14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4060 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

217. mál, innflutningur á fatnaði með fölsuðum upprunaskírteinum

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að leggja fram fsp. til tveggja hæstv. ráðherra, hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh., á þskj. 489 um innflutning á fatnaði með fölsuðum upprunaskírteinum. En fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hefur farið fram könnun á því hvort stundaður sé innflutningur á fatnaði og öðrum varningi með fölsuðum upprunaskírteinum?

2. Ef svo er, hvað leiddi hún í ljós?

3. Hafi slík könnun ekki farið fram, hyggjast ráðherrar þá beita sér fyrir því að svo verði?" Hæstv. forseti. Fata- og ullariðnaðurinn á í gríðarlegum rekstrarerfiðleikum. Hverri verksmiðjunni á fætur annarri er lokað með þeim afleiðingum að um 500 manns hafa misst atvinnu sína, eigendur eignir sínar og byggðarlög mikilvæg atvinnutækifæri fyrir íbúa sína. Dagblöð eru farin að birta það sem nú er farið að kalla „dauðalistann“ sem er listi yfir þau fyrirtæki í þessum iðnaði sem gefið hafa upp öndina og lengist sá listi dag frá degi. Þannig mætti nefna að á annan tug prjónastofa og nokkur fyrirtæki í fataiðnaðinum, eins og t.d. Henson bæði á Akranesi og Selfossi, hafa orðið að hætta starfsemi.

Mitt í öllum þessum hörmungum, sem sumir vilja að einhverju leyti kenna um síauknum innflutningi frá Asíulöndum, sem var á síðasta ári um hálfur milljarður kr., birtist viðtal við formann Félags ísl. iðnrekenda í Morgunblaðinu 8. okt. sl. þar sem hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við höfum á tilfinningunni að töluvert sé flutt inn af fatnaði frá Austur-Evrópu og Asíu á fölsuðum upprunaskírteinum. Fatnaður þessi er fluttur inn til einhverra fríverslunarlanda í Evrópu þar sem hann er merktur á ný og fær ný upprunaskírteini og lítur þá út eins og hann hafi verið framleiddur í viðkomandi landi. Þetta er gert til þess að sleppa við 16% toll til Íslands. Við ætlum að athuga hvort þetta sé jafnalgengt og orðrómurinn segir.“

Þarna er nánast fullyrt að innflutningur á fölsuðum EFTA-skírteinum eigi sér stað og að athuga þurfi hvort hann sé jafnmikill og orðrómur segir. Það er sem sagt ekki vafi í huga formanns Félags ísl. iðnrekenda að hann eigi sér stað heldur hitt hvort hann sé jafnmikill og orðrómurinn segir.

Þann 10. okt. sl. gefur Morgunblaðið helstu innflytjendum kost á að svara ásökunum Víglundar Þorsteinssonar og við skulum líta á hvað þeir hafa að segja, með leyfi forseta:

„Það verður að gera þá kröfu til Víglundar Þorsteinssonar að maður í hans stöðu rökstyðji ásakanir sem þessar og greini nánar við hvað hann á. Það verður ekki við það unað að heil stétt manna liggi undir grun um ólöglegan innflutning“, sagði Þorsteinn Pálsson innkaupastjóri Hagkaupa.“

Hann vísaði málinu á bug en krafðist rökstuðnings og það gerðu aðrir helstu innflytjendur líka. En hvað sagði Magnús Erlendsson hjá heildverslun Björgvins Schram? Hann kvaðst telja víst að Víglundur Þorsteinsson léti sér ekki ummæli sem þessi um munn fara án þess að geta staðið við þau. Og síðan segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Maður hefur heyrt að sum fyrirtæki standi að innflutningi með þessum hætti. Það eru til óheiðarlegir menn í þessu starfi eins og flestum öðrum. Ég vona að þessi orð Víglundar verði til þess að málið verði rannsakað og svikin afhjúpuð.“

Þarna kemur það fram svart á hvítu: í fyrsta lagi að Víglundur Þorsteinsson fari með rétt mál, að mati Magnúsar, í öðru lagi hefur hann heyrt um fyrirtæki sem standi í innflutningi með þessum hætti, í þriðja lagi vonar hann að þetta verði til þess að málið verði rannsakað og svikin afhjúpuð. Svikin afhjúpuð! Alls enginn vafi í hans huga, enda telur hann sig kannast vel við málið.

Þegar formaður Félags ísl. iðnrekenda fullyrðir að innflutningur á fölsuðum upprunaskírteinum eigi sér stað og þegar einn af stærstu innflytjendum á fatnaði, alla vega íþróttafatnaði, tekur alfarið undir það hljóta yfirvöld að leggja við hlustir og gera ráðstafanir. Það er því spurning mín: Hafa yfirvöld lagt við hlustir og gert ráðstafanir? Ef ekki, finnst ráðherrum þá ekki ástæða til?