12.12.1987
Efri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

Vinnubrögð í efri deild

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég kem hér hlaupandi móður og másandi til að geta tekið með eðlilegum hætti þátt í umræðum. Það brá þannig við þegar ég mætti niðri í Alþingishúsi kl. hálftvö og sá hver dagskráin var, að fyrir lá að þar yrði á dagskrá Háskólinn á Akureyri. Þar sem ég hafði undirbúið langa ræðu til að flytja undir þeim dagskrárlið flýtti ég mér heim til að sækja hana því að ég hafði ekki gert mér ljóst að það mál yrði á dagskrá hér í eftirmiðdag. Það fór sem fór, að meðan ég fór heim að ná í þessa löngu ræðu mína klárast málið á fundinum á meðan. Þetta sýnir betur en annað hversu nauðsynlegt er að skipuleggja dagskrá alþingisfunda með löngum fyrirvara eins og þeir segja reyndar hinir norsku ráðgjafar sem hér hafa verið að verki í heilt ár. Þeir skrifa reyndar um það í þeirri skýrslu sem þeir hafa nú afhent Alþingi, en þar hafa þeir einmitt lagt til að dagskrá deildafunda verði ákveðin fyrir heila viku í einu þannig að menn geti gengið að því vísu hvaða mál verði á dagskrá hverju sinni. Þó kann að vera að í jólaönnunum verði slíkt erfitt.

En látum vera. Ég fæ eflaust tækifæri til að segja mitt álit á háskóla á Akureyri við 2. og 3. umr. Ég hef ýmislegt við frv. að athuga og hefði mjög gjarnan kosið að fá tækifæri til að láta þær skoðanir mínar í ljós strax við 1. umr. En það verður svo að vera.

Hins vegar er frv., sem hefur verið lagt fram í deildinni af hálfu okkar þm. Borgarafl. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka, búið að þvælast í deildinni mjög lengi. Nú kann að einhverju leyti að vera við mig sjálfan að sakast, en ég er 1. flm. þessa frv., þar sem ég hef ekki lagt á það mjög ríka áherslu í fundahaldinu í lok nóvember og byrjun desember þar sem ég taldi að það væri skynsamlegt að frv. yrði rætt um leið og umræður færu fram um frv. hæstv. félmrh. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Nú er það frv. einmitt til umræðu í hv. Nd. Ég hefði því talið mjög eðlilegt og alveg nauðsynlegt að ræða frv. til l. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka, sem við lögðum fram hér, ég og hv. 11. þm. Reykv., Guðmundur Ágústsson, í hv. deild fyrir alllöngu. Ég tel að það sé brýnt að það frv. sé nú tekið á dagskrá og fáist rætt í samhengi við þær hugmyndir sem felast í frv. hæstv. félmrh. um húsnæðismál sem nú eru til umræðu í hv. Nd. Þess vegna mæli ég eindregið með því og legg til að frv. verði nú tekið á dagskrá.