20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Hér hefur margt komið fram og ég veit ekki hversu langur tími verður til að víkja að því. Ég vil þó aðeins reyna að drepa á nokkur atriði.

Í sambandi við mat á vatninu þá er það ekki mat yfirdýralæknis, það er mat Hollustuverndar ríkisins sem kveður upp sinn úrskurð og segir: „Vatn ónothæft.“ Það er hér í bréfi. Hér er talað um yfirdýralækni en leitað hefur verið til margra einstaklinga, margra dýralækna annarra, um hvort þeir vildu annast þarna heilbrigðisskoðun og taka ábyrgð á því og það hefur ekki fengist enn þá. Það þýðir ekkert fyrir Bílddælinga að gefið sé út leyfi nema einhver vilji skoða kjötið. Og það ætluðum við að gera. Ef einhver fengist til að skoða kjötið þá mundi leyfið verða gefið út.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þeirra fullyrðinga sem hér virðast hafa komið fram um að aðrir dýralæknar en yfirdýralæknir hafi ekki sjálfstæða skoðun til þess að meta þessa hluti.

Hér var talað um ofríki valdsins úr Reykjavík. Það er alveg rétt að það er Alþingi sem setur lögin og kveður á um þetta. Það getur vel verið að sumir telji að það skorti að ráðherrar gangi á svig við lögin, að slíka ráðherra vanti, en ekki þá sem fara eftir lögunum.

Hér var minnst á skýrslu sláturhúsanefndar. Hún mun koma til umræðu hér á Alþingi þegar þau bráðabirgðalög sem ég gat um áður verða til umræðu. Og það verður Alþingi sem tekur afstöðu til þessarar skýrslu en ekki aðrir aðilar, hvernig Alþingi vill framhald þessa lagaákvæðis sem fellur út 1. júní á næsta ári og þá verður Alþingi að móta þá stefnu hvernig það skal áfram halda. En ef Alþingi ákveður að breyta þessum lögum nú þegar — eins og hv. 1. þm. Vestf. sagði, en hann talaði um að flytja frv. og vill breyta lögunum þannig að þetta hús skuli fá sláturleyfi og Hollustuvernd ríkisins mun þá sennilega verða að fallast á að heimila sölu á þessu kjöti þó að það hafi ekki verið skoðað — en ef Alþingi samþykkir lög um það, þá gildir það að sjálfsögðu og ekki set ég mig upp á móti því.

Varðandi það hvort um vatnið hafi verið gerðar meiri kröfur til kjöts en fólks þá þarf að spyrja Hollustuverndina um það því að eins og ég sagði er það hennar mat í þessu efni sem gildir en ekki annarra og þá einnig hennar að gera slíkar ráðstafanir.

Ég vil ítreka að landbrn. hefur leitað eftir því að fá þarna aðila til eftirlits til þess að slátrun geti farið fram á viðunandi hátt eins og lögin kveða á um og það hefur ekki staðið á því að gefa út leyfi ef slíkur aðili finnst.