12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. félmn. á þskj. 242 sem ég stend að og brtt. við frv. á þskj. 237 sem ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Í kjölfar samninga aðila vinnumarkaðarins í febrúar 1986 voru samþykkt núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins sem þó náðu aðeins til hluta lánakerfisins. Voru þau lög samþykkt með þeim fyrirvara sem fram kemur í nál. meiri hl. þáv. félmn. á þskj. 1017 frá 108. löggjafarþingi að húsnæðislánakerfið yrði tekið til gagngerrar endurskoðunar með sérstöku tilliti til félagslegra íbúða, leiguíbúða, íbúða fyrir aldraða, öryrkja og námsmenn, svo og með því að kanna leiðir til að koma til móts við þá sem hafa lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til.

Slík endurskoðun hefur enn ekki farið fram og verður því að líta á breytingar á núgildandi lögum sem skammtímalausn til að leysa úr brýnasta vandanum nú vegna þeirra fjölmörgu umsókna sem liggja hjá Húsnæðisstofnun.

Frumvarpið hefur það að markmiði að tryggja betur forgang þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir lánafyrirgreiðslu, draga úr sjálfvirkni í útlánum og fjárþörf húsnæðiskerfisins og draga úr þenslu á fasteignamarkaði.

Með frumvarpinu er ekki verið að gera grundvallarbreytingar á húsnæðislánakerfinu en slík endurskoðun er nauðsynleg í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af núgildandi lánakerfi.

Frumvarpið, með þeim breytingum sem meiri hl. nefndarinnar flytur við það, gerir ráð fyrir að færa í forgangshóp þá sem eiga ófullnægjandi íbúð og þurfa að skipta um húsnæði af fjölskylduástæðum. Þetta er mikilvæg breyting vegna þess að margar stórar fjölskyldur eru oft í mun erfiðari aðstöðu en ýmsir sem eru að byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn.

Þessi breyting er lögð til í 3. gr. frv. og er skýrar orðað í brtt. þeirri sem meiri hl. félmn. hefur gert við frv. en þar er tekið fram að heimilt sé að setja í forgangshóp þá sem eiga ófullnægjandi íbúð og þurfa að skipta um húsnæði af fjölskylduástæðum.

Sjálfsögð er sú breyting á núgildandi lögum að takmarka rétt þeirra sem eiga margar íbúðir fyrir eða miklar eignir. Tel ég að þeir sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn, svo og þeir sem eru að stækka við sig vegna ófullnægjandi íbúðarhúsnæðis, eigi að hafa rétt til lána hjá Húsnæðisstofnun með lágum vöxtum.

Með 1. gr. frv. og þeim breytingum sem lagðar eru til að verði gerðar á henni er verið að reyna að takmarka lánsrétt þeirra sem minnst eða alls ekki þurfa á láni að halda. Ég tel þá takmörkun ganga allt of skammt og muni ekki ná þeim tilgangi að draga verulega úr fjárþörf lánakerfisins.

Það ber að hafa í huga að mjög erfitt er að fá fram hver raunveruleg eign manna er. Á að miða eingöngu við íbúðareign eða eignastöðu almennt? Það er alveg ljóst að ákveðnir menn hafa aðstöðu til þess að veðsetja eignir sínar að verulegu leyti og geta því látið líta þannig út á pappírunum að þeir eigi mjög litla íbúðareign en þeir geta að sjálfsögðu átt verulega miklar eignir þrátt fyrir það, þannig að það er vafasamt að telja að það sé eingöngu hægt að miða við íbúðareign ef á að skerða rétt manna til lána í kerfinu sem stóreignamanna. Ég tel því að sú skerðing sem ætlunin er að ná fram með 1. gr. frv. gangi ekki nógu langt né heldur sú brtt. sem lögð er til en hún er þó mjög í áttina. Það eru mjög margir sem hvorki vilja né geta veðsett eignir sínar og virðast þá kannski eiga miklar eignir af því að íbúðareign þeirra er mikil. Þess vegna er kannski dálítið erfitt að framkvæma þetta en það þarf að líta nánar á hvernig hægt er að takmarka rétt þeirra sem eru stóreignamenn í kerfinu en þar sem reglur um þetta liggja ekki fyrir þá er náttúrlega ekki hægt að ætlast til þess að þetta skerði verulega mikið og verður sjálfsagt ekki mikil breyting á fjárþörf sjóðsins bara vegna þess ákvæðis sem þar stendur þó að það geti sjálfsagt verið eitthvað.

