11.01.1988
Neðri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3865 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég verð nú að segja að það kemur mér nokkuð í opna skjöldu að þetta mál skyldi verða á dagskrá einmitt nú á þessum fundi. Ég hafði búist við því eins og sjálfsagt fleiri að hér yrði frv. til lánsfjárlaga á dagskrá, ekki síst miðað við orð hæstv. fjmrh. fyrir helgi og fréttir í fjölmiðlum nú um helgina um nauðsyn á hröðun þess máls. En það þýðir ekki annað en bregðast við því sem verða vill í þessum efnum og ekki skal ég skorast undan því að halda þar áfram sem frá var horfið síðast þegar þetta mál var hér á dagskrá. Það mun hafa verið 19. des. sem þetta mál var hér síðast á dagskrá en þetta frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er ekkert smámál. Það kom hér inn í þingið 9. des. 1987, ef ég man rétt, og síðan var það í meðförum þingsins í tíu daga, í hv. félmn. þessarar hv. deildar og var hér til umræðu sem sagt 19. des.

Þegar hér var komið sögu höfðu nál. meiri hl. félmn. og nál. minni hl. félmn. verið kynnt, en ég er annar þeirra aðila sem að nál. minni hl. standa. Ég vildi á þessu stigi málsins fara nokkrum orðum um málið í heild einu sinni enn. Ég held að það veiti ekki af því, sérstaklega þegar umræðan gengur þetta skrykkjótt og langt líður á milli funda, að menn rifji upp meginatriðin í þessu máli.

Frv. nær ekki til færri en tíu annarra laga. Þessi lög og lagabálkar eru: Í fyrsta lagi lög um málefni fatlaðra, nr. 41/1983. Í annan stað eru þetta íþróttalög, nr. 49/1956, með síðari breytingum. Í þriðja lagi eru þetta lög nr. 107/1970, um félagsheimili, með síðari breytingum. Í fjórða lagi snertir þetta lagafrv. lög nr. 58/1970, um skemmtanaskatt. Í fimmta lagi snertir lagafrv. lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, með síðari breytingum. Í sjötta lagi snertir lagafrv. lög nr. 75 1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Í sjöunda lagi snertir lagafrv. lög nr. 52/1969, með síðari breytingum, sem eru þjóðminjalög. Í áttunda lagi snertir lagafrv. lög nr. 93/1947 um aðstoð til vatnsveitna. Í níunda lagi snertir frv. í rauninni þrenn ef ekki fern önnur lög um landshafnir, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkum, landshöfn í Rifi og landshöfn í Þorlákshöfn. Þetta eru lög nr. 23/1955, lög nr. 38/1951, lög nr. 61/1966 og síðast en ekki síst gildandi hafnalög, nr. 69/1984. Í tíunda lagi snertir lagafrv. ekki síst lög nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.

Það er þess vegna ekkert smámál sem hér er á ferðinni og því ekki að furða þó að til þess hafi verið ætlast að þetta mál tæki nokkurn tíma í undirbúningi og afgreiðslu þingsins. Ef eðlilega hefði verið staðið að þessu máli þá hefði í rauninni átt að endurskoða alla þessa lagabálka sem ég hér nefndi í leiðinni að einhverju eða öllu leyti. Mín gagnrýni á þessi vinnubrögð gengur fyrst og fremst út á það á hvern hátt er staðið hér að málum. Það er vitaskuld rétt, sem hér hefur margoft komið fram, að tvær nefndir höfðu um nokkurn tíma verið að undirbúa þetta mál á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga og félmrn. og þessar nefndir höfðu skilað áliti. Þetta álit kom út í aprílmánuði sl. og heitir Samstarf ríkis og sveitarfélaga. Það er í allmikilli bók, þetta er greinargott verk og ekki nema gott eitt um það að segja. En það sem hér skiptir máli er að meginniðurstaða þessara tveggja nefnda er sú að verkefnaflutningurinn frá ríki til sveitarfélaga sé býsna svipaður að verðmæti, að þyngd, ef svo má segja, í rekstrarkostnaði þannig að miðað við verðlag í desember 1986 — það er að vísu lagt til grundvallar mat manna á þessum verkefnum eins og þau komu fram á árinu 1985, færð til verðlags í desember 1986, og þegar þessir málaflokkar allir eru saman lagðir og gert upp hver hækkun verður hjá sveitarfélögum, þá kemur það út að hækkunin átti að verða samkvæmt þessu verðlagi rúmur milljarður eða um 1095 millj. kr., en lækkun á móti vegna verkefna sem ríkið ætlaði að taka að sér í staðinn átti að vera 1210 millj. Það átti m.ö.o. að létta af sveitarfélögunum miðað við þessi skipti og miðað við þessar tillögur.

Þegar málið ber hins vegar hér að 9. des. sl. þá horfir það þannig við að það er aðeins hluti af þessu verkefni tekinn fyrir, aðeins hlutar af tillögum nefndarinnar teknir fyrir. Og hvernig er þá jafnvægið á milli ríkis og sveitarfélaganna þegar hér er komið sögu? Það lítur svolítið öðruvísi út. Þá er gert ráð fyrir að auka kostnað sveitarfélaganna miðað við þetta sama verðgildi um 250 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir að ríkið taki að sér eitthvað álíka? Nei, ekki aldeilis. Í þessum tillögum eins og þær voru í frumgerð er gert ráð fyrir að ríkið taki að sér framhaldsnám hér í Tónlistarskólanum í Reykjavík, sem var þá verðlagt upp á 5 millj., málefni fatlaðra, stofnkostnað og rekstrarkostnað, um 10 millj. M.ö.o. á móti þessum 250 millj. sem sveitarfélögin áttu að fá til að annast hin auknu verkefni átti ríkið að taka að sér á móti aðeins 15. Þarna er gengið þvert á tillögur beggja þeirra nefnda sem lögðu grundvöllinn að þessari vinnu. Og það liggur alveg ljóst fyrir hvers vegna. Það var vegna þess að hæstv. fjmrh. lagði þetta til við hæstv. ríkisstjórn til þess að ná niður fjárlagahallanum. Þess vegna var málið tekið á þennan veg. Og það er þess vegna sem ég er ákaflega tortrygginn á vinnubrögðin.

Þegar það svo bætist við að ekki gefst tími fyrir félmn. þessarar hv. deildar til að senda málið til umsagnar einnar einustu sveitarstjórnar í þessari stöðu, þá er manni svarað að málið hafi verið svo vel kynnt að sveitarstjórnarmenn séu búnir að ræða þetta í 25–30 ár. Auðvitað er það alveg rétt. Þeir eru búnir að ræða um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í langan tíma en þeir hafa aldrei í sinn hóp, ekki einn einasti hópur sveitarstjórnarmanna hefur rætt þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Það er kjarni málsins. Og það er það sem við erum að taka afstöðu til í þessari hv. deild og annars staðar hér á hinu háa Alþingi.

