18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

137. mál, launaskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var vissulega nokkuð óvanalegt og telst til tíðinda að hæstv. ráðherrar skuli fást hér til umræðna um þau frv. sem þeir eru að bera hér fram og ég tel að það hafi skipt nokkru að fá þó aðeins að heyra róminn í hæstv. fjmrh. í sambandi við þau efni sem við erum hér að ræða.

Ég hef nú þegar gefið honum ákveðin ráð í þessum efnum og ég vil nota það tækifæri sem ég hef undir þessari umræðu að benda hæstv. ráðherra og öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni á að það gæti verið skynsamlegt fyrir þá að fresta einhverju af sínum skattlagningaráformum, ekki bara á launafólkið í landinu heldur á atvinnureksturinn í landinu, ef þeir ætla sér að stilla til friðar og sátta í þessu samfélagi, ég tala nú ekki um ef þeir ætla að auka rétt þeirra sem réttminnstir eru og bæta stöðu þeirra sem verst eru settir og hvað mestan hlut leggja fram til öflunar tekna í þetta þjóðarbú. Þar hef ég í huga fiskvinnslufólkið í landinu m.a., fólkið sem starfar í framleiðsluiðnaðinum og við gjaldeyrisskapandi rekstur. Ég minni á þau orð sem höfð eru eftir forseta Alþýðusambands Íslands í Þjóðviljanum í dag um það hvernig kaupmátturinn hefur hríðfallið síðustu mánuði, um 10% frá októbermánuði til desember, og að laun þyrftu að hækka hjá þeim sem við lágar tekjur búa um einn þriðjung milli ára 1987 og 1988 ef launafólkið á að halda sínum hlut. Þess vegna væri skynsamlegt, þó hæstv. fjmrh. telji að hér sé ekki um stórar álögur að ræða, að hæstv. ríkisstjórn horfði svolítið fram fyrir sig í þessum efnum og ætlaði borð fyrir báru í þeim efnahagsráðstöfunum sem hún þó viðurkennir og hæstv. fjmrh. að óhjákvæmilegt verði að grípa til vegna þeirra aðstæðna sem hér eru að skapast og eru raunar þegar orðnar staðreynd.