08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4359 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

200. mál, rannsókn á byggingu flugstöðvar

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um rannsókn á ábyrgð á umframkostnaði við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þetta er 200. mál Sþ. á þskj. 231.

Till. er á þá leið að Alþingi kjósi rannsóknarnefnd skipaða níu alþm. til þess að gera sérstaka athugun á þessu tiltekna efni, ábyrgð á þeim umframkostnaði við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli sem kunnur er orðinn, sbr. skýrslu Ríkisendurskoðunar sem send var hv. alþm. og rædd hér í Sþ. skömmu fyrir jól. Um þá skýrslu og málið í heild er í raun óþarfi að fjölyrða. Sú umræða hefur þegar farið fram og staðið lengi dags hér á hinu háa Alþingi. Niðurstöður málsins hvað varðar umframkostnað og stjórnun og framkvæmd verksins liggja að mínu mati ljósar fyrir. Þær birtast í vandaðri skýrslu frá Ríkisendurskoðun og hafa ekki verið hraktar.

Síðast í morgun áttu formenn þingflokka og forsetar þingsins fund með ríkisendurskoðanda að ósk ræðumanns og þar var ríkisendurskoðandi að því spurður hvort hann teldi nokkuð það hafa komið fram sem breytti í einhverju þeim niðurstöðum sem stofnunin, Ríkisendurskoðun, kemst að í skýrslu sinni. Svarið við því var einfalt. Það var nei. Ríkisendurskoðun telur niðurstöður skýrslunnar að öllu leyti gildar og standa þrátt fyrir þá umfjöllun og ýmis ummæli sem fallið hafa um málið síðan skýrslan kom út.

Þá má í sem allra stystu máli draga þær niðurstöður saman á þann hátt að ljóst er að ýmsum atriðum í yfirstjórn við verkstjórn og hönnun þessa mannvirkis var ábótavant. Í öðru lagi er ljóst að farið var stórlega fram úr heimildum og kostnaður við mannvirkið varð mun meiri en fjárveitingaheimildir stóðu til. Í þriðja lagi var fjárveitingavaldinu ekki gerð grein fyrir umframeyðslu fyrr en eftir á.

Ég hygg að það nægi í raun og veru að vísa í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar eru dregnar saman helstu niðurstöður á bls. 3–10. Það er síðan ítarlega um þær fjallað bæði í skýrslunni og á fskj. Eins og ég sagði í upphafi hefur ekkert af því sem þar kemur fram verið hrakið og ég lít svo á og geng út frá því að það standi sem sannast er og best er vitað.

Hér er, herra forseti, á ferðinni alvarlegt mál og mjög stórt mál. Það skeður sem betur fer ekki oft að eyðsla fjármuna umfram heimildir sé af þeirri stærðargráðu sem hér ræðir um. Þó að upplýsingar liggi fyrir og málið sem slíkt þannig upplýst, þá er engan veginn þar með sagt að því sé eða eigi að vera lokið. Þvert á móti er nú það eftir sem e.t.v. er vandasamast en þó engu að síður nauðsynlegt: að fylgja málinu eftir. Þar hlýtur að koma til kasta Alþingis og að okkar mati, þm. Alþb., er þar eðlilegasta leiðin að kjósa sérstaka nefnd þm. til þess að annast rannsókn á því hverjir beri hér ábyrgð og hvernig skuli með málið fara í framhaldi af því. Því flytjum við svohljóðandi till. á þskj. 231, með leyfi forseta:

„Alþingi samþykkir að kjósa rannsóknarnefnd skipaða níu alþingismönnum til þess að gera sérstaka athugun á því hverjir skuli sæta sérstaklega ábyrgð á umframkostnaði við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, sbr. skýrslu Ríkisendurskoðunar sem send hefur verið alþingismönnum.

Rannsóknarnefndin skal í starfi sínu leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

1. Hver var ábyrgð þáv. utanrrh. á því að kostnaður við bygginguna og ákvarðanir um einstaka framkvæmdaþætti fóru langt fram úr áætlun og þeim heimildum sem Alþingi hafði samþykkt?