Það hefur líka komið í ljós eftir því sem menn hafa skoðað þetta mál frekar að það eru ýmsir þættir þess sem menn eru þegar farnir að draga til baka og var raunar gert í framsögu hæstv. forsrh. þegar hann talaði fyrir málinu 9. des., ef ég man rétt. Þá á ég sérstaklega við málefni tónlistarskólanna.

Í því nál. sem minni hl. félmn. lagði fram segir, með leyfi hæstv. forseta, í upphafi:

„Fyrirliggjandi frv. er illa undirbúið og sú stefna, sem birtist í einstökum köflum þess, orkar mjög tvímælis. Minni hl. leggur því til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að málið verði endurskoðað í heild í samvinnu við sveitarstjórnir og þingflokka.“

Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að þetta sé lagt til. Ekki síst vegna þess að höfundarnir að hugmyndunum, sem ég sé að eru nú hér staddir að verulegu leyti í hliðarherbergi á tali við hæstv. forsrh., þeir leggja til í nál. sínum að þetta mál sé undirbúið á þann veg að það komi ekki til framkvæmda fyrr en eftir árs undirbúning. Það hefur aldrei verið tillaga þeirra að standa þannig að málum eins og hér hefur verið gert. Og mér er nær að halda af þeim kynnum sem ég hef af þeim sumum hverjum a.m.k. að það sé andstætt vinnubrögðum sem þeir vilja hafa.

Í nál. minni hl. segir síðan áfram:

„Verði tillögu þessari hafnað áskilur minni hl. sér rétt til að flytja brtt. við einstakar greinar frv. Meginástæður fyrir þessari afstöðu minni hl. eru eftirfarandi:

1. Með frv. er verið að flytja til sveitarfélaga verkefni sem hafa munu í för með sér meiri útgjöld af hálfu sveitarfélaganna en ríkið tekur að sér á móti.“

Þarna er í fyrstu umsögn minni hl. félmn. lögð á það megináhersla að ef um er að ræða verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga þá sé gengið út frá — það er í rauninni það sem á bak við þetta liggur — þá sé gengið út frá þeirri meginniðurstöðu og því meginmarkmiði sem kemur fram hjá báðum nefndunum, sem ég minntist á áðan, að það sé nokkurt jafnræði þarna á milli, að það sé ekki verið að íþyngja öðrum aðilanum á kostnað hins eins og hér er greinilega stefnt að.

„2. Frv. fjallar aðeins um hluta af þeim mörgu viðfangsefnum sem tillögur hafa komið fram um að breyta í núverandi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Hér liggur því ekki fyrir nein heildarstefnumörkun í þessum málum.“

Þetta er auðvitað hluti af því sama, að það er slitið út úr þessu verki að því er virðist á lítt grundaðan hátt.

Í þriðja lagi segir í nál. minni hl.: „Fjármögnunarþáttur þeirrar verkaskiptingar, sem frv. tekur til, er í lausu lofti. Þannig hafa enn engin drög verið gerð að uppgjöri við einstök sveitarfélög vegna þeirra framkvæmda sem ríkissjóður hefur tekið þátt í til þessa.“

Það þarf sjálfsagt ekki að minna hv. þm. á það að í X. kafla þessa frv. er í 28. gr. þess einmitt gert ráð fyrir að 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 73/1980, breytist á svohljóðandi hátt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðist svo:

Við sjóðinn skal auk almennrar deildar, sbr. 1. mgr., starfrækja tvær deildir er nefnast sérdeild og uppgjörsdeild og skal hlutverk þeirra vera sem hér segir:

a. Úr sérdeild sjóðsins skal greiða framlög til jöfnunar milli sveitarfélaga vegna aukins kostnaðar þeirra í kjölfar breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá ársbyrjun 1988. Greiðslur þessar skulu inntar af hendi samkvæmt reglugerð sem félmrh. setur í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um nánari skilyrði fyrir greiðslum úr sérdeild sjóðsins.“

Eins og fram kemur af nál. meiri hl. félmn., og raunar brtt. sem kynnt er hér við 2. umr., þá segir hér, með leyfi forseta, í ákvæði til bráðabirgða:

„Af tekjum Jöfnunarsjóðs, sem um ræðir í a-lið 9. gr. laga nr. 73/1980, með síðari breytingum, skal á árinu 1988 verja allt að 100 millj. kr. til greiðslna til sérdeildar Jöfnunarsjóðs, sbr. a-lið 28. gr. þessara laga.“

Það eru sem sagt 100 millj. kr. sem eiga að fara til þessa sérstaka verkefnis, til þess að inna af hendi greiðslur sem sérstaklega snerta þá aðila sem væntanlega standa höllum fæti.

„Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um nánari skilyrði fyrir greiðslum úr sérdeild sjóðsins“ segir að lokum í a-lið 28. gr. frv.

Í b-lið 28. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Uppgjörsdeild skal á árunum 1988 til og með 1991 greiða sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs er rætur eiga að rekja til framkvæmda til ársloka 1987 við félagsheimili, íþróttamannvirki og dagheimili.“ — Það eru sérstaklega tilgreindir þessir þrír málaflokkar, félagsheimili, íþróttamannvirki og dagheimili. — „Við mat á áföllnum skuldbindingum ríkissjóðs í þessu sambandi skal miða við reglur um kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í þessum framkvæmdum er giltu til ársloka 1987.“ — Síðan kemur afskaplega merkileg grein í lok þessa b-liðar, en þar segir: „Greiðslum úr uppgjörsdeild skal skipt af fjárveitinganefnd milli þeirra sveitarfélaga og félagasamtaka sem hér um ræðir, að fengnum tillögum viðkomandi ráðuneytis.“

Þessi viðbót, sem mun vera í rauninni nýrri en önnur atriði þessarar greinar, hefur orðið tilefni til frekari umræðna sem hér hafa að nokkru leyti farið fram í deildinni ef ég man rétt. Og einn nefndarmanna, sem fjallaði um þetta mál á ákveðnum stigum, Jón G. Tómasson, hefur sent hæstv. félmrh. bréf út af þessu atriði og raunar öllum þm. Reykjavíkur þar sem hann lýsir því yfir að hann sé í fyrsta lagi mjög andsnúinn þessari grein en í annan stað lýsir hann því yfir að hann sé andsnúinn vissu orðalagi í athugasemdum með frv. Í athugasemdum við frv., á bls. 10 í þskj. 224 segir, með leyfi hæstv. forseta: „Í þeirri nefnd voru Indriði H. Þorláksson skrifstofustjóri, tilnefndur af fjmrh., Jón G. Tómasson borgarritari, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, tilnefndur af félmrh.“ Jón G. Tómasson er ekki ánægður með það að nafn hans skuli vera bendlað við b-lið þessarar greinar, eins og hann lítur út í lagafrv. Ég held að það skaði ekki að þetta bréf til hæstv. félmrh., sem allir Reykjavíkurþingmenn hafa fengið frá Jóni G. Tómassyni, verði lesið hér svo að það sé þá til í þingtíðindum og komi frekar inn í þessa umræðu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi til yðar dags. 7. þ.m. [þ.e. desember] skilaði nefnd, sem ég átti sæti í skv. tillögu Sambands ísl. sveitarfélaga, tillögu að frv. til l. um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að því er snertir kaflann um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Í b-lið 28. gr. frv. (194. þingmál) er tillögum nefndarinnar breytt og kveðið á um að fjvn. skipti greiðslum úr uppgjörsdeild. Í tillögum nefndarinnar sagði:

Greiðslum úr uppgjörsdeild skal skipt milli þeirra sveitarfélaga og félagasamtaka sem hér um ræðir eftir reglum sem félmrh. setur, að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga og viðkomandi ráðuneytis.

