28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Við höfðum rætt á síðasta fundi nokkuð um frv. til l. um breytingu á lögum un Húsnæðisstofnun ríkisins sem lagt hefur verið fram af hæstv. ríkisstjórn og mælt fyrir af hæstv. félmrh.

Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar á síðasta fundi deildarinnar farið lauslega yfir efnisatriði frv. og fjallað nokkuð um aðdraganda þess. En mig langar til að víkja örlítið nánar að fáeinum efnisþáttum í sjálfu frv.

Í fyrsta lagi ætla ég að fara yfir meginefni frv. þar sem í 1. gr. er opnuð heimild til handa húsnæðismálastjórn að takmarka lánamöguleika þeirra sem miklar íbúðareignir eiga fyrir. Hér er á ferðinni heimild til takmarkandi ákvæðis sem oft áður hefur verið rætt um og þá hefur gjarnan verið tekið svo til orða að efnahagur skyldi ráða nokkru um hvaða lánsmöguleika menn hefðu úr húsnæðislánakerfinu. Í frv. þessu hefur orðið niðurstaðan sú að miða eingöngu við íbúðareign eða skuldlítinn hlut í íbúðarhúsnæði. Það er út af fyrir sig galli, ef menn fara út í að skilgreina aðstæður manna á annað borð, að menn treysti sér þá ekki til að lesa meira út úr upplýsingum sem fáanlegar eru um almennan efnahag umsækjanda en það eitt hversu mikið íbúðarhúsnæði viðkomandi á. Ég tók fram að ég teldi þá hugsun sem lögð er til grundvallar rétta, þ.e. að láta þá sem eiga íbúðarhúsnæði, jafnvel stórt og skuldlaust, víkja fyrir öðrum sem eru í meiri þörf. Sú röksemd, sem hefur heyrst í þessari umræðu, að vegna þess að menn geti eftir sem áður náð sér í húsnæðislán með því að kaupa íbúð á hinum almenna markaði á hverri hvíldu lán frá byggingarsjóðunum er að mínu mati ekki haldbær í þessu efni, fyrst og fremst vegna þess að á meðan að útlánafé byggingarsjóðanna er takmarkað og biðtími er langur eru það næg rök í sjálfu sér til að reyna að forgangsraða þeim hópum sem sækja þar um aðstoð. Þar breytir engu um þó að það hafi lengi verið svo að menn sem ekki áttu lánsrétt samkvæmt úthlutunarreglum á lánum frá húsnæðismálastjórn gátu á hinum almenna fasteignamarkaði keypt íbúðir á hverjum hvíldu eldri lán, burtséð frá rétti þeirra sem einstaklinga til að taka slík lán. Við vitum einnig að jafnvel lífeyrissjóðslán, sem þó samkvæmt samþykktum og úthlutunarreglum lífeyrissjóðanna eiga að fylgja einstaklingum sem lánsréttinn höfðu, hafa gjarnan gengið á milli manna með húseignum. Þess eru ótal dæmi að við íbúðakaup hafi menn yfirtekið lán sem aðrir höfðu tekið hjá sínum lífeyrissjóðum. Þannig er hér í raun og veru ekki um nein ný rök í málinu að ræða. — Ég endurtek að það er hárrétt hugsun, ef menn þurfa að takmarka aðgengi að húsnæðislánasjóðunum á annað borð að reyna að lesa úr þá sem minnsta hafa þörfina fyrir slík lán og láta þá mæta afgangi.