2. Hver var ábyrgð þáv. fjmrh. á því að fjárveitingar til byggingarinnar og kostnaður fóru langt fram úr áætlunum og heimildum þeim sem Alþingi samþykkti?

3. Hver var ábyrgð

a. formanna byggingarnefndar,

b. byggingarstjóra,

c. einstakra byggingarnefndarmanna,

d. hönnuða og

e. framkvæmdafyrirtækja

á því að ráðist var í framkvæmdir, stækkanir, viðbætur, breytingar og önnur verkefni sem höfðu í för með sér útgjöld sem ekki voru í þeirri verkáætlun sem upphaflega var samþykkt.

Nefndin skal enn fremur meta hvort þeir sem ábyrgð báru geti gegnt opinberum trúnaðarstörfum eða með hvaða hætti þeir skuli sæta ábyrgð.

Rannsóknarnefndin skal afla sér upplýsinga, bæði munnlegra og skriflegra, hjá þeim sem hlut eiga að máli.

Nefndinni skal veitt fé til þess að tryggja henni sérfræðilega aðstoð og nauðsynlega starfsaðstöðu. Rannsóknarnefndin skal gefa Alþingi skýrslu um niðurstöður sínar og störf fyrir lok marsmánaðar 1988.“ Síðan segir í grg. og hún er ekki löng, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Alþb. telur upplýsingar, sem komið hafa fram um stórfellda eyðslu umfram áætlanir og heimildir við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, alvarlegustu atburði í opinberri fésýslu um langa hríð.

Þær niðurstöður, sem komist er að í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2. des. 1987, sýna að ýmsum þáttum í yfirstjórn og við verkstjórn og hönnun hefur verið stórlega ábótavant og að upplýsingum um alvarlega umframeyðslu og fjárvöntun var ekki komið á framfæri rétta boðleið við fjárveitingavaldið árum saman. Óhjákvæmilegt er að það verði rannsakað vandlega hverjir bera hér sérstaklega ábyrgð, ekki síst þar sem jafngífurlega mikil og dýr framkvæmd á í hlut og verkið var alveg á ábyrgð æðstu stjórnvalda og að hluta unnið af ýmsum mjög háttsettum embættismönnum.

Með hliðsjón af eðli málsins og mikilvægi þess og aðstæðum öllum telja flutningsmenn eðlilegast að Alþingi sjálft stýri slíkri rannsókn með því að kjósa til þess sérstaka nefnd þingmanna. Benda má á í þessu sambandi að samkvæmt nýlegum lögum heyrir Ríkisendurskoðun nú undir Alþingi og skal stofnunin vera þinginu sérstaklega innan handar í ýmsum efnum sem tengjast fésýslu.

Það er því rökrétt og eðlileg málsmeðferð að nefnd þingmanna, sem nýtur aðstoðar Ríkisendurskoðunar og leitar sér annarrar sérfræðilegrar aðstoðar eftir þörfum, annist þetta óumflýjanlega verkefni.

Flm. telja frekari rökstuðning fyrir tillögunni óþarfan, en vísa í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ítarlegri upplýsingar.“

Síðan eru samandregnar niðurstöður þeirrar skýrslu birtar sem fskj. með till. þessari.

Herra forseti. Ég tel að við svo búið megi ekki standa að í ljósi þeirra alvarlegu upplýsinga sem fram hafa komið verði ekkert frekar að gert í málinu. Því miður hefur það viljað brenna við hjá okkur Íslendingum að þegar slík mál eru upplýst, sem e.t.v. er of sjaldan, þ.e. sú hætta að mörg alvarleg mál nái aldrei því stigi er vissulega fyrir hendi, en þegar þó það gerist þá er óviðunandi að menn láti þar við sitja. Það væri í raun og veru mesta hneykslið í þessu máli, stærra hneyksli en sjálf byggingin og framkvæmd hennar er, ef hér yrði látið við sitja. Það má auðvitað ekki gerast að almenningur horfi upp á það aftur og aftur að opinberu fé sé eytt, svo ekki sé nú sagt sóað, með þeim hætti sem þarna hefur átt sér stað, það sé upplýst en síðan sé ekkert meira að gert.

