08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4350 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Frsm. utanrmn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. utanrmn. hefur rætt um tillögu þessa og mælir nefndin einróma með að hún verði samþykkt með breytingum sem tillaga er gerð um á sérstöku þskj.

Kristín Einarsdóttir sem situr fundi nefndarinnar er sammála nál.

Brtt. eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að mótmæla stækkun endurvinnslustöðvar fyrir úrgang frá kjarnorkuverum í Dounreay í Skotlandi og felur ríkisstjórninni að vinna áfram gegn þessum áformum.

2. Fyrirsögn tillögunnar verði: Till. til þál. um mótmæli gegn stækkun endurvinnslustöðvar í Dounreay fyrir úrgang frá kjarnorkuverum.“

Eins og brtt. ber með sér taldi nefndin eðlilegt að Alþingi ályktaði að mótmæla sjálft stækkun endurvinnslustöðvarinnar, en fela hins vegar ríkisstjórninni að halda áfram mótmælum sem oft hafa verið sett fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, en fyrrv. ríkisstjórn mótmælti einnig þessum áformum, m.a. á siglingamálaráðstefnu í tengslum við Parísarsamninginn um varnir gegn mengun sjávar í febrúar 1987, þar sem mótmæli voru borin fram af hálfu fyrrv. samgrh.

Að sjálfsögðu hefur hæstv. utanrrh. haldið uppi mótmælum gegn þessum áformum og svo mun vera um aðra stjórnmálamenn og embættismenn sem á erlendri grund hafa getað komið þessum mótmælum við og auðvitað fagnar nefndin því að ríkisstjórnin haldi áfram þessum mótmælum, enda er það nú svo eins og allir vita að kannski eru meginmal nefndarinnar einmitt þau að fjalla um höfin hérna í kringum okkur og þá fyrst og fremst verndun þeirra, ræktun og hagnýtingu.

Af því tilefni er rétt að rifja það aðeins upp, sem hefur raunar komið fram í fjölmiðlum, að dagana 25. og 26. jan. sl., eða fyrir hálfum mánuði, var haldinn hér í Reykjavík fundur Íslendinga, Norðmanna og Dana vegna Grænlendinga um hafsbotnsréttindi á norðurslóðum. Utanrrn. Íslands bauð til fundarins en málið hefur rækilega verið rætt í utanrmn. Alþingis og nú síðast í morgun.

Á þessum fundi skiptust menn á skoðunum og upplýsingum og voru sammála um að halda áfram nánu samstarfi til að tryggja réttindi þjóðanna utan 200 mílna efnahagslögsögunnar, en öll ríkin hafa þar hagsmuna að gæta sem nánar verða kannaðir á næstunni. En síðan verður væntanlega boðað til nýs fundar. Þau réttindi sem ríkin geta tryggt sér utan 200 mílna efnahagslögsögunnar eru svokölluð hafsbotnsréttindi, þ.e. eignar- og yfirráðaréttur yfir hafsbotninum sjálfum og öllum lífverum sem á honum eru, þ.e. krabbadýrum, skeldýrum o.s.frv. Lengra ná þessi réttindi ekki enn þá. En það er skýrt tekið fram í 76. gr. Hafréttarsáttmálans að ríki geti með ýmsum hætti helgað sér réttinn að hafsbotnssvæðum þar sem landgrunn nær lengra út en 200 mílur og er hér stuðst við þá reglu að fara megi út að svokölluðum brekkufæti sem er brattasti hallinn áður en kemur niður í hafdýpin og síðan 60 mílur þar út fyrir. Á grundvelli þessara reglna geta ríkin helgað sér svo til allt svæðið frá 200 mílum Færeyja og Íslands og svo aftur Noregs, 200 mílum Jan Mayen og 200 mílum Grænlands.

Það er að vísu svo að ekki er ljóst með þrjá bletti á þessu svæði hvort ríkin geti helgað sér þá, en hugsanlegt er að beita þar annarri reglu í 76. gr. sem fjallar um þykkt setlaga, en enn er ekki kunnugt um hve þykk setlög kunna að vera á þessum svæðum. Allir sérfræðingarnir á þessum fundi og aðrir þeir sem leitað hefur verið til eru sammála um það að meginefni til að þetta svæði, sem er um 100 km breitt þar sem það er mjóst og upp í 300 km, sé svo til allt saman eign þessara ríkja.

Á fundinum var af Íslendinga hálfu varpað fram þeirri hugmynd að ríkin gerðu sameiginlegt tilkall til alls hafsbotnssvæðisins, sem skv. þessari nefndu grein, 76. gr. Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, fellur til einhvers þeirra, en síðan yrði samið um hlutdeild hvers ríkis fyrir sig og samningar Íslendinga og Norðmanna frá árinu 1980, annars vegar um fiskveiðar, sameiginlegan eignarrétt að fiski og auðlindum hafsins á þessu svæði, og frá 1981 um Jan Mayen svæðið, þ.e. botninn, þar sem Íslendingar eiga viðurkenndan samningsrétt að verulegum hluta svæðisins.

Þess er þá að geta að við létum í ljós þá skoðun að réttmætt væri að þar sem neðansjávarhryggur, sem nefnist Mons-hryggur, liggur frá Jan Mayen og til Noregs, þá væri hægt að taka það svæði eftir sérreglum um hryggi þar sem hafsbotnsréttur getur náð til 350 mílna, þar eigi Íslendingar hlutdeild í og þess vegna væri það ekki einungis það svæði sem við getum beint tekið okkur norður af Færeyjum, heldur einnig hlutdeild í því svæði sem Mons-hryggurinn tryggir sem ætti að koma til athugunar þegar skipting færi fram eftir einhverjum hundraðstölum. En ljóst er þó að Noregur hefur þarna mestra hagsmuna að gæta.

Í lok þessa fundar hittust fulltrúar Dana og Íslendinga til að ræða um Hatton-Rockall málið og hver gætu verið næstu skref í því sambandi. Norðmönnunum var greint frá þeim sjónarmiðum Íslendinga að eðlilegast væri að hafa náið samstarf þjóðanna allt frá Noregsströndum og Skotlandi vestur til Kanada um verndum, ræktun og nýtingu hafsvæðanna og ekki væri öllu lengur stætt á öðru en að hraða framvindu mála. Enn fremur var rætt um árangur sameiginlegs rannsóknaleiðangurs Íslendinga, Dana og Færeyinga á Rockall-hásléttu sl. haust, en nú er unnið að úrvinnslu tölvugagna og er þess vænst að mikilvægra upplýsinga hafi verið aflað.

Eins og fram hefur komið leggur nefndin einróma til að þáltill. sem hér er á dagskrá verði samþykkt.