08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4358 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrst ég er staðinn upp vil ég byrja með því að fagna þessari till. og samstöðu um hana. Ég tek undir allt sem hefur verið sagt um mikilvægi þessa máls.

En hv. síðasti ræðumaður spurði mig að því hvort ég hefði upplýsingar um ferðir kjarnorkuknúinna kafbáta og skipa á Norður-Atlantshafinu. Það hef ég ekki og eftir því sem ég best veit hefur gengið ákaflega erfiðlega að fá slíkar upplýsingar frá stórveldunum. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði um þá hættu sem þessu fylgir. Hins vegar hefur mér verið tjáð þegar ég hef spurt um þessi mál að hún væri lítil sem engin. Hefur verið gert ákaflega lítið úr þessari hættu og ég veit að sömu sögu hafa aðrir að segja. En ég hef tilhneigingu til að trúa betur þeim skipherra sem hv. þm. ræddi við.