22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. flm. að það er vissulega áhyggjuefni ef fækkun kjarnorkuvopna á landi leiðir til þess að þeim fjölgar í og á hafinu. Svo sannarlega er sá orðrómur, sem mjög ríkur er, að kjarnorkukafbátafjölgun í norðurhöfum sé ákaflega mikil, mikið áhyggjuefni. Undir þetta tek ég allt og ég vil einnig taka undir að að sjálfsögðu ber okkur, hafandi stórra hagsmuna að gæta í þessum höfum, að beita okkur fyrir því hvar sem við getum að svona fari ekki og reyndar að dregið verði úr þeirri miklu fjölgun kjarnorkuvopna í hafinu sem, eins og ég sagði áðan, sagt er að nú sé jafnvel í undirbúningi og hefur örugglega verið á síðustu árum.

Ég tel reyndar að við höfum látið þetta koma vel fram, t.d. með samþykkt Alþingis frá því í maí 1985 þar sem lögð er áhersla á kjarnorkuvopnalaus svæði, eins og orðað var held ég í framsöguræðu formanns utanrmn., „frá Grænlandi til Úralfjalla“. Þetta hefur komið fram í tillöguflutningi ýmissa þm. og ræðum sem þeir hafa flutt utan þings um nauðsyn þess að hafið verði einnig með í þessari umræðu.

Ég vek einnig athygli á því að við tökum nú ákveðinn þátt í þeim viðræðum sem fara fram á milli Norðurlandanna um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og þá leggjum við að sjálfsögðu til grundvallar þá skoðun sem ég hef nú lýst og kemur fram f samþykkt Alþingis frá 1985.

Ég leyfi mér einnig að vekja athygli á því að ég hef sagt hvað eftir annað að ég telji ræðu þá sem Gorbatsjoff hélt nýlega í Múrmansk mjög athyglisverða og ég er ekki sammála því sem komið hefur fram, m.a. í fréttum frá utanríkisráðherrum Evrópubandalagsins, að þar væri „lítið nýtt“ eða jafnvel ekkert nýtt. En ég er sammála því sem komið hefur fram, t.d. hjá varnarmálaráðherra Noregs og hann lýsti þegar hann var hér heima nýlega í opinberri heimsókn, að það væru vissulega ný atriði í þeirri ræðu sem krefðust þess að þau væru athuguð. T.d. er þar í fyrsta sinn boðið upp á að viðræður um norðurheimskautið og norðurhöfin fari fram ekki aðeins á milli þeirra landa sem þar eiga beinna hagsmuna að gæta, liggja að norðurhöfum, heldur einnig á milli hernaðarbandalaganna, þ.e. Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins. Þetta er mjög stórt nýmæli frá Sovétmönnum sem hafa yfirleitt ekki tekið undir slíkt og viljað takmarka slíkar viðræður við aðliggjandi lönd.

Og ég vil taka það fram fyrir mitt leyti að ég er í raun hlynntastur því að fækkun kjarnorkuvopna fari fram á heimssviði, þ.e. fyrir heiminn allan, því að þau eru þess eðlis hvort sem þau eru staðsett í hafinu eða í Úralfjöllum eða í Klettafjöllum að þau geta eytt öllu mannlífi á jörðu. Því er mikilvægast að ná samkomulagi um fækkun kjarnorkuvopna á heimsgrundvelli.

Nú er það náttúrlega spurningin: Hvernig getum við Íslendingar beitt okkur sem best í þessu máli? Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að við hljótum að beita okkur innan þeirra samtaka þar sem við erum starfandi eins og t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum, og hefur verið rætt hér aðeins í sambandi við aðra tillögu í dag, innan Atlantshafsbandalagsins, þar sem við tökum nú virkari þátt. Svo sannarlega mun ég, ef aðrir gera það ekki, minnast á þau mál sem hér eru til umræðu, og taka undir þau ef aðrir gera það. Mér finnst sjálfsagt að fá umræðu um það þar hvernig litið er á þá miklu uppbyggingu sem orðið hefur í norðurhöfum með kjarnorkukafbáta o.s.frv.

Ég vil einnig taka fram að ég lít svo á að Ísland geti orðið miðstöð umræðu um ýmis vandamal heimsins. Ég hefði að vísu kosið að landið yrði síður umræðuvettvangur um hernaðarstefnur. Ég fór að sjálfsögðu og hlustaði á nokkuð af því sem fram kom á þeirri ráðstefnu sem haldin var í Hveragerði nýlega. Ég held að ég hafi einhvern tíma látið þau orð falla að mér eru slíkir hernaðarleikir lítt geðfelldir. Ég hefði heldur kosið að við gætum orðið vettvangur til umræðu um þau ótal vandamál sem steðja að mannkyninu önnur en hernaðarlegs eðlis, þó það sé eitt af þeim allra stærstu, og þar á ég vitanlega við mál eins og sjúkdóma, hungur, tortryggni og fleira sem allt of langt mál yrði að ræða hér. Spurningin er hvort við eigum að stofna til slíkrar ráðstefnu sem þessarar, hvort hún nær þessum góða tilgangi sem ég veit að flm. hefur í huga. Ég hef efasemdir um það. A.m.k. þarf að vera tryggt að þátttaka í slíkri ráðstefnu yrði einlæg, ef ég má orða það svo, ekki bara yfirborðskennd.

Ég hef efasemdir um 1. málsgr. tillgr. þar sem segir að stofnað verði til fundar um hvernig megi fá viðræður um þessa uppbyggingu í norðurhöfum. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvernig þetta er orðað, en það er andi þessarar till. Efnislega er hann sá að stofna til fundar um hvernig megi fá þessi mál tekin fyrir til umræðu. Þetta minnir aðeins á þær deilur sem stöðugt eru í gangi um það á alþjóðaráðstefnum hvernig borð eigi að vera í laginu. Ég hefði þá heldur viljað funda um málið sjálft en að stofna til fundar um hvernig eigi að fá menn til að ræða um þetta mikilvæga mál.

Ég tek undir það með hv. flytjanda að að sjálfsögðu fær þessi till. ítarlega meðferð í utanrmn. Ekki efa ég það.

Ég lýk svo máli mínu með því að taka efnislega undir það sem hv. flm. sagði um mikilvægi þessa máls og að við eigum að beita okkur eins og raunhæft er á hvaða vettvangi sem er til að koma í veg fyrir uppbyggingu kjarnorku í hafinu og á hafinu. En um þessa leið hef ég nokkrar efasemdir.