04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4344 í B-deild Alþingistíðinda. (2998)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að þær umræður sem nú eiga sér stað séu um þingsköp. Ég er alveg reiðubúinn að ljúka þessum umræðum. Það var hæstv. forsrh. með sínum ósvífnu fullyrðingum, sem eiga sér engan stað, sem gaf mér tilefni til að koma hér upp aftur og óska eftir því að umræðurnar héldu áfram. M.a. sé ég ekki að fundurinn geti haldið áfram vegna þess að mín ræða er svar til manna sem ekki eru viðstaddir, sem ekki sjá sóma sinn í að virða það sem er annars skylda hvers þm. að vera viðstaddur nema hann hafi fjarvistarleyfi sem forseti tekur gilda. En þessir menn eru ekki viðstaddir. Af þeim ástæðum taldi ég betra að fara fram á það að fresta fundinum og ég sé enga ástæðu til að fundi sé ekki frestað ef á þarf að halda, mismunandi lengi, það getur verið ákvörðun forseta hve lengi, frekar en að óska eftir því að þeir þrír eða fjórir þm. sem ég mundi þá þurfa að svara yrðu sóttir. Mér finnst það heldur verra að senda eftir þeim. En ég legg það í hendur forseta að ákvarða fyrir mig um þessa frestunarbeiðni. Ef hann sér einhverja annmarka á að fresta umræðum lengur en þangað til í kvöld, þá get ég fallið frá beiðni minni. En orð mín sem svar við óforskömmuheitum hæstv. forsrh. standa.