21.12.1987
Neðri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Eins og menn heyra þá er kominn svefngalsi í Ed. og hlátrasköll berast þaðan sem alls ekki er orðið ótítt. Hér er hins vegar hið alvarlegasta mál á dagskrá og ég mæli fyrir brtt. á þskj. 334 sem ég hef leyft mér að flytja ásamt öðrum hv. þm. Borgarafl. í þessari deild, þeim Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, Albert Guðmundssyni, Hreggviði Jónssyni og Inga Birni Albertssyni. Þetta eru brtt. við frv. til laga um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar með talin breyting skv. lögum nr. 49/1987, sem taka eiga gildi 1. jan. 1988.

Brtt. eru fjórar. Sú fyrsta á við 2. gr. frv. en í 2. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

„3. mgr. 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. orðist svo:

Frá tekjum má enn fremur draga einstakar gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknarstarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga, þó ekki yfir 10% af skattstofni gefanda áður en gjöfin hefur verið dregin frá honum. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þessa grein.“

Brtt. okkar hljóðar svo:

„Við 2. gr. Síðari hluti greinarinnar, frá orðunum „þó ekki yfir 10% af skattstofni gefanda“, falli brott.“

Það eru sem sagt þessi tvö atriði, ,þó ekki yfir 10% af skattstofni gefanda“, og síðan hitt atriðið, að fjmrh. ákveði með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falli undir þessa grein.

2. brtt. okkar er við 5. gr. frv., en sú grein er ákaflega stutt og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. mgr. A-liðar 68. gr. orðist svo: Persónuafsláttur manna sem um ræðir í 1. mgr. 67. gr. skal vera 158 820 kr.“

Það er líklega ekki seinna vænna fyrir hið háa Alþingi að taka ákvörðun í þessu efni því að mér skilst að það hafi í rauninni helst átt að gerast í nótt að keyrð yrðu út laun og þar með aftökur á gjöldum samkvæmt þessu nýja kerfi ef vel hefði átt að vera. Brtt. okkar við 5. gr. er svohljóðandi:

„Greinin orðist svo:

1. og 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna orðist svo: Persónuafsláttur manna sem um ræðir í 1. mgr.

67. gr. skal vera 158 820 kr.“

Þarna erum við í rauninni alveg sammála fyrirliggjandi frv., en viljum að framhaldið verði svohljóðandi: „Nemi persónuafsláttur skv. 1. mgr. hærri fjárhæð en reiknaður tekjuskattur af skattstofni skv. 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun og skal því ráðstafað fyrir hvern mann til að greiða útsvar hans á álagningarárinu. Sá persónuafsláttur, sem þá er enn óráðstafað fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars hjóna sem skattlagt er skv. ákvæðum 63. gr. og skal þá sá hluti persónuafsláttar makans sem enn er óráðstafað“ — það er í rauninni þetta atriði sem er nýtt og kjarninn í okkar brtt. — „bætast við persónuafslátt hins makans.“

Í gildandi lögum um þetta atriði segir hins vegar: „Og skulu þá 80% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar makans bætast við persónuafslátt hins makans.“ Við leggjum til að þarna sé ekki miðað við 80% heldur 100.

Síðan er framhald brtt. okkar þetta: „Nemi þannig ákvarðaður persónuafsláttur síðarnefnda makans í heild hærri fjárhæð en reiknaður skattur af tekjuskattsstofni hans skv. 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun til að greiða útsvar hans á álagningarárinu. Sá hluti persónuafsláttar, sem þá verður enn óráðstafað fellur niður.

Þarna er kjarni brtt. okkar sá að miðað sé við 100% en ekki 80% makans.

3. brtt. okkar er við 8. gr. frv. 8. gr. frv. er ákaflega viðamikil, er í rauninni ný 69. gr. laganna, um barnabætur, barnabótaauka og húsnæðisbætur, A-, B- og C-liður. Við gerum þrjár brtt. í rauninni við 8. gr. og 1. brtt. okkar er við A-liðinn, um barnabætur. Þar leggjum við til, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað orðanna „16 ára“ 1. málsl. 1. mgr. A-liðar komi: 18 ára.“

Varðandi b-liðinn er í rauninni það sama. Í stað orðanna „16 ára“ í 1 máls. 1. mgr. B-liðar komi: 18 ára.

Síðan leggjum við til í þriðja lagi að á eftir C-lið komi nýr liður, D-liður, starfslok, og orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Maður, sem er að ljúka starfsævi sinni, skal fá endurgreiddan þegar greiddan tekjuskatt síðustu tólf mánaða fyrir starfslok, enda hafi hann öðlast rétt til eftirlauna eða ellilífeyris úr lífeyrissjóði. Verði maður að hætta störfum vegna varanlegrar örorku af völdum veikinda eða slyss skal hann njóta sömu réttinda og um getur í fyrri mgr."

Þetta er sem sagt nýr liður varðandi 8. gr. Í sjálfu sér er hér ekki um að ræða nýmæli. Þetta er sams konar atriði og enn mun í gildi í eftirágreiðslu skatta, en þetta atriði er hér fært inn miðað við þá nýskipan sem væntanlega gengur í garð með áramótum.

Ég kem þá að 4. brtt. okkar sem er við 12. gr. frv. 12. gr. frv. er um það að 2. mgr. 121. gr. laganna orðist svo:

„Fjárhæðir þær, sem hér um ræðir, skulu breytast í fyrsta sinn 1. des. 1987 í samræmi við mismun sem verður á lánskjaravísitölu sem í gildi er hinn 1. júní 1987, þ.e. 1687 stig, og þeirrar sem í gildi verður 1. des. 1987.“ Þetta er frumvarpsgreinin.

Við leggjum til að framan við 12. gr. bætist ný mgr. svohljóðandi:

„1. mgr. 121. gr. laganna orðist svo:

Fjárhæðir, sem um ræðir í 68. og 69. gr., skulu breytast mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu skv. lögum nr. 13 1979.“

Þetta er án efa eitt þýðingarmesta atriðið sem við leggjum til í þessum brtt. og er samhljóða till. sem Kvennalistinn mun hafa borið upp á Alþingi þegar lögin voru samþykkt á sl. vori. Þetta er einnig sams konar tillaga og fulltrúi Kvennalistans lagði áherslu á í milliþinganefndinni og ég býst við því að beri þingmeirihluti ekki gæfu til að fara að þessari tillögu muni það koma illa við margan mann, þ.e. þann sem er tiltölulega neðarlega í skattstiga, þann sem matarskatturinn lendir sérstaklega á þegar hann er orðinn að lögum. Það eru sömu hóparnir sem verið er að fjalla um í báðum þessum tilfellum og það verður í sama hlutfalli og aukning verðubólgunnar verður hverju sinni sem á þessu fólki verður níðst öðrum fremur. Þess vegna leggjum við á það þunga áherslu að menn skoði þetta vel og hugsi til þeirrar stundar þegar þessi lög verða afgreidd á Alþingi, að það er verið að fjalla um mjög veigamikið viðkvæmt atriði einmitt fyrir þá í þjóðfélaginu sem standa höllum fæti.