06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3687 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

181. mál, stjórn fiskveiða

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil gera þá fsp. til forseta hvort það hafi nokkurn tilgang að halda áfram umræðu um dagskrármálið einmitt vegna þeirra ummæla sem komu fram hjá hæstv. utanrrh. í þeirri blaðagrein í dagblaðinu Tímanum, 30. desember, sem hann var að vitna í rétt áðan. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp ummælin sem höfð eru eftir honum innan gæsalappa í blaðinu og spyrja þá í framhaldi af því hæstv. forseta hvort tilgangur er í þessu þinghaldi áfram miðað við þau ummæli. En þar segir eftir að ummæli hæstv. utanrrh. hafa verið rakin á forsíðu og vitnað til 3. síðu: „Það er rétt að við urðum sammála um að leggja áherslu á að þessi þrjú frv. færu í gegn fyrir áramótin en láta þó tekjuöflunarfrumvörpin hafa forgang," sagði Steingrímur Hermannsson utanrrh. og formaður Framsfl. Og áfram. „En ef það tækist ekki að koma fiskveiðifrv. í gegn fyrir áramót þá verði komið saman strax eftir áramót og það samþykkt án tafar og án nokkurra breytinga sem sjútvrh. geti ekki fallist á.“ Hér er alveg ákveðin afstaða tekin og ákveðin niðurstaða fengin utan Alþingis um afgreiðslu mála sem eiga eftir að ræðast á Alþingi. Þetta segir að allar þær brtt. og allan þann málflutning sem hér hefur farið fram er samkvæmt samkomulagi og ummælum hæstv. ráðherra tilgangslaust að ræða. Ákvörðun er tekin. Því vil ég spyrja hæstv. forseta: Er þá nokkur tilgangur í að halda fundi áfram um dagskrármálið?