19.12.1987
Neðri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2745 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Lagafrv. sem hér er til umfjöllunar er viðameira og umfangsmeira mál en þau fáu blöð sem það er fest á gefa til kynna vegna þess að það grípur inn á fjölmarga lagabálka og kemur til með, ef að lögum verður, að hafa yfirgripsmikil og afdrifarík áhrif á líf fólksins í landinu.

Árum saman hefur verið uppi umræða um það að sveitarfélögin þyrftu að verða sjálfstæðari og hafa meiri ákvörðunarrétt um eigin mál og sveitarstjórnarmenn hafa verið þeirrar skoðunar ekkert síður en aðrir.

Árið 1986 skipaði félmrh. nefndir til að undirbúa verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Nefndaskipunin út af fyrir sig er allrar athygli verð. Svo sem auðvitað var voru þessar nefndir skipaðar hinum mætustu mönnum. Verkaskiptanefndina sátu tveir skrifstofustjórar, einn bæjarstjóri, einn framkvæmdastjóri og einn lögfræðingur. Fjármálanefndin var skipuð einum skrifstofustjóra, einum deildarstjóra, einum bæjarstjóra og einum lögfræðingi. Nefndunum til samstarfs voru svo viðskiptafræðingur, stjórnsýslufræðingur og skipulagsfræðingur. Þetta er auðvitað hinn álitlegasti hópur viturra manna en satt að segja virðist hann dálítið einlitur með öllum þessum stjórum og fræðingum sem allan vanda eiga að geta leyst samkvæmt þeirri ofurtrú sem nú á tímum virðist á óendanlegri visku slíkra manna, og ofurtrú á að þeirra reiknireglur og niðurstöður hljóti skilyrðislaust að vera þær einu réttu.

Þarna sátu að vísu tveir bæjarstjórar frá stórum og efnuðum bæjarfélögum, en þarna sást enginn oddviti eða sveitarstjóri frá smærri sveitarfélögum á landsbyggðinni. Að sjálfsögðu var hver einasti nefndarmaður af Stór-Reykjavíkursvæðinu og að sjálfsögðu var þar engin einasta kona. Ég er ekki að kasta neinni rýrð á þá menn sem sátu í nefndunum, en ég vil fullyrða að það hefði verið affarasælla á allan hátt ef þar hefðu líka setið sveitarstjórnarmenn úr dreifbýli, gagnkunnugir öllum högum þar eða þá a.m.k. menn sem einhvern tímann hefðu verið við sveitarstjórnarstörf á landsbyggðinni og hefðu fundið það á sjálfum sér við hvaða kjör og aðstæður fólk býr þar og hvernig er að starfa þar. Það hefði verið heppilegra, ekki síst vegna þess að þá hefðu sveitarstjórnarmenn um hinar dreifðu byggðir landsins treyst því betur að hagsmuna þeirra væri gætt. Ekki fara heldur sögur af því að nefndarmenn hafi ferðast um landið til að kynna sér aðstæður og vilja fólksins né heldur til að kynna tillögur sínar og áform, en þess hefði þó vissulega verið þörf. Upp úr tillögum og niðurstöðum nefndanna er svo frv. unnið.

Það hefur oft komið fram að niðurstöður og tillögur nefndarinnar hnígi einmitt í þá átt sem sveitarstjórnarmenn sjálfir vilji og það kann að vera rétt í meginatriðum. En það er ekki sama hvernig að málinu er staðið og þar er ýmsu áfátt. Ég fæ ekki séð hvernig er hægt að verja það að þessi breyting sé knúin fram svo hratt.

Ég sat fjármálaráðstefnu sveitarstjórnarmanna í nóvember sl. og ekki get ég sagt að þar ríkti óblandinn fögnuður við tilhugsunina um verkaskiptinguna. Mönnum fannst hana bera of brátt að og ekki gæfist nógur umþóttunar- og aðlögunartími að þessum margháttuðu breytingum. Auk þess liggur alls ekki fyrir enn hvernig endanlegu uppgjöri við sveitarfélögin verður háttað og þar er verulegur uggur í sveitarstjórnarmönnum. Þeim er nefnilega þannig farið að þeir bæði kynna sér fjárlög og lesa Alþingistíðindi. Þeim er því fullkunnugt um meðferð ríkisstjórna á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga undangengin ár og lái þeim hver sem vill þótt þeir séu haldnir efasemdum um að þessum sjóði, sem er eign sveitarfélaganna, verði gert fært að standa við sínar skyldur.

Það er ekki hægt að segja annað en að það sé verulega ámælisvert hvernig staðið er að því að knýja þessa breytingu fram einmitt nú fyrir þessi áramót. Af hverju liggur svo mjög á þessu að sveitarstjórnarmönnum sé ekki gefinn nokkur kostur þess að kynna sér frv., hvað þá að kynna það á opnum fundum? Þetta er nefnilega mál þjóðarinnar allrar en ekki einungis Alþingis.

