05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

196. mál, söluskattur

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Í stjórnarskrá Íslands er kveðið á um að engan skatt skuli leggja á, breyta né taka af nema með lögum. Hæstiréttur Íslands og reyndar Alþingi Íslendinga hafa túlkað þessa grein stjórnarskrárinnar mjög rúmt. Þar eru sjálfsagt mörg atriði sem erfitt er að skera úr um. Mér virðist hins vegar fljótt á litið að það orki nokkuð tvímælis, ef þessi lagagrein er felld, að reglugerðarákvæði standist. Þar sem ekki er neinn ágreiningur um efnisatriði heldur eingöngu um að tryggja að þetta atriði sé inni segi ég já.