06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3695 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

181. mál, stjórn fiskveiða

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp á undan síðasta ræðumanni til þess að vitna í ummæli hæstv. utanrrh., eins og þau birtust í Tímanum 30. des. sl., og bar fram spurningu til hæstv. forseta um það hvort miðað við það samkomulag sem rætt er í umræddu blaði frá 30. des. sé ástæða til að halda þessum dagskrárlið áfram. Úr því að það virðist ekki hafa dugað að lesa upp það sem var innan gæsalappa, bein tilvitnun í ummæli utanrrh., um það samkomulag sem þegar er orðið um afgreiðslu þessa máls, þá ætla ég, með leyfi forseta, að klára að lesa þessa grein. Það er þá framhald af því sem ég las áðan og hljóðar svona:

„Lagði Steingrímur áherslu á það atriði í samkomulagi þessu að engar breytingar yrðu teknar inn í frv. nema þær sem sjútvrh. getur fellt sig við. Hann sagði að ljóst væri að fram muni koma einhverjar breytingar á frv. í meðferð nefnda og í 2. og 3. umr. Allar breytingar á frv. Halldórs yrðu þá miðaðar við það sem hann telur sér fært að samþykkja.“

Ég get ekki betur skilið af því sem hér hefur verið sagt af sjútvrh. að frv. verði óbreytt að mestu eða öllu leyti. Þannig að það er búið að leggja niður það þingræði sem þarf til þess að Alþingi starfi að afgreiðslu þessa máls á eðlilegan hátt. Því krefst ég þess að forseti okkar allra, ekki bara stjórnarinnar eða stjórnarmeirihlutans, svari þegar formaður þingflokks eða formaður flokks á Alþingi leggur fyrir hann spurningar. Og ég endurtek spurninguna og krefst þess að fá svar: Er ástæða til að halda áfram umræðu og frekari afgreiðslu á þessum dagskrárlið þegar tveir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands viðurkenna að það er búið að ákveða hvernig afgreiðslan skal fara fram?