22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

10. mál, umhverfisfræðsla

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram að forseti mun ekki í neinu fara að óskum hv. 5. þm. Reykn. varðandi hv. þm. Karvel Pálmason. Hann lítur svo á að það sé óþarfi að vera með óbeðinn erindrekstur fyrir Karvel Pálmason. Hann getur sjálfur tjáð sig við forseta um það efni sem hér hefur borið á góma, ef honum þykir ástæða til.

Forseti vill ítreka það sem hann sagði í upphafi, hér hafa ekki verið umræður um eiginleg þingsköp. Hins vegar hefur forseti leyft að þessar umræður færu fram vegna þess að hér var rætt um þýðingarmikið mál og það var augljóst að þm. bæði úr stjórnarliði og stjórnarandstöðu höfðu þörf fyrir að tjá sig um málið.

En það skal lögð áhersla á það að það er grundvallaratriði að forsetar láta sig ekki varða annað en form þingmála, ekki efni, og þar á meðal ekki hver þingstyrkur er á bak við hvert þingmál þegar fram er borið. Og á þeim grundvelli varðar þetta mál sem hér hefur verið rætt ekki þingsköp.