Einnig set ég spurningarmerki við það hvort rétt sé að þeir sem eiga eina íbúð eigi yfirleitt að njóta sömu lánafyrirgreiðslu og þeir sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn nema þá með undantekningum vegna þeirra sem eru að stækka við sig vegna fjölskylduaðstæðna, flutninga á milli landshluta, vegna veikinda eða einhverra sérstakra aðstæðna. Einnig held ég að það verði að vera ákvæði um það að þeir sem eru að minnka við sig, t.d. eldra fólk sem býr í stóru húsnæði og þarf á skammtímalánum að halda, á meðan það er að flytja sig á milli húsa, kannski er það að fara í þjónustuíbúð, þá held ég að það sé mjög mikilvægt að það geti fengið lán til skamms tíma, og það geta verið hærri vextir á þeim lánum, því að margt af þessu fólki er sæmilega efnum búið þó að það gildi alls ekki um alla, þannig að það geti verið mismunandi kjör fyrir þá sem eiga rétt á fyrirgreiðslu hjá Húsnæðisstofnun.

Eins og ég sagði áðan eru þær takmarkanir sem 1. gr. gerir ráð fyrir með þeim breytingum sem lagðar eru til þó í áttina og hef ég því ákveðið að styðja þá breytingu á núgildandi lögum þó að ég ítreki enn að mér finnist hún ekki ganga alveg nógu langt.

Í 1. gr. er einnig talað um að um stærðarútreikninga eigi að gilda sömu reglur og skv. c-lið 13. gr. laga nr. 60/1984, með síðari breytingum. Ég vakti athygli á þessu atriði í félmn. vegna þess að ég tel að það sé möguleiki á að túlka þetta ákvæði þannig að við værum að kalla eftir öllum teikningum inn í Húsnæðisstofnun. Ef ég les upp, með leyfi forseta, fyrst það sem stendur í núgildandi lögum, þessum sem vísað er til í 1. gr. frv.:

„Stærðarútreikningur íbúða skal nánar tilgreindur í reglugerð þar sem tekið er skýrt fram hvert sé nýtingargildi húsnæðis.“

Ef við síðan förum í 8. gr. reglugerðar nr. 181 1986, sem er breyting á reglugerð nr. 321/1984, þá stendur þar, með leyfi forseta:

„Til grundvallar öllum útreikningum skulu lagðar fram teikningar sem samþykktar hafa verið af byggingarnefnd“.

Ég held að þetta geti verið mjög vafasamt ef þetta verður túlkað þannig að við vildum láta kalla eftir öllum teikningum á íbúðum til að meta stærð þeirra í Húsnæðisstofnun. Enginn okkar sem var í félmn. vildi túlka þetta þannig og ég tel að stærðarútreikningar Fasteignamats ríkisins eigi að gilda þannig að Húsnæðisstofnun geti fengið upplýsingar þaðan um stærð íbúða. Annað fyrirkomulag kallar á allt of mikla vinnu bæði fyrir umsækjendur og ekki síður fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins. Við vorum öll sammála um það í félmn. að með ákvæðinu um stærðarútreikninga væri ekki átt við að teikningar af íbúðum ætti að yfirfara og reikna á Húsnæðisstofnun heldur bæri að fara eftir stærðarútreikningum Fasteignamatsins. Það má líka taka það fram hér að nú er Húsnæðisstofnun ríkisins komin í tölvusamband við Skýrsluvélar ríkisins og þar með getur hún fengið beint samband við Fasteignamatið og upplýsingar um stærð íbúða þannig að það ætti að vera mjög auðvelt að fá uppgefið hver stærð íbúða er og ætti alls ekki að þurfa að kalla eftir neinum teikningum til að yfirfara inni í Húsnæðisstofnun. Þetta hlýtur að vera til mikillar einföldunar en ég vildi bara ítreka þetta. Og ef þetta er ekki rétt haft eftir varðandi aðra nefndarmenn í félmn. vil ég að þeir leiðrétti mig. Ég vildi bara taka þetta fram hér vegna þess að það kom ekki fram í máli frsm. meiri hl. nefndarinnar þetta ákvæði sem ég vakti þó sérstaklega athygli á í nefndinni og hafði áhyggjur af.

