11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Mér þykir rétt að það komi hér fram skoðun sem flestra á þáltill. sem er á þskj. 515. Ég vil taka undir með þeim sem hafa varað við þessari till. því ég held að hún sé með því vitlausasta sem ég hef séð fram koma á þinginu frá því að ég kom hingað. Ég skildi hæstv. viðskrh. þannig, þó hann talaði diplómatískt rósamál, að hann væri líka að vara við þessari till. með öðrum orðum en þeim beinskeyttu sem ég viðhef hér. Ég geri það svo það fari ekkert á milli mála að þessi till. er hættuleg á sama hátt og hún er vitlaus.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki menn sem telja sig vera fjármálaspekinga og hafa fengið viðurkenningarorð fyrir það á Alþingi, eins og t.d. hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, að láta sér detta í hug að tengja íslensku krónuna, hengja hana aftan í gengi annarra þjóða á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Það er ekki hægt. Það er rétt sem hér hefur komið fram hjá ágætum þm. sem hafa varað við því að viss hluti af íslensku sjálfstæði er þar með horfinn úr íslensku þjóðlífi. Hæstv. viðskrh. veit vel að íslenskt gengi er miðað við viðskiptalönd okkar og ákveðna körfu. ECU, sem þýðir minnstu mynt sem Frakkland hefur átt, er ákveðin karfa sem er meðalgengi þeirra mynta sem eru helstu viðskiptalönd okkar. Það er engin betri trygging til en einmitt það sem er viðmiðun á þjóðarframleiðslunni og viðskiptalöndum okkar.

Við hvað vilja hv. flm. tengja gjaldmiðil okkar? Vilja þeir tengja hann við myntir þeirra þjóða sem eru dinglandi frá degi til dags annaðhvort upp eða niður eða vilja þeir tengja það við svissneska frankann eða japanska jenið, þýska markið sem hækka kannski frá degi til dags? Hvaða afleiðingar hefði það fyrir íslenskt efnahagslíf ef krónan væri hækkandi á hverjum einasta degi? Þegar krónan var hækkuð á sínum tíma fór Íslandsbanki á hausinn eins og hv. flm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði að umræðuefni áðan. Þá fór líka togaraflotinn á hausinn og Milljónafélagið fór líka á hausinn og það er hægt að telja fleiri fyrirtæki sem fóru þá á hausinn. Það má segja að þjóðin hafi ekki náð sér að fullu síðan.

Nei, ég tek undir með þeim hv. þm. sem hafa varað við þessari till. Ég skildi rósamál hæstv. viðskrh. þannig að hann væri að tala á móti þessu. Svo skildi ég ekki þegar hann kom upp og svaraði Ólafi Þ. Þórðarsyni, hv. 2. þm. Vestf. Þá fannst mér hann vera kominn á aðra skoðun. Það má eiginlega segja að það hafi komið mér til þess að standa upp. Mér fannst nóg í fyrri ræðunni af aðvörunarorðum, sem komu fram hjá hæstv. ráðherra, en aftur á móti fannst mér hann bakka yfir í það andstæða við sjálfan sig í seinni ræðunni. Það getur vel verið að það sé leiðrétt með því að ráðherra hristir höfuðið. Ég hef þá bara misskilið hann. Ég vona að ég hafi þá misskilið seinni ræðuna. Ja, ég vona að ég hafi skilið það rétt í fyrri ræðunni að hann hafi verið að vara við þeim hringlanda og vitleysu sem eru í till.

Að tengja íslenskt myntkerfi við annað stærra myntkerfi þannig að íslenskur gjaldmiðill njóti alþjóðlegrar viðurkenningar, að það sé hægt að ganga inn í búð hvar sem er og selja hann, það er alþjóðaviðurkenningin, og að varanlegum stöðugleika verði náð í gengismálum hér á landi með því að tengja hann einhverjum sveiflum erlendis, haldið þið að það sé eitthvert gjaldeyriskerfi erlendis sem er óhagganlegt og breytist aldrei? Ekki aldeilis. Svo lengi sem ég man, svo lengi sem ég hef lifað hefur svissneski gjaldmiðillinn verið talinn það öruggasta. Hann hefur alltaf verið á uppleið. Ég hef aldrei vitað til þess að hann hafi farið niður. Þýska markið, sem var gjörsamlega brotið niður, mölbrotið sem kerfi, hefur verið á uppleið allt frá fyrri heimsstyrjöldinni og er núna einn sterkasti gjaldmiðillinn. Sama er með jenið sem allt frá heimsstyrjöldinni síðari hefur verið að styrkjast. Allir aðrir gjaldmiðlar hafa verið að fara niður á við. Þeir hafa komið upp og niður en oftast nær sokkið meira en þeir hafa klifrað. Og hvert ætlið þið að sækja stöðugleikann? Þið eruð að færa, eins og kom fram hjá einum ágætum þm. áðan, vissan hluta af sjálfsákvörðunarrétti íslensku þjóðarinnar um innri málefni yfir til útlendra. Og það er slæmt veganesti fyrir nokkurn þm. að hafa það á samviskunni.

Ég mæli á móti till. Ég vara við henni. Og ég vara við henni með þeim orðum, sem ég geri að mínum, sem komu fram hjá öllum þeim þm. sem ég hef heyrt vara við þessu allt frá því ég kom inn í salinn áðan og virðulegur 4. þm. Norðurl. e. talaði og til þess sem síðast var hér á undan mér í ræðustól.