30.12.1987
Neðri deild: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

Fréttir af þinghaldi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka bæði forseta og ríkisstjórn aftur fyrir kvöldmatarhlé og endurtek þakkir mínar til ríkisstjórnar þrátt fyrir athugasemdir forseta vegna þess að á meðan ég naut kvöldmatarins las ég forsíðu Tímans þar sem getið er um fund ríkisstjórnar og þingforseta og sagt að þeir hafi komið sér saman um áframhald þeirrar vinnu sem við eigum eftir hér á þessu ári.

En ég er hissa á stjórn þingsins. Eftir hvaða þingsköpum er farið? Það er kannski hægt að teygja reglur og beygja, en það er búið að hoppa á milli allra mála sem eru á dagskrá í allan dag. Við gerðum athugasemdir við það fyrr í dag, fyrr á þessum fundi og ég verð, hæstv. forseti, að lýsa furðu minni á því að enn skuli gripið til sama leiks. Hvað heldur hæstv. forseti eða stjórnarliðið eins og það leggur sig að það hafi upp úr svona vinnubrögðum? Ekki neitt annað en harðnandi andstöðu, mjög harðnandi andstöðu.

Ég verð að harma það, sem mér var að berast til eyrna núna, að tveir af forustumönnum stjórnarliðsins skyldu koma fram í sjónvarpi á Stöð 2 í kvöld og bera það á borð fyrir alþjóð að stjórnarandstaðan hafi verið með málþóf þó að hún ræði um og taki sinn tíma til að ræða þau mál sem meiri hluti alþm. og ríkisstjórn leggur fram til umræðu og afgreiðslu. Hinn forustumaðurinn ber það á borð að stjórnarandstaðan hafi hafnað samningum. Um hvað? Hvaða samningar hafa verið í boði? Sem formaður Borgarafl. hef ég ekki fengið neitt boð um neina samninga eða boð um að taka þátt í samningum. Ég veit ekki að til þess hafi komið. (ÓE: Þú hefur ekkert verið á þeim fundum.) Ég hef verið á öllum þeim þingfundum sem haldnir hafa verið og mig hefur hvorki vantað í sætið né í salinn. Það er meira en hv. þm. getur sagt sem varla hefur sést hér, kannski sofið heima eða niðri. Það hafa engir samningar verið í boði fyrir stjórnarandstöðuna. Hvernig stendur á því að stjórnarþm. leyfa sér og það ábyrgir forustumenn þjóðarinnar að bera slíkt á borð fyrir alþjóð? Geta þessir menn aldrei sagt satt? Er þeim fyrirmunað að segja satt? Ég harma svona vinnubrögð.

Virðulegur forseti. Ég skildi af þeim fréttum sem ég las í dagblaðinu Tímanum í kvöldmatarhléinu að forsetar og forusta ríkisstjórnarinnar þingaði í gær án samráðs við stjórnarandstöðuna sem þýðir það, sem ég hef verið að halda fram, að hnefinn skal ráða. Það á að nota meirihlutaafl til að taka ákvarðanir. Ég verð að harma ef það á eftir að koma í ljós að forsetar láta ganga á rétt minni hlutans. Ég harma ef það á eftir að koma í ljós. Og ég lýsi aftur furðu minni á þessum hringlanda í fundarsköpum á milli mála.