Þessi breyting var ekki borin undir mig sem hafði þó mótmælt hugmynd sama efnis í fyrstu frumvarpsdrögunum. Engu að síður er gefið í skyn í grg. með frv. að ég hafi staðið að þessari tillögu. Þessum vinnubrögðum hlýt ég að mótmæla jafnframt því sem ég lýsi þeirri skoðun minni að greiðslur úr uppgjörsdeild eigi að vera fjvn. óviðkomandi og að eðlilegra sé að farið verði eftir reglum sem ráðherra setur, að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga.“

Svo mörg voru þau orð, höfð eftir Jóni G. Tómassyni, borgarritara Reykjavíkurborgar.

Nú vil ég ekki fyrir minn hlut taka beina afstöðu til þess hvor aðferðin væri heppilegri, að fjvn. réði hér um eða ráðuneytið. En í þessu sambandi langar mig til að minna á að það hefur ekki komið fram, ég hef hvergi séð það, hvernig haga á vinnubrögðum í ráðuneytinu, sem verður ekki létt verk, um skiptingu á milli sveitarfélaga, væntanlega eftir umsóknum, úr sérdeildinni. Í sjálfu sér tel ég uppgjörsdeildina vera miklu einfaldara mál og auðvitað kemur það vissulega til greina að fjvn. fjalli þar sérstaklega um. Þarna er um að ræða sérstakan lið á fjárlögum. Ég hef minnt á það fyrr í þessum umræðum, ég gerði það við 1. umr., hve mikið getur borið á milli í svona málum eins og í uppgjörsmálum.

Þeir hv. alþm. Vesturl. Ingi Björn Albertsson og Skúli Alexandersson báru fram fsp. til menntmrh. um félagsheimilin og Íþróttasjóð. Þeir fengu ágæt svör. Ég man eftir einu svarinu. Það var að ákveðið félagsheimili úti á landi ætti þarna inni um 14 millj. kr. Mér er kunnugt um að eignaraðilar þess félagsheimilis telja að þeir eigi 26 millj. Ef álíka mismunur er á milli í öllum greinum eða í þessu sambandi yfirleitt þá sést það náttúrlega að uppgjörsmálin eru ekkert lítið mál að leysa. Þess vegna skiptir það miklu máli að sveitarfélögin eigi það víst að þarna verði ekki skipt eftir neinum einsýnum sjónarmiðum. Af þeirri ástæðu finnst mér persónulega ekkert óeðlilegt þó að það komi til álita að fjvn. komi þarna að.

En um sérdeildina aftur. Þar hefur ekki komið fram, að því ég fæ best séð, neitt álit um það hvernig að á að standa.

Nú vitum við það að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur að mörgu leyti verið fjöregg sveitarfélaganna ef svo má segja. Jöfnunarsjóðurinn hefur verið sveitarfélögunum afskaplega hjartfólginn og það er gott að minnast þess líka í leiðinni að sveitarstjórnarmenn hafa átt því láni að fagna að nær allan tímann sem Jöfnunarsjóðurinn hefur starfað, frá því laust eftir 1960, hefur sami aðilinn fjallað um þessi mál af mikilli kostgæfni í ráðuneytinu og unnið þar ákaflega gott starf, tel ég, í mjög góðu sambandi og samvinnu við sveitarstjórnarmenn um allt land.

En Jóni G. Tómassyni borgarritara er nokkuð niðri fyrir þegar hann sendir Reykjavíkurþm. afrit af þessu bréfi til hæstv. félmrh. Hann lætur fylgja annað bréf til þm. og, með leyfi hæstv. forseta, langar mig til þess að lesa kjarnann úr því. Hann segir:

„Hjálagt sendi ég yður afrit af bréfi mínu frá 18. þ.m. til félmrh. varðandi frv. til l. um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eins og fram kemur í bréfi mínu til ráðherra var gerð veruleg breyting á frv. því sem nefndin samdi án þess að höfð væru samráð við mig um það og þrátt fyrir að ég hefði á nefndarfundum lýst því afdráttarlaust yfir að ég mundi ekki fallast á tillögu sama efnis í skipunarbréfi nefndarinnar frá 12. f.m. Var henni þó falið „að semja frumvarp til laga“.

Ég tel að þessi vinnubrögð jaðri við fölsun og séu móðgandi gagnvart mér og þeim aðila sem tilnefndi mig í nefndina.“ — Og hver var það nú? Það var sjálft Samband ísl. sveitarfélaga sem það gerði og sá aðili sem fyrst og seinast er borinn fyrir því máli sem hér er um að ræða.

„Aðalatriðið er hins vegar“, segir Jón, „að ekki verða séð nein efnisrök fyrir því að fjvn. eigi að skipta greiðslum úr uppgjörsdeild Jöfnunarsjóðs.“

— Þetta er hans álit, ekki mitt. Áfram segir hann: „Í athugasemdum við 28. gr. frv. eins og nefndin samdi það er skýrt að uppgjörsdeild er ætlað að greiða áfallnar skuldbindingar ríkissjóðs vegna framkvæmda sem flytjast frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót og samkvæmt sérstöku uppgjöri sem gert verður um stöðu hvers verkefnis gagnvart hverju sveitarfélagi. Tillaga nefndarinnar var að greiðslum samkvæmt fjárveitingu hvers árs yrði síðan skipt milli aðila eftir reglum sem ráðherra setur, að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga, en ekki háð geðþóttaákvörðunum.“ — Þarna sýnist mér að Jón G. Tómasson nefni vinnubrögð fjvn. geðþóttaákvarðanir. En áfram segir í bréfi hans:

„Á fundi sínum 18. þ.m. samþykkti stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga að mæla gegn því að fjvn. verði falið þetta verkefni. Vegna reynslu Reykjavíkur af störfum fjvn. mælist ég til þess að þm. Reykjavíkur stuðli að því að breyta frv. í það horf sem nefndin lagði til.

Bréf þetta sendi ég öllum þingmönnum Reykjavíkurkjördæmis.