Í 2. gr. frv. er lagt til að hætt verði að gefa bindandi svar um lánstíma og lánsupphæð fyrr en a.m.k. einu ári áður en lán er veitt. Hins vegar fái menn svar innan þriggja mánaða frá umsókn um það hvort þeir eigi rétt á láni. Ég óttast að sú tilhögun komi ekki í veg fyrir verslun með þá pappíra sem fólk fær í hendur eins og tíðkast hefur í einhverjum mæli með þau lánsloforð sem fólk fær nú. Ég tel því að ekki eigi að gefa nein svör um lán fyrr en endanlegt svar um lánstíma og lánsupphæð liggur fyrir og flyt brtt. við 2. gr. frv. á þskj. 237 ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hljóðar brtt. svo, með leyfi forseta: „Við 2. gr. Greinin orðist svo:

Í stað 1. málsl. 6. mgr. (verður 7. mgr.) 12. gr. laganna komi tveir nýir málsliðir er orðist svo: Umsækjendur, sem ekki uppfylla skilyrði laga þessara um lánveitingu skv. 13., 14., 18. og 25. gr., skulu innan þriggja mánaða frá því að umsókn var lögð inn fá svar ef um synjun er að ræða. Endanleg svör um afgreiðslutíma láns og lánsfjárhæð berist eigi síðar en ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu.“

Ef þessi brtt. verður samþykkt fá menn ekki nein svör í hendur fyrr en það liggur ljóst fyrir hver lánsupphæð er og hvenær lánið verður greitt út. Engin svör um það að fólk fái lán einhvern tímann í framtíðinni. Það getur varla skipt máli nema — og þá kemur að því sem ég óttast — nema fólk fari með þessi hálfgildings- eða bráðabirgðalánsloforð og fái lán út á þau og greiði háar fjárhæðir í vexti og afföll eins og tíðkast hefur um þau lánsloforð sem nú eru gefin út. Það verður e.t.v. um verra ástand en nú að ræða vegna þess að bráðabirgðaloforðin verða væntanlega enn minna virði en lánsloforðin og því þarf e.t.v. að greiða enn meiri afföll og enn þá hærri vexti af þessum bráðabirgðalánsloforðum og vil ég vara eindregið við að gefa út slík loforð eða svör. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að fólk geti farið með pappírinn á verðbréfamarkaðinn og fengið lán út á hann með enn hrikalegri afföllum en af þeim lánsloforðum sem nú eru gefin út.

