28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

210. mál, samkomulag um loðnuveiðar Norðmanna

Frsm. utanrmn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þáltill. þessi er sams konar og áður hefur verið flutt á undanförnum þingum af utanrmn. og er sams konar og gert samkomulag við Norðmenn á undanförnum árum um heimildir þeirra til loðnuveiða innan íslenskrar efnahagslögsögu. Aðdragandinn er sá að í byrjun loðnuvertíðar 1987–1988 var leyfilegt heildaraflamagn ákveðið 500 þús. lestir, en að loknum frekari rannsóknum var í þessum mánuði ákveðin 550 þús. lesta aukning heildaraflamagns. Norðmenn eiga samkvæmt samkomulagi Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál rétt á hlutdeild í viðbótarmagninu og það þykir haganlegt nú eins og áður að hluti þess verði veiddur nú á vetrarvertíðinni fremur en það leggist við veiðiheimildir Norðmanna á næstu sumarvertíð.

Eins og ég sagði í upphafi er þessi till. hliðstæð tillögum sem áður hafa verið fluttar og utanrmn. hefur verið sammála um að flytja hana nú með sama hætti og áður hefur gerst.