Jón G. Tómasson.“

Auðvitað ætla ég ekki að blanda mér efnislega í þessar áhyggjur borgarritarans en ég nefni þetta og les þessi bréf hér vegna þess og til þess að sýna það og undirstrika enn frekar hversu illa í rauninni mál þetta er undirbúið. Og það þarf ekki að furða sig á því þegar það ber að með þessum hætti. Þetta er fyrst og fremst björgun í ákveðnum vanda við fjárlagahalla og þess vegna var gripið til þessa ráðs á þennan hátt. Það er ég ekki í nokkrum vafa um.

Ég ætla næst, hæstv. forseti, að snúa mér nokkuð frekar að áliti minni hl. félmn. sem ég áður vitnaði hér í. Í 5. lið álits minni hl. félmn. segir:

„Fjárframlög vegna þessara fyrirhuguðu breytinga á að taka úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en framlag til sjóðsins hefur verið skert mikið um árabil og svo er enn samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1988.“

Eins og Jöfnunarsjóðurinn stendur nú eftir nýsamþykkt fjárlög munu það vera um 1540 millj. kr., eitthvað þar um bil, og þá er ég með þessar 100 millj. til viðbótar sem þarna voru sérstaklega ætlaðar til uppgjörsdeildar, en ef lögin um Jöfnunarsjóð hefðu verið framkvæmd þá ætti upphæðin að vera líklega nær 1700 millj. kr., milli 1650 og 1700 millj., þannig að enda þótt verið sé að leggja þarna veruleg verkefni að nýju á sveitarfélögin, þá er enn verið að skerða þennan tekjustofn þeirra miðað við það sem upphaflega var gert ráð fyrir og lög mæla raunar fyrir um.

Í 6. gr. nál. minni hl. félmn. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Einstakir kaflar frv., svo sem um byggðasöfn, tónlistarfræðslu og íþróttastarfsemi, snerta verkefni sem ekki hafa eingöngu verið bundin við einstök sveitarfélög eða verið á þeirra vegum.“

Þetta er vissulega rétt. Til félmn. komu ýmsir aðilar. Það gafst tími til þess á nokkrum fundum og formaður félmn. var allur af vilja gerður til að greiða eins og mögulegt var fyrir því að það næðist til þeirra aðila sem hér áttu hlut að máli og þeir komu allmargir, en það var nánast á eina lund hvernig álit þeirra var. Það var yfirleitt andstætt þessum breytingum fyrst og fremst af því að málið væri ekki nægilega vel undirbúið. Þó verð ég að draga þarna undan fulltrúa stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga sem þó hafa, eins og ég nefndi áðan í bréfi frá Jóni G. Tómassyni, mótmælt ákveðnum þætti í þessu sambandi nú alveg nýverið eða 18. des. Og þó voru það nánast einu aðilarnir, og auðvitað höfundarnir sem þarna komu, sem, að því er virtist, voru ánægðir með að gengið yrði til verks á þennan hátt. Þó lögðu fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga áherslu á að þetta væri þá einungis skref þannig að gengið yrði frá málinu í heild eins og heildartillögurnar gera ráð fyrir.

En ýmsir aðilar lýstu yfir sérstökum áhyggjum sínum. Mér eru sérstaklega minnisstæðir aðilar t.d. eins og forseti ÍSÍ og aðrir aðilar sem tengjast íþróttamálum. Ég er hér með fáeina punkta sem forseti ÍSÍ og fulltrúar frá íþróttanefnd ríkisins lögðu fram á fundi nefndarinnar. Ég held að það væri í lagi, hæstv. forseti, að ég læsi kjarnann úr þessu áliti forseta ÍSÍ. Hann sýnir í rauninni hvaða áhyggjur menn hafa sem fjalla um þessi verkefni, enda er það líka ljóst að þegar menn hafa farið að skoða þessi mál betur, þá eru frumvarpshöfundarnir á undanhaldi, eins og t.d. í sambandi við tónlistarskólana. Um leið og ákveðnir hagsmunaaðilar risu upp og þegar það eru aðilar sem eiga eitthvað undir sér, eru þannig í sveit settir á einhvern hátt að þeir geta sagt við ráðandi öfl í þessu efni: Við viljum þetta ekki, við viljum hafa þetta á annan veg, þá er auðvitað dregið í land. En það eru fjöldamargir aðilar, sem á bak við þetta frv. standa og sem áhrif þessa frv. munu á hrína, sem ekki hafa aðstöðu til þess að rísa upp og segja: Hingað og ekki lengra, þannig að eftir verði tekið.

Forseti Íþróttasambands Íslands segir í minnispunktum sínum fyrir þennan fund hjá félmn.: „Um Íþróttasjóð, 5. gr. Alþingi veitir árlega í sjóð til eflingar íþrótta í landinu eða sér honum fyrir öruggum tekjum á annan hátt. Nefnist hann Íþróttasjóður. Í öðru lagi er fjárframlag til íþróttakennslu og námskeiða og í þriðja lagi til útbreiðslu íþrótta og aukinnar íþróttamenntunar.“

Þegar þetta var rætt lá það fyrir að þessar fjárveitingar yrðu felldar niður.

„Íþróttanefnd ríkisins hefur greitt, þó í litlum mæli sé, svokallaða kennslustyrki sem Alþingi hefur veitt allt frá því að íþróttalög voru sett árið 1940. Þessum styrk hefur verið varið vegna íþróttakennslu o.fl. til allra ungmenna- og íþróttafélaga um land allt.

Íþróttanefnd ríkisins“, segir Sveinn Björnsson, forseti ÍSÍ, „og ég persónulega höfum fylgst með umræðum og kynnt okkur nál. varðandi breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Og það er einmitt þess vegna að íþróttanefndin hefur áhyggjur af niðurskurði til íþrótta í fjárlögum ríkisins því að nefndin telur að þau mál hafi ekki verið nægilega rædd og að óvíst sé um samstöðu meðal sveitarfélaga um þau.

Íþróttanefndin gerir sér grein fyrir nauðsyn stöðugrar endurskoðunar á stjórnsýslu og ráðstöfun opinberra fjármuna en telur mikinn vafa leika á því að tilhögun fjárveitinga með þeim hætti sem hér er sett fram í fjárlagafrv. leiði til velfarnaðar þegar tekið er tillit til eflingar og framfara íþrótta hér á landi.

Ég persónulega“, segir forseti ÍSÍ, „og íþróttanefndin við erum ekki ein um þessa skoðun, sbr. samþykktir íþróttaþinga og mótmæli ýmissa sveitarstjórnarmanna. Því spyr ég: Hvernig verður háttað stuðningi við íþróttamannvirki á vegum einstakra félaga, á vegum einstakra sérsambanda, á vegum einstakra héraðssambanda eða heildarsamtaka? Hvert eiga félagasamtök að sækja eins og t.d. Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands, Bandalag ísl. skáta, Handknattleikssamband Íslands, héraðssambönd sem ná yfir tugi hreppa og jafnvel meira en eina sýslu. Hvernig verður um faglega aðstoð og leiðbeiningar, samræmingu norma og reglna og tilraunir til dreifingar verkefna þar sem þörfin er mest en getan minnst? Þarf að setja upp nýja þjónustumiðstöð“, spyr hann, „á vegum sveitarfélaganna og hver á að greiða kostnað við hana? Verður það hagkvæmara en ólaunuð nefnd, íþróttanefnd ríkisins og skrifstofa íþróttafulltrúa? Hvernig á að tryggja það að fjármagn fáist yfirleitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til íþróttamannvirkja þó að sérstök deild verði stofnuð innan sjóðsins til þess að sinna málaflokkum sem fluttir verða frá ríki? Hverjir eiga að tryggja það?"