Eins og öllum er kunnugt hafa vissir þættir verkaskiptingarinnar vakið hávær mótmæli um allt land og það rennir enn stoðum undir þá skoðun að nauðsyn hefði verið á að kynna málið lengur og betur og láta lagasetningu og framkvæmd bíða næsta árs. Ég verð að segja að ég hef vissar efasemdir um að þessi fyrirhugaða lagasetning nái tilgangi sínum, þeim tilgangi að dreifa valdi og ábyrgð. Sveitarfélögin kunna að vísu að hafa nokkurt val um forgangsröðun verkefna og tilhögun en valdið kemur ekki til með að liggja hjá þeim fremur en áður, að því er ég best fæ séð. Valdið hlýtur enn sem fyrr að liggja hjá þeim sem útdeilir fjármununum og skerðir Jöfnunarsjóð árlega, ríkisvaldinu.

Það hefur oft komið fram, eins og ég sagði áðan, að niðurstöður og tillögur nefndarinnar hnígi einmitt í þá átt sem sveitarstjórnarmenn sjálfir vilja og það kann að vera rétt í meginatriðum. En eins og ég sagði er ekki sama hvernig að málum er staðið og ég fæ ekki séð hvernig er hægt að verja að þessi breyting sé knúin fram svona hratt.

Ég sagði áðan að valdið hlyti enn sem fyrr að liggja hjá þeim sem útdeila fjármunum og skerða Jöfnunarsjóð árlega, þ.e. ríkisvaldinu. Með frv. er í raun verið að undirstrika ósjálfstæði sveitarfélaganna. Ríkisvaldið verður að leggja þeim til fé og í þeirri umfjöllun er oft ekki litið til þess hvað sveitarfélögin leggja ríkinu til í sameiginlega sjóði. Til skamms tíma var talið að um 70-80% útflutningstekna okkar kæmu frá landsbyggðinni, en þangað skiluðust aftur innan við 20% af því. Ég hygg að þessar tölur hafi ekki mikið breyst og sæti landsbyggðin að sínum hlut væri hag hennar trúlega vel borgið. En við skulum aðeins skoða þá farvegi sem fjármagnið fer í.

Til stjórnar- og fjármálamiðstöðvarinnar í höfuðborginni skal skila öllum gjaldeyri, tekjuskatti og söluskatti auk þess sem þangað safnast tollar, innflutningsgjöld, vörugjöld og fleira, svo sem lífeyrissjóðaféð. Auðvitað njótum við öll nokkurs góðs af þessu fé og suma stjórnsýslu og þjónustu er eðlilegt að hafa á einum stað fyrir allt landið. En hluta af tekjum þeim sem landsbyggðin aflar er svo skilað þangað aftur í formi alls konar styrkja og jöfnunarsjóða. Þetta tvöfalda millifærslukerfi er ákaflega seinvirkt og kostnaðarsamt því fjöldi fólks nærist fyrst á samansöfnun fjárins, síðan á flutningi þess fram og til baka og að lokum á útdeilingu þess til þeirra sem upphaflega öfluðu þess, þ.e. ef það fólk hefur geð í sér, tíma og þolinmæði til að knékrjúpa nægilega oft, og lengi fyrir öllum nefndunum og stjórnunum. Og vextirnir, verðbólgugróðinn og allur þjónustukostnaður verður eftir. Það versta við þetta allt saman er þó hversu margt fólk verður gersamlega ruglað í ríminu af þessu hringsóli fjárins. Það veit ekki lengur hvar í hringrásinni þess er aflað. Íbúar landsbyggðarinnar hafa þá tilfinningu að þjónustuhornið lifi á þeim, en margir íbúar höfuðborgarsvæðisins telja að þeir séu látnir styrkja dreifbýlisbyggðirnar og hvort tveggja er eðlilegt eins og málum er háttað, en það hefur valdið ómældu tjóni og tortryggni milli landshluta. Því er það óbifanleg skoðun mín að það sem öllu máli skiptir sé að landsbyggðinni sé gert fært að hafa meiri umráð fyrir eigin aflafé. Það skiptir öllu máli og þá fyrst er hægt að tala um valddreifingu.

Ég er samþykk því að þessi verkaskipting sem um er rætt fari fram, en ég er ekki sátt við að henni sé flýtt svo mjög eins og ég hef áður tekið fram. Það veltur svo óendanlega mikið á því að ekkert fari í handaskolum og að ekki verði trúnaðarbrestur milli sveitarstjórna og ríkisvaldsins því að þá er allt unnið fyrir gýg.