Það hefur einnig heyrst í þessari umræðu, einkum frá aðilum sem tengjast lífeyrissjóðunum eða launþegahreyfingunni, að í raun felist í þessari takmarkandi reglu svipting lífeyrissjóðsréttinda vegna þess að með vaxandi þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun byggingarsjóðanna hafi þeir dregið úr lánum til sinna félaga og þar af leiðandi sé í gegnum þessar takmarkandi reglur verið að svipta menn lífeyrissjóðsréttindum. Ég held að þetta séu heldur ekki haldbær rök vegna þess að hér er um tvenns konar og ólíka lánafyrirgreiðslu að ræða, annars vegar lán úr byggingarsjóðunum með stórlega niðurgreiddum vöxtum, hins vegar voru þau lán sem félagsmönnum lífeyrissjóða stóð til boða að taka yfirleitt á háum vöxtum, markaðsvöxtum eða jafnvel hærri vöxtum en unnt var að fá sums staðar annars staðar á hinum almenna lánamarkaði. Slíkum stendur eftir sem áður til boða að taka sér lán hvar annars staðar sem er úti í þjóðfélaginu.

Ég hef heldur aldrei skilið það sem eitt af meginverkefnum lífeyrissjóða að stunda lánastarfsemi, hvorki til sinna félaga né annarra. Fyrsta boðorð lífeyrissjóðanna á að vera að ávaxta fé sitt og í öðru lagi tryggja þannig og í framhaldinu lífeyrisgreiðslur sinna félagsmanna. Það er grundvallaratriðið og meginhlutverk lífeyrissjóðanna, ekki hitt að standa í lánastarfsemi sem fyrst og fremst er komin til af þörf lífeyrissjóðanna til að ávaxta fé sitt. Þannig finnast mér þessi rök, sem beitt hefur verið, ekki haldbær. Ég hef því góða samvisku yfir því, hvort sem það snýr að félagsmönnum lífeyrissjóða eða öðrum, að styðja þá hugsun sem lögð er til grundvallar ákvæðum 1. gr. En ég tek fram, eins og ég hef þegar sagt, að ég tel það nokkurn galla á útfærslunni að menn skuli ekki reyna að líta til þess í víðara samhengi hvernig efnahagur umsækjanda er en bara þess að skoða eign viðkomandi á íbúðarhúsnæði.

Ég vék nokkuð í fyrri hluta ræðu minnar að 2. gr. frv. sem gengur út á að hefja útgáfu svonefndra lánshæfisbréfa eða hálfgildings lánsloforða eins og ég hef kosið að kalla það. Ég hef ekki miklu við það að bæta. Ég vara við þeirri hugmynd. Ég bendi á að nógu slæmt er að brask upphefjist þegar umsækjendur hafa fengið í hendur eiginleg lánsloforð frá húsnæðismálastjórn. Ég held að hálfgildings lánsloforð eða lánshæfisbréf séu ekki í eðli sínu það ólíkur pappír að ekki geti orðið um brask að ræða með þau engu að síður. Það er þó alveg ljóst að þau eru mönnum miklu minni trygging í hendi. Ég tel að nær væri að Húsnæðisstofnun færi í þveröfuga átt og er út af fyrir sig tilbúinn að standa að lagabreytingum ef menn telja þess þörf í þá veru að húsnæðismálastjórninni verði heimilt að gefa engar skuldbindandi yfirlýsingar fyrr en nær dregur þeim tíma er lánin eru veitt. Það er að mínu viti eina aðferðin til að koma í veg fyrir misnotkun og brask með slíka pappíra frá húsnæðismálastjórn. Ég teldi í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur á rúmu ári af útgáfu lánsloforða að það væri nær að húsnæðismálastjórn sendi eingöngu frá sér móttökukvittun eftir að umsókn hefur verið móttekin, tilkynningu um að umsókn hefði verið móttekin og einhvers konar leiðbeiningu um hversu lengi umsækjandinn mætti vænta þess að bíða þangað til hann fái skuldbindandi svör. Að öðru leyti sendi stofnunin ekkert frá sér sem orðið gæti tilefni til einhvers konar brasks eða væntinga af hálfu umsækjendanna sem ekki standast þegar á hólminn kemur.