Þeir fulltrúar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins sem komu á fund nefndarinnar töldu enga bót að því að gefa út þessi bráðabirgðaloforð eða bráðabirgðasvör og vöruðu jafnvel við að slíkir pappírar yrðu gefnir út með þeim afleiðingum sem það gæti e.t.v. haft í för með sér. Fulltrúi Vinnuveitendasambandsins varaði m.a.s. sérstaklega við þessu og taldi að þetta gæti orðið mjög hættulegt. Fulltrúar Húsnæðisstofnunar sem komu á fund nefndarinnar vöruðu einnig við þessu fyrirkomulagi, bæði vegna þeirrar hættu sem í því gæti verið fólgin varðandi sölu bréfanna, svo og vegna þeirrar miklu vinnu sem í því er fólgin að senda hverjum umsækjanda bréf, fyrst um það hvort þeir fá lán og síðan aftur um lánsupphæð og lánstíma. Þetta krefst aukinnar vinnu fyrir Húsnæðisstofnun og ætla má að tvo til þrjá starfsmenn þurfi að ráða til að annast þetta verkefni sérstaklega. Mig langar því til að spyrja hæstv. félmrh. hvort hún hafi gert sér grein fyrir því að það þarf að ráða fólk sérstaklega á Húsnæðisstofnun ef á að fara að svara þessum umsóknum núna vegna þess að þetta er aukaálag á starfsmennina og ég hef spurnir af því að þeir telji að það þurfi a.m.k. tvær, jafnvel þrjár manneskjur til að gera þetta ef það á að fara í þetta núna. Ég ætla að beina því til ráherra hvort hún telji ekki bót að því að breyta þessum lögum í áttina til þess sem brtt. okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar gerir ráð fyrir, bæði út af þeim áhyggjum sem ég hef af sölu loforðanna og líka vegna þess vinnuálags sem verður á Húsnæðisstofnun við það að fá þetta aukaverkefni.

Ég skil þar af leiðandi ekki að það séu nokkur rök sem mæla með því að gefa út þessi bréf. Ég held að það sé alveg ljóst að sérhver umsækjandi getur að nokkru leyti sagt sér hvaða lánsrétt hann hefur ef hann hefur greitt í lífeyrissjóð undanfarna 20–24 mánuði áður en umsókn er lögð inn og það ætti því að vera óþarfi að svara þeim aðilum. Aftur á móti mundi Húsnæðisstofnun halda áfram að synja þeim sem skila ekki inn gögnum eða geta ekki staðið undir íbúðakaupunum sem þeir eru að fara út í eða eiga ekki rétt á láni af öðrum ástæðum. Ef alltaf er auglýst öðru hverju hverjir væru að fá svör þannig að umsækjandi geti fylgst með því hvort er að koma að honum eða ekki að fá ákveðið svar um útgreiðslu láns og fjárhæð ætti það að nægja. Þannig ætti að vera nóg bara að auglýsa ef það er gert með reglulegu millibili, þá held ég að það væri ekki nokkur maður í vafa um það hvenær röðin væri komin að honum. Ég get því ekki séð nokkur einustu rök sem mæla með því að þessi bráðabirgðaloforð verði send út, en flestallt sem mælir gegn því eins og gert er ráð fyrir því í 2. gr. frv. og brtt. félmn. Þess vegna vil ég spyrja frsm. meiri hl. félmn., hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson, hvað mæli með útgáfu á svari eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. Ég heyrði ekki neitt talað um það í gær eða fyrradag þegar mælt var fyrir þessu frv. Ég vil einnig beina þessu til annarra nefndarmanna sem hér eru: Hvaða rök mæla með því að gefa út þessi loforð sem ég held að séu engum til góðs?

