tæplega þörf á að vera að halda einn fund í dag, hvað þá heldur tvo, sem hæstv. forseti hefur nú ákveðið að boða, og ég mótmæli. Ég hef ekki heyrt af neinum samningum um að slíkur fundur væri haldinn. Ég hef ekki frétt af neinum málum sem standi til og brýnt sé að taka fyrir í þessari deild til að tryggja að málið nái fram að ganga fyrir þinghlé. Ég sé enga ástæðu til að halda þennan fund hér á eftir og auk þess, herra forseti, mótmæli ég svona vinnubrögðum. Stjórn þingsins, forsetar og stjórnarflokkar ráða ekki þessu þingi ein. Það á ekki að setja fundi hér öðruvísi en með samkomulagi við stjórnarandstöðuflokkana. Þið eigið það undir stjórnarandstöðuflokkunum að það verði hægt að vinna sig í gegnum þetta þing á næstu dögum. Þið komist ekki í gegnum þingið öðruvísi. Það er ljóst. Og ég mótmæli fundinum á eftir sem óþörfum.