22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

Sala Útvegsbankans

Ingi Björn Albertsson:

Hæstv. forseti. Útvegsbankamálið svonefnda er mál sem alls ekki á að vera mál í dag. Þessi frumraun sem hæstv. viðskrh. lenti í strax á fyrstu dögum ráðherradóms síns átti að vera honum kærkomið tækifæri til að afsanna þá gagnrýni, sem að honum beindist í kosningabaráttunni sl. vor, þá gagnrýni að þar væri um staðnaðan embættismann að ræða sem ekki mundi ráða við það að færa sig hinum megin við borðið. Því miður hefur hæstv. ráðherra gloprað þessu tækifæri og er reyndar kominn í hinar mestu ógöngur með málið.

Það er ekki ósanngjarnt að spyrja hvað hafi breytt afstöðu Alþfl. við þessu tilboði „sem ekki væri hægt að hafna“, eins og hæstv. fjmrh. kaus að orða það. Er ekkert að marka orð hans? Er ekki búið að hafna tilboðinu sem ekki var hægt að hafna? Þetta er nefnilega stærsta vandamálið í dag. Það er ekkert að marka þessa háu herra þessa dagana.

Ég skora á hæstv. viðskrh. að bretta nú upp ermarnar og taka á málinu af fullri festu hvort sem það er með þeim hætti að ákveða sölu bankans til einhvers ákveðins aðila eða hvort hann ætlar að hætta við sölu bankans. Aðalmálið er: Hvað ætlar ráðherra að gera og vill hann ekki vera svo vænn að leyfa Alþingi og þjóðinni allri að fylgjast með því?

Fram hefur komið hjá ráðherra að erlendir bankar séu hugsanlega tilbúnir að kaupa hlut í bankanum. Meira hefur ekki fengist upp um þennan möguleika. Af hverju? Af hverju þessi leynd? Er eitthvað skítugt í pokahorninu eða er ekki neitt í pokahorninu? Er þessi hugmynd aðeins sett fram til að dreifa hitanum og þunganum frá aðalvandamálinu, sem er tilboð SÍS-manna og „KR-inganna“ svonefndu? Það er sjálfsögð krafa að ráðherra gefi Alþingi tæmandi skýrslu um gang málsins. Hvernig var tilboð SÍS lagt fram? Voru á því formgallar eða einhverjir aðrir gallar sem urðu þess valdandi að ekki var strax gengið að tilboðinu sem ekki var hægt að hafna? Hvað var það sem stöðvaði sölu bankans til SÍS? Þegar því hefur verið svarað er nærtækast að spyrja sömu spurningar um tilboð „KR-inganna“. Af hverju var þeim ekki seldur bankinn?

Hlutabréf Útvegsbankans voru auglýst til sölu á ákveðnu föstu verði. Hvað olli breytingum þar á? Er hugsanlegt að bréfin verði aftur sett á sölulista og óskað eftir lokuðu útboði þar sem hæstbjóðanda verða seld bréfin að uppfylltum skilyrðum? Er ráðherra búinn að útiloka möguleikann á að Útvegsbanki og Búnaðarbanki sameinist? Og svona í lokin: Gengur ekki rekstur bankans allvel í dag? Ef svo er er þá kannski hugsanlegt að hætt verði algerlega við sölu hans? „Þetta-reddast-einhvern-veginn“-stefnu stjórnvalda verður að stöðva.