Vandi húsnæðislánakerfisins leysist því miður ekki með þessu frv. Fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins hafa ekki verið og eru ekki í neinu samræmi við það sem þarf til þess að kerfið nái jafnvægi. Er nú ljóst að ef ekki verður stefnubreyting í þessu máli verður sjóðurinn gjaldþrota innan fárra ára. Í fjárlagafrv. fyrir 1988 er gert ráð fyrir að ríkissjóður bindi 500 millj. kr. af skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna fram yfir áramótin 1988/1989, þannig að raunverulega er aðeins gert ráð fyrir 500 millj. kr. framlagi ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins sem er að sjálfsögðu allt of lágt. Ef ég man rétt þá var í frv. sem lagt var fram í kjölfar kjarasamninganna 1986 gert ráð fyrir að fjárveiting ríkissjóðs yrði um einn milljarður þannig að ef gert er ráð fyrir svipuðu, þá ætti það a.m.k. að vera 1500 millj. og dugar varla til. Ég held því að það sé nauðsynlegt að taka þetta til endurskoðunar, en þetta er nákvæmlega sama stefna gagnvart byggingarsjóðunum og fyrrv. ríkisstjórn hafði varðandi fjármögnun byggingarsjóðanna og hæstv. félmrh. gagnrýndi mjög á síðasta kjörtímabili. Þetta framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins er svo lítið að það er á engan hátt í samræmi við þann mikla mun sem er á þeim vöxtum sem sjóðurinn greiðir af lánunum sem hann tekur hjá lífeyrissjóðunum og þeim vöxtum sem fólk greiðir af lánunum sem þó eru allt of háir og mörgum ofviða. Það mun því stefna í gjaldþrot sjóðsins ef ekki verður á stefnubreyting.

Ég vil að lokum, herra forseti, benda á það vegna þeirra rúmlega 6000 umsækjenda, sem nú bíða eftir svari frá Húsnæðisstofnun ríkisins um lán og sótt hafa eftir 13. mars, að þeir fá engin lán núna strax eftir að þetta frv. verður samþykkt. Því miður. Þeir sem lögðu inn umsókn á tímabilinu 13. mars til u.þ.b. 15. apríl og eiga ekki íbúð fyrir fá ekki fyrsta hluta lána sinna fyrr en í lok ársins 1988. Á þessum mánuði sóttu u.þ.b. 200 manns um þannig að þetta eru um 200 umsóknir sem þarf að afgreiða frá 13. mars til 15. apríl. Meginþorri þeirra 6000, sem mikið hefur verið talað um bæði úr þessum ræðustól og svo í fjölmiðlum, fær ekki nein lán frá Húsnæðisstofnun fyrr en árið 1989 eða síðar. Mér finnst því alveg óþarfi hjá hæstv. félmrh. að segja af sér vegna þessa frv. Ég er hins vegar alveg sammála henni í því að flýta afgreiðslu þessa máls eins og unnt er og ætti okkur ekkert að vera að vanbúnaði með það. Þetta frv. hefur hlotið meiri umfjöllun en mörg önnur mál hér á þinginu og tiltölulega góður tími gefist til að fjalla um það í nefnd. Það á hins vegar ekki það sama við um mörg önnur frv. sem liggja nú fyrir þinginu.

Hér eru lögð fram lagafrv. um stór mál sem munu hafa veruleg áhrif á líf fólksins í landinu til hins verra fyrir flesta að mínum dómi og hefði þurft miklu meiri tíma til að fjalla um þau en nú lítur út fyrir að við eigum að fá.

Þar sem frv. sem hér er til umræðu með þeim breytingum sem meiri hl. nefndarinnar flytur gengur í átt til réttlatara húsnæðiskerfis mun ég styðja það með fyrirvara um 2. gr. frv. Og ég tel eins og ég sagði áðan ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða það á tiltölulega stuttum tíma þó að ég skilji ekki alveg allar þær yfirlýsingar um lausn fyrir þá sem eru að bíða eftir svörum. Það koma nefnilega engin lán á morgun fyrir þetta fólk. Ég er hrædd um að margir af þeim sem nú bíða telji að svo verði með samþykkt þessa frv. Ég held að mjög margir standi í þeirri trú að með samþykkt þessa frv. verði þeirra mál leyst og þeir fái lán, ef ekki á morgun þá mjög fljótlega, en meginþorri þeirra sex þúsunda, eins og ég sagði áðan, fær ekki nokkurn skapaðan hlut fyrr en árið 1989 eða síðar, þannig að mér finnst óþarfi að gefa fólki falskar vonir og ég vona svo sannarlega að allt þetta fólk, þessi sex þúsund, standi ekki í þeirri trú að það eigi að fá lán núna strax eftir jól, en því miður óttast ég það.