04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

184. mál, frárennslis- og sorpmál

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka þær undirtektir sem síðustu ræðumenn hafa sýnt till. um könnun á ástandi frárennslis- og sorpmála. Eins og kemur fram í þeirra málflutningi og kom fram hjá mér í upphafi er þetta mjög stórt og mikið vandamál sem þarna er við að glíma og ég vonast svo sannarlega eftir því að þessi þáltill. fái góðan hljómgrunn í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál og að þáltill. megi verða samþykkt á þessu þingi.

Eins og fram kemur beint í tillögunni er farið fram á við félmrh. í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og viðkomandi sveitarfélög að það sé gerð samræmd könnun á ástandi þessara mála. Og þá nær það bæði til sorpmála, frárennslis sem slíks frá húsum, og atvinnustarfsemi og þá ekki síður loðdýraræktar og fiskeldis. Það hefur orðið hérna smáumræða varðandi fiskeldið og það er kannski ekki hægt að fullyrða beint um það hve mikill mengunarvaldur fiskeldið er, en í þessari tillögu felst það eitt að þetta sé kannað, en slíkar kannanir hafa ekki farið fram hér á landi svo að ég viti til. Hins vegar veit ég það að í Noregi, í þessum djúpu fjörðum sem þar eru, er þetta stórt og mikið vandamál. Sumir firðirnir eru orðnir dauðir og ekki er hægt að stunda þar fiskeldi né annan lífrænan rekstur.

Það er annað sem ég vildi minnast á sem eru fyrstu viðbrögð sem við höfum fengið vegna þessara mála. Þegar Efnahagsbandalagsríki stöðvaði innflutning á kjöti frá Íslandi var eitt af þeim atriðum sem þeir settu fyrir sig einmitt skolplagnir frá þeim sláturhúsum sem það kjöt sem flutt var til þessara landa kom frá. Það er sem sagt ljóst að það er fylgst með því erlendis hvernig við högum okkur í matvælaframleiðslunni og ég held að ef við ætlum að lifa af því áfram eins og hingað til að framleiddar séu hér hreinar matvörur þurfi í fyrsta lagi að athuga þessi mál er lúta að frárennslinu, frárennsli og skolpi.

Það er líka eitt annað sem ég vildi bæta við að lokum. Það er varðandi frárennsli frá olíustöðvum og sjúkrahúsum. Í núgildandi lögum eru gerðar töluverðar kröfur til þessarar starfsemi, en það hefur komið í ljós að þar er víða pottur brotinn eins og á mörgum öðrum sviðum sorpmála.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson vakti máls á því að hér væri aðeins um þáltill. að ræða og reynslan væri sú að ráðherrar færu lítið eftir því sem Alþingi samþykkti og harma ég það að svo hafi verið. Ég held hins vegar að verði þáltill. samþykkt muni það vera þannig, þar sem um mjög brýnt mál er að ræða, að félmrh. sjái sig tilneyddan til að fylgja þessu eftir.

Að lokum þakka ég þeim sem tekið hafa til máls fyrir þeirra undirtektir við till. og vonast eftir því að hún verði samþykkt. Ég á von á því að henni verði vísað til allshn.