Í sambandi við þennan punkt langar mig endilega til þess að minna á það að þessi sérdeild sem þarna er verið að tala um í dæminu eins og það liggur fyrir núna er 100 millj. kr. Nú gerist það fyrir þrýsting frá ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu, réttmætan þrýsting, að einn þáttur, aðeins einn þáttur úr þessu dæmi er dreginn út og fer aftur til ríkisins. Og þá fara reiknimeistarar ríkissjóðs auðvitað að reikna út: Hvað kostar það nú ríkið að taka tónlistarskólana til sín aftur? Það er ekki allt árið 1988, ekki aldeilis, í tillögunum. Aðeins frá 1. sept. 1988 til ársloka. Það kostar, og því var breytt í fjárlögunum við afgreiðsluna í desember, 52 millj. kr., sem Jöfnunarsjóðurinn var lækkaður um í desember. Þessar 52 millj . eru aðeins hluti af rekstrarkostnaði tónlistarskólanna. Það er hluti af því máli sem hér er um að ræða í sambandi við þennan 100 millj. kr. sérdeildarsjóð.

Af þessu litla dæmi sjá menn hvað í rauninni er að gerast, enda er það annar aðilinn, það er ríkissjóður sem er að véla um hagsmuni hins aðilans og setur þangað byrðarnar og hefur gjörsamlega með það að gera, nær án þess að sveitarfélögin komi þar nærri, þegar undan eru skildir örfáir menn sem eiga fyrst og fremst hagsmuna að gæta hér á mjög litlu svæði landsins og koma lítt inn í þetta mál eins og það raunverulega er.

Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að halda áfram að lýsa áhyggjum forseta ÍSÍ. Hann segir: „Er ekki eðlilegra að mál þetta fái lengri aðdraganda á meðan leitað er samkomulags um það með ríki og sveitarfélögum? Hvað á að gera við styrk á fjárlögum til íþrótta- og æskulýðsheimila að upphæð 15 millj . kr. [sem samþykkt var núna fyrir áramótin] til stuðnings við framkvæmdir á vegum íþróttafélaga?" spyr forseti ÍSÍ. Hann segir: „Á þetta fé að fara upp í skuldir, hinn svokallaða hala eða til nýrra íþróttamannvirkja eða til íþróttamannvirkja sem verið er að byggja eða upp í kennslukostnað íþrótta- og ungmennafélaga? Í hvað eiga þessar 15 millj. kr. að fara? Það er ótilgreint. Og menn geta rétt ímyndað sér hvað þeir hrökkva í öllu þessu dæmi. Hvernig er hægt að tryggja það að sveitarstjórnir greiði upp skuldir við íþróttafélög? Og ef það er tryggt, þá með hvaða hætti og hvað tekur það mörg ár?

Nú er það vitað," segir forseti ÍSÍ, „að skuldir Íþróttasjóðs við íþróttafélög eru nálægt 107 millj. kr. og skuldir við sveitarstjórnir um 80 millj. eða samtals um 186 millj. Hvernig er hægt að tryggja það að sveitarstjórnir greiði byggingarkostnað íþróttamannvirkja svo hægt sé að ljúka þeim? Hvernig á að tryggja það að umsóknir um ný íþróttamannvirki nái fram að ganga innan sveitarfélags og þá sérstaklega hinna smærri sveitarfélaga?"

Auðvitað var það svo að þegar Sveinn Björnsson, forseti ÍSÍ, kom á fund félmn. Nd., bar upp þessar spurningar með sáralitlum fyrirvara, hann fékk að vita kvöldið áður að hann ætti að mæta hjá nefndinni í býtið morguninn eftir, þá hafði félmn. Nd. auðvitað ekki nokkur svör á reiðum höndum — sem ekki er von. Málið er það flókið, málið er það margþætt að það er ekki nokkrum ætlandi að komast til botns í svona máli á þann hátt sem hér er að staðið.

Stundum er lögð á það áhersla að þetta mál sé búið að taka langan tíma og hafi verið lengi undirbúið. Það er sjálfsagt rétt, enda lagði forseti ÍSÍ fram á þessum fundi félmn. Nd. samþykktir frá íþróttaþingi 13.–14. sept. 1986, þar sem menn voru að bregðast við — ekki þessu frv. sem hér er um að ræða, ekki einu sinni þeim tillögum sem komu fram í apríl 1987 — heldur voru menn að bregðast við hugmyndunum í þessa átt sem auðvitað var búið að ræða víða meðal þeirra manna sem um þessi mál fjalla helst.

Á þessu íþróttaþingi 1986 ályktaði þingið svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna fram kominna hugmynda stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga“ — þarna er það nú aðeins stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga — „um að leggja niður Íþróttasjóð og Félagsheimilasjóð mótmælir íþróttaþing svo róttækum breytingum á tilhögun opinberra fjárveitinga til íþróttamannvirkja og félagsheimila án þess að fyrir liggi tillögur um aðrar leiðir sem skila betri árangri í byggingum íþróttamannvirkja um allt land.“

Þarna er í rauninni fjallað um kjarna þessa máls. Áfram segir í ályktun íþróttaþings:

„Bendir þingið á hinn mikla mun aðstæðna sveitarfélaga í landinu að því er varðar stærð þeirra og fjárhagslega getu og að eðlilegra væri að efla þessa sjóði til þess að þeir geti betur en áður gegnt hlutverki sínu.“

Þetta er kjarninn í málinu. Þetta er viðhorf íþróttamannanna. Þetta er viðhorf þeirra sem í rauninni vita hvernig málin standa, en ekki örfárra einstaklinga í nafni aðila eins og Sambands ísl. sveitarfélaga sem ganga þvert í þessa átt og það án eðlilegs samráðs.

Ég held, hv. þm. sem hér eruð staddir, að það væri ekki að ófyrirsynju að menn hugleiddu svolítið nánar hvernig staðið er að málum eins og hér er um að ræða.

