16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

198. mál, tollalög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt, tefja ekki þessa umræðu úr hófi, en eins og fram hefur komið við þessa umræðu fyrr í kvöld hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. og 7. þm. Reykv., þá kom ég með nokkrar athugasemdir og ábendingar við 1. umr. þessa frv. varðandi vörur í einstaka tollskrárflokkum sem ég taldi að þyrfti að breyta, þ.e. að lækka eða fella niður tolla á.

Nefndin hefur tekið þessar ábendingar mínar til greina og vil ég þakka það sérstaklega. Með þeim breytingum er farin skynsamleg leið sem stuðlar að því að lækka verð á hlutum í farartæki sem væntanlega stuðlar að auknu umferðaröryggi. En það eru einmitt oftast þeir efnaminni sem eiga gömlu farartækin sem þurfa viðhald og því er brýnt að varahlutir séu ekki í háum tollflokkum þannig að verði þeirra verði í hóf stillt.

Það kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. að nefndin hafi hugsað um samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu, svokallaðrar verndarvöru, t.d. með hækkun tollaflokks á álpönnum. Einnig kom fram í umræðunni að fulltrúar garðyrkjubænda hefðu komið á fund nefndarinnar varðandi innflutning grænmetis og plantna eða blóma, pottaplantna. Ég vil benda á að það er ekki síður þörf á að taka tillit til samkeppnisaðstöðu íslenskrar framleiðslu á grænmeti og blómum, t.d. afskornum blómum, sem er mjög viðkvæm vara og lítt geymsluþolin, en þau eru í 30% tollaflokki, pottablómin hins vegar ekki. Ég vil því taka undir það að hagsmuni þessara aðila þarf að tryggja á sama hátt og varðandi aðrar verndarvörur, t.d. eins og álpönnurnar sem ég nefndi hér áðan.

Hv. 7. þm. Reykv. spurði hvað væri á móti því að fresta gildistöku frv. til 1. mars. Þetta viðhorf kom einnig fram hjá hv. 6. þm. Reykv. Hv. 7. þm. Reykv. spurði: Hvað er á móti því að fresta lækkun tolla? Mér finnst nú vera ýmislegt sem mælir á móti því, t.d. ef horft er til heimilanna, sem hv. 7. þm. Reykv. ber fyrir brjósti eins og sú sem hér stendur, og reyndar flokkurinn sem hún tilheyrir og ber heitið Sjálfstfl., en hv. 7. þm. Reykv. kýs að nefna „íhaldið“ þegar þannig liggur á honum og er það ekki nema af hinu góða. En málið er það að þegar horft er til heimilanna er allt sem mælir á móti því að fresta gildistöku frv. Þess vegna get ég ekki fallist á þá tillögu jafnvel þó að í ljós eigi eftir að koma að fleiri agnúa þurfi að sníða af þessu frv., eins og t.d. kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. að það væri æskilegt að skoða fleiri þætti frv. Ég get tekið undir það. Það er ýmislegt fleira sem maður hefði gjarnan viljað fá lagfært. En kostirnir eru að mínu mati miklu þyngri á metunum. Þess vegna mun ég styðja það að frv. verði afgreitt í þeirri mynd sem meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. leggur til.