07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3737 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

Fréttir í Sjónvarpinu

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem fram hafa komið og þakka fulltrúa Kvennalistans fyrir að draga athygli að fréttaflutningi Ríkisútvarpsins/sjónvarps í gærkvöld. En af ástæðum sem ég kæri mig ekki um að skýra frá hér hafði ég ekki tækifæri til að sjá eða heyra fréttir í gærkvöld.

Ég fagna því að fá upplýsingar í þessari frétt sem eru nýjar fyrir mig og nýjar fyrir held ég flesta þm. Allir vissum við um það ósætti sem er á milli ríkisstjórnarflokkanna. Allir vissum við að frá upphafi er ríkisstjórnin veik og jafnvel engin ríkisstjórn vegna þess að flokkarnir koma sér ekki saman. Hér kemur fram, með leyfi forseta ætla ég að lesa það, að „eini stjórnmálaflokkurinn sem gengur sameinaður til atkvæðagreiðslu, er Framsfl. þó a.m.k. einn þm. þar muni hugsa sér að greiða atkvæði með einhverjum brtt. en ekki mikilvægum, en aftur á móti í Sjálfstfl. og Alþfl. vantar mikið á að samstaða sé.“ Við sem héldum að Alþfl. og Sjálfstfl. væri ein kærleiksheild. Þetta eru nýjar fréttir. Þetta er þá margklofin ríkisstjórn. Út af fyrir sig eru þetta stórar fréttir og þakka ég fréttastjóranum, sem flutti þessa frétt, fyrir upplýsingarnar. Seinna í þessu, með leyfi forseta, segir:

„Á ýmsum stigum þessa máls hefur stjórnarandstaðan haldið uppi málþófi, en til viðbótar er það að stjórnarandstaðan hefur verið mjög ósamvinnuþýð í að greiða fyrir framgöngu mála á þinginu og sérstaklega kvarta stjórnarþm. undan Borgarafl.“

Nú vildi ég gjarnan spyrja hæstv. forseta: Er þetta rétt að hans mati? Ég veit að við höfum talað um mál, en höfum við farið út fyrir það sem þingsköp heimila? Höfum við brotið af okkur? Ef svo er væri gott að fá staðfestingu forseta á því. Ef svo er ekki verður hæstv. forseti að dæma þessi ummæli fréttamannsins ómerk. Ég veit ekki til þess að við höfum farið út fyrir þingsköp.

Hitt er annað mál að það hefur myndast óvenjusterk samstaða með stjórnarandstöðunni sem er órjúfandi gegn þeim álögum sem ríkisstjórnin hefur barist fyrir, gegn matarskattinum, sem fólk er nú samkvæmt fréttum sem ég heyrði í morgun að gera sér grein fyrir betur en áður vegna þess að hækkanirnar eru að koma í framkvæmd. En höfum við með samstöðu brotið af okkur í þinginu, brotið þingsköp, brotið eðlilegar starfsreglur með því að taka til máls innan þingskapa? Höfum við brotið af okkur með því að standa saman? Ef svo er vildi ég gjarnan fá svar við þessari spurningu hér og nú frá hæstv. forseta. Ég held að svo sé ekki.

Hitt er annað mál að hvað Borgarafl. sérstaklega snertir held ég að hann hafi ekkert skarað fram úr í stjórnarandstöðu. (Fjmrh.: Hann hefur staðið mjög framarlega.) Hann hefur staðið mjög framarlega. Við erum nefnilega í stjórnarandstöðunni. Það er hægt að vitna í mjög merkileg orð Kristjáns Eldjárns sáluga, forseta Íslands, þegar hann tók við embætti. Hann sagði að hann ætlaði ekki að vera foringi eða einhvers konar má segja einræðisherra. Hann ætlaði að vera fremstur meðal jafningja. Ég held að öll stjórnarandstaðan geti staðið að þeim ummælum. Þar hafa allir verið fremstir meðal jafningja þannig að við höfum allir staðið framarlega og ættum að vera fyrirmynd ríkisstjórnarinnar. Þó tel ég það heiður að ríkissjónvarpið skuli taka sérstaklega eftir því að Borgarafi. sé til vegna þess að hingað til hefur ríkissjónvarpið gleymt því algerlega að Borgarafl. er stofnaður og er starfandi á Alþingi. Ég þakka því fyrir að sjónvarpið skuli draga sérstaklega athygli að Borgarafl. en frábið mér það sem formaður Borgarafl. að hann hafi verið eitthvað framar í góðu starfi en aðrir stjórnarandstæðingar á þingi.

En ég bið virðulegan forseta um að gera það nú fyrir okkur, sem erum í stjórnarandstöðunni og verðum fyrir þessum athugasemdum ríkisfjölmiðla, að láta okkur vita hér og nú hvort við höfum brotið þingsköp með því að tala í málum eða hvort við höfum brotið þingsköp með þeirri einurð og samstöðu sem stjórnarandstaðan hefur sýnt.