Þetta sama íþróttaþing 13.–14. sept. 1986 ályktaði enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Íþróttaþing 1986 lýsir áhyggjum sínum yfir þeirri þróun sem verið hefur á undanförnum árum þegar fjármagn til íþróttamannvirkja og félagsheimila er skorið niður með þeim afleiðingum að ríkisvaldið stendur ekki við lögbundin fjárframlög til þeirra mörgu íþróttamannvirkja og félagsheimila sem nú eru í byggingu. Því skorar íþróttaþing á hæstv. Alþingi, fjvn. og ríkisstjórn að efla Íþróttasjóð ríkisins og Félagsheimilasjóð svo að hægt sé að standa við skuldbindingar sem gert er ráð fyrir í lögum. Að öðrum kosti mun ófullnægjandi íþrótta- og félagsaðstaða standa í vegi fyrir áframhaldandi uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar.“

Þessi mál, sem hér er verið að fjalla um, snerta á þann hátt svo marga í þessu landi að ég held að það sé ekki eitt einasta frv. eins og þetta litla verkaskiptingarfrv. sem kemur eins víða við. Og við skulum aftur fara yfir það til þess að hafa það nú alveg á hreinu. Málið er lagt fram 9. des. Það kom frá félmn. þessarar hv. deildar 19. des. Það voru tíu dagar. Það var mælt fyrir þessum nál., fyrir nál. meiri hl. mælti hv. þm. Alexander Stefánsson sem formaður nefndarinnar, og fyrir nál. minni hl. mælti hv. þm. Kristín Einarsdóttir. Síðan hefur ekkert verið um þetta fjallað. Ég var að byrja þarna örfá orð og kem svo héðan nánast að óvörum í málið að nýju. Þessi er umfjöllun Alþingis um þessi mikilsverðu mál. Og nú er ætlunin að því er virðist að keyra þetta í gegn núna í vikunni og láta menn sitja uppi með gerðan hlut hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Ég legg á það áherslu eins ríka og mér er unnt, og það er heilagur sannleikur, að ekki eitt einasta sveitarfélag, ekki ein einasta sveitarstjórn í landinu hefur fengið frv. til umsagnar. Ætli það sé nokkurn tíma í löggjafarstarfi hér á Alþingi sem á þann hátt hefur verið staðið að málum að sá aðilinn sem á mest í húfi, sem eru náttúrlega ákaflega margir, rúmlega 220 sveitarfélög í landinu, ekki ein einasta sveitarstjórn, hefur fengið frv. til umsagnar?

Það var beðið um sérstakan fund í nefndinni í seinustu viku vegna harðfylgis fulltrúa Kvennalistans, hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, til þess að reyna að fá málið sent út til umsagnar vegna þessa hlés sem gafst. En vegna þinglegra aðstæðna var ekki talin ástæða til og ekki hægt. (Gripið fram í.) Já, það var einhver slík niðurstaða. En formaður nefndarinnar, hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson, lýsti því hins vegar yfir að hann mundi ætlast til nefndarstarfs á milli 2. og 3. umr. og ég met það mikils. Það finnst mér skipta verulegu máli í þessu sambandi. Ég er ekki enn vonlaus um að gengið verði að þessu starfi eins og á að ganga að því. Það er ekki til sóma að ganga svona að verki eins og hér er um að ræða. Ég ætla að lýsa fyrir ykkur einu litlu dæmi.

Ég þekkti ekki þann þátt sérstaklega, þó að ég hafi að vísu komið nálægt sveitarstjórnarmálum í alllangan tíma, eða hafði sérstaklega gert mér grein fyrir því hve ríkisstyrkur til byggðasafna skipti byggðasöfnin miklu máli, 50% greiðsla til starfsemi þessara aðila. Einn af þeim aðilum sem til félmn. komu var þjóðminjavörður. Hann kom af mikilli skyndingu 17. des. og hann afhenti okkur á vélrituðu blaði kjarnann í sínu máli. Þá laukst upp fyrir mér hvers konar ógöngur er verið að rata í í þessum málaflokki þar sem ég þekki síst til. Það er í rauninni verið að leggja út af sáraódýra starfsemi en svo gagnmerka að ég er sannfærður um að ef þetta nær fram að ganga og ekki finnst á því viðunandi lausn er illa farið. Ég ætla aðeins að fá að lesa, með leyfi forseta, þetta atriði hér á eftir.

Mér er eitt atriði í minni þar sem verkefni hefur verið flutt frá ríki til sveitarfélaga. Það var gert í skyndingu eins og núna. Það mun hafa verið 1975, fyrir jólin. Þá vantaði tilfærslur í einhverri fjárlagagerðinni. Það sem gerðist var það, og var túlkað þannig að það væri til þess að gera skilin skarpari og skýrari á milli, að viðhald grunnskólahúsnæðis var flutt frá ríki til sveitarfélaga. Náttúrlega kom ekki króna í aukna tekjustofna. Sveitarfélögin áttu bara að sjá um þetta. Grunnskólahúsnæðið er hins vegar þannig að ómótmælt er að ríkið eigi þar 50% og sveitarfélögin 50%. Hvernig verður þetta svo í framkvæmd? Það verður þannig í framkvæmd að mjög víða drabbast grunnskólarnir niður og sérstaklega þar sem um er að ræða sveitarfélög, reikna ég með, þar sem þetta er dálítið erfitt. Og af hverju skyldi það gerast? Vegna þess að áður, þegar skiptingin var eðlileg eins og eignaskiptin, sáu sveitarstjórnarmenn um að viðhaldið væri með eðlilegum hætti vegna þess að þeir áttu von í 50% kostnaðarhlutdeild frá ríkinu. Það var það sem rak á eftir. Það er svona sem þetta gerist í hinu venjulega lífi úti um allt land. En þegar sveitarfélögin sitja ein uppi með kostnaðinn og ríkið á 50% af húsnæðinu draga menn það. Það verður aftarlega á merinni.

En aftur varðandi þjóðminjavörð. Hann segir í áliti sínu til félmn. Nd., með leyfi hæstv. forseta, dags. 17. des. sl.:

„Frá því hefur verið skýrt að ákveðið sé að skilja að ýmsa þætti í rekstri ríkis og sveitarfélaga og mun félmn. Nd. Alþingis hafa til umfjöllunar lagafrv. þar að lútandi. Felur frv. þetta í sér m.a. ef að lögum verður að áformað muni að fella niður ríkisstyrki til byggðasafna.