Það getur naumast haft holl uppeldisáhrif almennt og góð áhrif á siðgæðisvitund í einu þjóðfélagi ef vandamálum af þessu tagi, tilefnum sem þessum, er ekki fylgt eftir. Ég tel í raun og veru einmitt vegna þess að hér eiga í hlut mjög háttsettir aðilar enn þá meiri nauðsyn en ella á því að þessu máli verði fylgt eftir allt til enda, engir lausir endar látnir þar eftir og því ekki sópað undir teppið eða það látið gleymast á því stigi sem nú er.

Auðvitað er hér um pólitískt mál að ræða og það kann að hafa sín áhrif á það hvernig gengur að fá málinu fylgt eftir. En málið er fyrst og fremst pólitískt vegna þeirra aðila sem kusu að gera það svo, sem tóku það upp á sína arma sem sitt sérstakt verkefni og þeir verða að sjálfsögðu að sæta því, þegar þetta mannvirki og sagan á bak við það er ekki jafnglæst og þeir e.t.v. töldu um hríð, að málið fái eðlilega umfjöllun eftir sem áður.

Ég held að það þurfi í sjálfu sér ekki miklu fleiri orð hér um. Hér er lögð til ein aðferð af nokkrum sem til greina kæmu við það að fylgja málinu eftir. Það er alveg ljóst að Ríkisendurskoðun — og væntanlega einnig fjmrh. sem bað um þá skýrslu sem hún vann — telja sig hafa lokið sínum hluta málsins. Hæstv. fjmrh. er reyndar ekki hér í dag en það væri ástæða til að spyrja hann um það hvað hann hyggist nú fyrir, hæstv. ráðherrann, hafandi fengið þessa skýrslu. En eftir sem áður þá hlýtur það þegar til kastanna kemur að vera Alþingis að ráða úr um meðferð málsins.

Ég vil fyrir mitt leyti taka það fram að ef samstaða gæti orðið um einhverja aðra málsmeðferð en hér er flutt tillaga um, þá er ég til umræðu um það að skoða slíkt. Það eina sem ekki má gerast og verður ekki við unað er að hér verði látið staðar numið.

Ég vil einnig vekja á því athygli að hér er á ferðinni visst prófmál þar sem Ríkisendurskoðun er nú í raun og veru í fyrsta sinn eftir að sú stofnun færðist undir Alþingi að framkvæma viðamikla úttekt á meðferð opinbers fjár, á fésýslu af þessu tagi og það kann því að hafa nokkurt fordæmisgildi hvernig með þetta mál verður farið. Ég held að það sé alveg ljóst að höfundar laga um Ríkisendurskoðun ætluðu henni í raun meira hlutverk en það eitt að búa til skýrslur, þó góðar séu, um mál ef þeim verður svo ekki fylgt eftir jafnvel þó fyllsta ástæða sé til eins og auðvitað er í þessu tilefni.

Ég hygg að nefnd þm. sem kosin væri hér á hinu háa Alþingi gæti síðan haft forustu um og notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar við að upplýsa málið til hlítar og taka ákvarðanir um þá þætti sem eðli málsins samkvæmt stofnun af tagi Ríkisendurskoðunar getur ekki gert, þ.e. hverjir bera hér ábyrgð og hvernig skal með þau mál farið. Það er megintilgangur þessarar till. að leggja þar til ákveðna málsmeðferð.

Ég vil svo leggja það til, herra forseti, eðli málsins vegna að að loknum þessum hluta umræðunnar verði till. vísað til hv. utanrmn. Það má auðvitað um það deila hvar till. ætti best heima, en vegna þess að þetta sérstaka mannvirki hefur ákveðna stöðu í íslensku stjórnsýslunni sem ekki þarf að eyða hér orðum á, þá heyrir mannvirkið og rekstur þess undir utanrrn. Og þó að ræðumaður sé þeirri skipan andvígur þá er það samt sú skipan sem á er í dag og ég tel því eðlilegast að till. gangi til hv. utanrmn.