Í bréfi til félmn. Alþingis og menntmrh. benti ég á að á fjárlagalið 02.991 undir liðnum 6.40, Byggða- og minjasöfn, séu fleiri greiðslur en aðeins rekstrar- og uppbyggingarstyrkir til byggðasafna. Það eru einnig viðgerðarstyrkir til ýmissa gamalla bygginga úti um land sem ekki eru í eigu Þjóðminjasafnsins en sem það hefur unnið markvisst að að fá varðveittar og stuðla að viðgerð á. Má þar nefna gömul verslunarhús í kaupstöðum, nokkrar gamlar og merkar kirkjur, gömul íbúðarhús, sem fæst eru notuð til sinna upphaflegu þarfa, og ýmis mannvirki önnur.“

Nú vil ég skjóta því hér inn í upp úr þessum lestri að að nokkru var fyrir því séð í nýsamþykktum fjárlögum að þessi liður héldi áfram. Það ber ekki undan að draga. Síðan segir í bréfi þjóðminjavarðar:

„Við nánari athugun á hag byggðasafnanna sé ég að niðurfelling ríkisstyrkja muni jafnvel verða til að drepa sum þeirra niður og þá starfsemi sem þar er unnið að. Hafa líka margir safnamenn haft samband við mig og látið í ljós miklar áhyggjur vegna safna sinna sem sum hver berjast mjög í bökkum og hafa litlu úr að spila og því hefur ríkisstyrkur verið oft og tíðum sá eini bakhjarl sem söfnin hafa getað reitt sig á. Mun mörgum alþm. fullkunnugt um að mörg þessi söfn eru hvað minnst fjárfrek allra menningarstofnana landsins og að þar takmarkast framkvæmdin algerlega við getuna. Hins vegar þykir sjálfsagt að geta sýnt fyrirmönnum þessi söfn við ýmis tækifæri og allir vita að þau eru mjög fjölsótt af erlendum ferðamönnum sem sjá eðlilega gleggra en við Íslendingar hve þau eru hörmulega illa búin til að geta sinnt hlutverki sínu sem menningar- og fræðslustofnanir.

Látið er í veðri vaka," segir þjóðminjavörður, „að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eigi að taka hér við og sveitarfélögin eigi að útvega byggðasöfnunum styrktarfé af framlögum úr sjóðnum. Þetta eru margir safnamenn mjög uggandi um að muni ganga fyrir sig, enda hafa þeir margir hverjir hingað til staðið í basli með að toga hið smálega rekstrarfé út úr forsvarsmönnum sveitarfélaganna og um eigin tekjur byggðasafna er í fæstum tilvikum að ræða svo neinu nemur.“

Þetta er í rauninni kjarni þessa máls. Með þessari breytingu er verið annars vegar að flækja málin og hins vegar að öllum líkindum að draga úr þann þrótt sem síst skyldi.

Í lokum bréfsins segir þjóðminjavörður: „Því leyfi ég mér að fara þess mjög ákveðið“ — ég bið hv. þm. að taka eftir því og ekki síst hv. formann félmn. — „á leit við hv. félmn. Nd. Alþingis að hún leggi til þær breytingar á frv. að byggðasöfnin skuli áfram njóta ríkisstyrkja svo sem verið hefur og einnig verði þá unnt að veita á sama lið fjárstuðning til viðgerðar gamalla bygginga á landsbyggðinni sem kallast mega þjóðminjar. Hafa verður í huga að þótt byggðasöfnin séu að nafni til eign sveitarfélaga er hér um að ræða stofnanir sem vinna í þágu alþjóðar og vinna mjög mörg hver starf sem Þjóðminjasafninu og þjóðminjavörslunni bæri að vinna. Milli Þjóðminjasafnsins og byggðasafnanna er mjög náin samvinna og safnverðir víða úti um land vinna mörg störf í þágu Þjóðminjasafnsins, en óvíst er hvort um slíkt verður að ræða að neinu marki ef ríkissjóður hættir að styrkja söfnin.“

Ég hef, hæstv. forseti, komið allvíða við í umfjöllun minni á þessu stigi málsins og mun senn fara að stytta mál mitt, en áður en til þess kemur vildi ég fara í lokin yfir niðurlag nál. minni hl. félmn. Ég held að það sé öllum hollt, sem um þetta mál vilja fjalla, að heyra þau atriði sem þar koma fram. Ég var búinn að nefna ein sjö eða átta atriði sem upp eru talin hér. Níunda atriðið í áliti minni hl. félmn. var það að af þeim takmarkaða hópi sem nefndin kvaddi á sinn fund voru flestir andvígir þeim breytingum sem í frv. felast eða töldu að vinna þyrfti málið betur áður en ákvarðanir yrðu teknar af hálfu löggjafans. Í 10. og seinasta lið, áður en komið er að lokakaflanum, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. var undirbúið af fámennum hópi manna sem allir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins einn maður utan Suður- og Vesturlands kom á fund félmn. til viðræðna um frv.“

Það var ágætur sveitarstjórnarmaður sem þar kom, maður sem fylgist vel með, reyndur, en ég lái honum ekki þó að hann kæmi nánast af fjöllum þegar um þetta var rætt við hann því að hann taldi að frv. væri að stofni til tillögurnar sem sendar höfðu verið út í apríl. Hann hafði aldrei séð frv. fyrr frekar en aðrir.

Í lokakafla álits minni hl. félmn. segir þetta: „Að hluta til er frv. byggt á tillögum tveggja nefnda, verkaskiptanefndar og fjárhagsnefndar, sem skipaðar voru af stjórnvöldum í september 1986. Nefndirnar skiluðu áliti í apríl 1987 um verkaskiptingu og fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Í nefndum þessum áttu sæti sjö menn, þar af tveir í báðum nefndum og skiptu með sér formennsku. Allir þessir menn voru af þéttbýlissvæðunum suðvestanlands og þeim til aðstoðar sérfræðingar af sama svæði. Af þeim sökum m.a. telur minni hl. nauðsynlegt að fá umsögn sveitarstjórna um efni frv., ekki síst frá sveitarfélögum í strjálbýli og frá fámennari þéttbýlissveitarfélögum.

Því hefur verið haldið fram, m.a. í félmn. Nd., að álit ofangreindra nefnda hafi verið sent sveitarstjórnarmönnum um land allt og óskað hafi verið umsagnar þeirra. Engar slíkar umsagnir lágu fyrir eða voru kynntar í nefndinni, enda aldrei verið eftir þeim leitað. Yfirborðsleg kynning nefndarálitanna á vettvangi einstakra landshlutasamtaka sveitarfélaga kemur ekki í staðinn fyrir kynningu þessa frv. sem engin hefur verið gagnvart landshlutasamtökum sveitarfélaga eða hjá einstökum sveitarfélögum.

Frv. þetta var lagt fyrir Alþingi 9. des. 1987 og hefur því gefist mjög skammur tími fyrir nefndina að kynna sér málið. Í nefndinni var óskað eftir því að hún fengi drög að þeim fjölmörgu reglugerðum sem gert er ráð fyrir að setja um efni frv. Lögð var á það áhersla að fá fram drög að reglum varðandi sérdeild og uppgjörsdeild Jöfnunarsjóðs, en þær deildir eiga að sjá um fjármálaleg samskipti við sveitarfélögin vegna tilfærslna á þeim verkefnum sem frv. gerir ráð fyrir.“

Meðan ég er að lesa þetta man ég eftir einu atriði, sem ég held að sé afskaplega lærdómsríkt, sem ég vil gjarnan koma á framfæri. Um V. kafla frv., sem er um byggingu og rekstur dagvistarheimila, fékk félmn. fulltrúa úr menntmrn. til viðræðna og það var ekki ómerkari fulltrúi en svo að sá fulltrúi hefur fjallað um samskipti menntmrn. og sveitarfélaganna um árabil um þessi efni. Í 12. gr. þessa lagafrv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„2. gr. laganna orðist svo:

Bygging og rekstur dagvistarheimila er í verkahring sveitarfélaga. Menntmrn. skal hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með dagvistarstofnunum og vera sveitarstjórnum til ráðuneytis um þessi mál. "

Þetta fer ekkert á milli mála. Þarna er ætlunin að sveitarfélögin sjái um framkvæmdina, menntmrn. um umsjón og ekki síst faglega umsjón.

Síðan segir í 15. gr. þessa lagafrv., með leyfi hæstv. forseta:

„6. gr. laganna orðist svo“ — þá er náttúrlega átt við allt önnur lög, þ.e. lög nr. 1 12/1976: "Menntmrn. skal í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga setja reglugerð um almenn ákvæði varðandi húsnæði og búnað dagvistarheimila sem falla undir ákvæði laga þessara.“

Nú sagði þessi reyndi deildarstjóri í ráðuneytinu sem er búinn að fjalla um þessi mál um árabil: Hvernig í ósköpunum dettur mönnunum í hug að ætlast til þess að menntmrn. setji einungis reglugerð um húsnæði og búnað, um verksvið sem ráðuneytið á að hafa umsjón með, en sleppa rekstrinum, sleppa því að hafa í reglugerðinni orð um hvernig reksturinn á að fara fram, hvernig að rekstrinum á að búa, hvernig á að fjalla um í sambandi við starfslið, í sambandi við þá aðila sem þarna eiga að fá þjónustu, sem er yngsta kynslóðin á skólaaldrinum? Sem betur fer stendur sá aðili ekki einn í heiminum, á aðild víðar í þjóðfélaginu. Ég á við heimilin og annað því um líkt. Ekki er orð um það í reglugerð sem hér á að leggja til. Þessu er hægt að bjarga, sagði Svandís. Það er hægt að bjarga þessu með því að skjóta inn orðinu „rekstur“. Auðvitað er það eðlilegt, ef menntmrh. á að fjalla um og hafa umsjón um þessa hluti og á að setja reglugerð um þessa hluti, að það sé ekki bara um húsnæði og búnað. Auðvitað er kjarni málsins sú starfsemi sem þarna fer fram.

Þetta er lítið dæmi, eitt af mörgum, sem sýnir það hversu hroðvirknislega, því miður, hér er að staðið.

Með leyfi hæstv. forseta vildi ég svo lesa lokaorð nál. minni hl.:

„Ástæða er til að vekja athygli á að val á þeim verkefnaþáttum, þar sem breyta á verkefnaskiptingu“ í 1. áfanga, „er næsta sérkennilegt og víst er að í því endurspeglast ekki áherslur sveitarfélaga á verkefnatilflutningi né heldur annarra aðila er starfa að þeim málum. Í því sambandi má benda á viðfangsefni eins og tónlistarskóla, íþróttamálefni og byggðasöfn.

Víðtæk andstaða og mótmæli hafa komið fram um fyrirætlanir skv. Vl. kafla frv. um tónlistarskóla. Fulltrúar Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, sem komu á fund nefndarinnar, lýstu þungum áhyggjum af ákvæðum Il. kafla um breytingu á íþróttalögum. Þjóðminjavörður og talsmenn byggðasafna eru örvæntingarfullir vegna áformaðra breytinga skv. Vll. kafla frv. um stuðning ríkisins við byggðasöfn. Þar er vegið að menningarstarfsemi sem snertir alla landsmenn og engan veginn er bundin við einstök sveitarfélög. Deildarstjóri í menntmrn., sem fjallar um dagvistarheimili, lýsti þungum áhyggjum vegna þess að veikja ætti faglega umsjón stjórnvalda með dagvistarheimilum skv. V. kafla frv.

Benda verður á að þrátt fyrir hátíðlegt tal um að gera sveitarfélögin óháðari ríkisvaldinu en nú er er víða í frv. að finna óljós skil og skörun varðandi valdsvið og fjárhagsleg samskipti. Má í því sambandi benda á kaflana um íþróttamálefni og dagvistarheimili.

Ámælisvert er að með frv. þessu er gripið inn í sérlög um einstaka málaflokka án þess að ráðrúm hafi gefist til heildarendurskoðunar á þeim lögum. Í nefndinni gafst ekki ráðrúm til að bera saman umrædda lagabálka og þær breytingar sem lagðar eru til samkvæmt frv. Þetta eru vinnubrögð sem einkenna málsmeðferð varðandi frv.

Minni hl. telur að með frv. sé byrjað á öfugum enda. Í stað þess að tryggja fyrst fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna gagnvart ríkinu er ráðist í „áfanga“ í verkefnatilfærslu og valdir úr þættir sem orka tvímælis að því er verkskiptingu áhrærir og gagnast sveitarfélögum lítið fjárhagslega. Reynt er að láta líta svo út af talsmönnum frv. að í því endurspeglist vilji sveitarfélaga í landinu, en þau hafa í raun ekki fengið að segja orð um efni þess.

Með vísan til ofangreindra atriða ítrekar minni hl. það álit sitt að vinna beri þetta mál í heild frá grunni áður en lögfest verði breytt verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Það er því tillaga minni hl. að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Ég býst varla við því, hæstv. forseti, að mér sé unnt á öllu skýrari hátt að leggja áherslu á þau aðalatriði sem mér þykir á skorta. Þau eru í rauninni þrjú.

Í fyrsta lagi að hina réttmætu eðlilegu kynningu skortir. Þá kynningu, sem þeir sem eiga að búa við þessa löggjöf eiga heimtingu á að fari fram, skortir. Því hefur ekki verið mótmælt með rökum.

Í öðru lagi: Breytingin er sveitarfélögunum á mörgum sviðum óhagstæð og hún gengur í rauninni þvert á hagsmuni þeirra sem eiga að njóta þeirrar þjónustu sem hér er um að ræða.

En í þriðja lagi, og það er kannski aðalatriðið, gengur breytingin á yfirlýst markmið. Hið yfirlýsta meginmarkmið er að gera verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga skýrari og ákveðnari. En drottinn minn dýri, þegar Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fer að starfa þrískiptur, í almennri deild, í sérdeild, í uppgjörsdeild, og enginn veit, ekki einn einasti maður á hinu háa Alþingi, enginn veit hvernig á að starfa í sérdeildinni. Við vitum og við þekkjum hvernig almenna deildin starfar. Þar höfum við haft til starfa sveitarstjórnarmann um árabil, einn virtasta aðila í þessu kerfi öllu, sem á allt lof skilið fyrir þjónustu sína við byggðir landsins um árabil. Ef þannig yrði staðið að til frambúðar væri ég ekki uggandi. En með þessa þrískiptingu og með þennan slæma undirbúning finnst mér vá fyrir dyrum.