Í 3. gr. frv. er í raun á ferðinni viðleitni af sama tagi og um er fjallað í 1. gr. nema þar er gert ráð fyrir að aðstæður umsækjenda geti haft áhrif á röðun þeirra innbyrðis á biðlista eftir lánum. Hvað varðar það ákvæði greinarinnar að taka lán til viðbyggingar, endurbóta eða orkusparandi aðgerða fram fyrir í flokk með lánum til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn get ég einfaldlega lýst því yfir að ég er því sammála. Ég tel galla eins og þetta hefur verið á því ári sem lögin hafa verið reynd að lán til að mynda til orkusparandi endurbóta á húsnæði á þeim svæðum þar sem menn búa enn við olíukyndingu eða dýra rafmagnskyndingu lendi inni í biðlistanum og týnist þar, ef ég má taka svo til orða. Hér er ekki á ferðinni stór eða viðamikill lánaflokkur, en fyrir honum eru engu að síður mikil rök og ég tel fyllilega réttmætt að taka á þeim eins og frv. gerir ráð fyrir og þau njóti sama forgangs og lán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn.

Hvað varðar hins vegar þá heimild 3. gr. að öðru leyti að taka tillit til fjölskyldustærðar og aðstæðna þegar raðað er á biðlista þeirra sem eiga íbúð fyrir er alveg ljóst að sú gagnrýni er réttmæt að með þessu er verið að fá húsnæðismálastjórn í hendur vald sem í sjálfu sér er vandmeðfarið og ekki eftirsóknarvert. Ekki dettur mér í hug að neita því og reynslan af starfi G-lánanefndar, sem ég þekkti nokkuð til á meðan hún var og hét, segir mér að húsnæðismálastjórn verður ekki öfundsverð af sínu hlutverki hvað þetta varðar ef til kemur. Það er ekki eftirsóknarvert að fá heimildir til að draga fólk í sundur með þessum hætti, kannski á grundvelli tiltölulega óljósra leiðbeinandi reglna. En ég segi aftur: Viðleitni af því tagi er eðlileg með tilliti til ástandsins í húsnæðismálunum og í húsnæðislánakerfinu. Og mér finnst sjálfsagt og ég er tilbúinn að skoða vandlega hvort setja megi einfaldar reglur um þetta sem bjóði engu að síður ekki upp á allt of mikla túlkun í einstökum tilfellum.

Svo kem ég að 4. gr., herra forseti, þar sem í 11/2 línu er fjallað um heimildarákvæði til handa ríkisstjórn að ákveða mismunandi vexti innan hvers lánaflokks eða að endurgreiða vexti, hvort tveggja eftir nánari reglum er settar verða í reglugerð. Hér er að mínu mati á ferðinni erfitt verkefni. Það er kannski nauðsynlegt að menn geri sér strax í upphafi grein fyrir að það er fyrst og fremst erfitt að útfæra þetta verkefni vegna grundvallaruppbyggingar lánakerfisins í húsnæðissjóðunum. Það er þannig, eins og menn ugglaust þekkja til og þarf væntanlega ekki að fræða hv. þm. um, að lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins fylgja húsnæði. Þau fylgja þeim veðstað sem lánin lenda á í upphafi þó að þau séu tekin í upphafi af einstaklingum og vegna lánsréttar einstaklinga. Þannig er kerfið í raun sambland af kerfi sem byggir á lánsrétti einstaklinganna í upphafi og grundvallast á umsóknum þeirra, en lánin festast síðan á þeim veðstað sem þau eru í upphafi sett á. Þetta er sem sagt grundvallaruppbygging kerfisins. Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar rætt er um möguleikana á því að taka upp breytilega vexti innan einstakra útlánaflokka vegna þess að það þýðir væntanlega að haldi menn eftir sem áður því kerfi að lánin fylgi veðstað þarf að reikna hlutina upp á nýtt og fara yfir þá upp á nýtt í hvert einasta skipti sem eigendaskipti verða á húsnæði á hverju hvíla lán frá byggingarsjóðunum. Engu að síður þurfa menn að fara yfir þessa hluti og athuga hvernig aðstæður einstaklinga breytast jafnvel þó svo þeir búi áfram á sama stað og lánin fylgja.

Nú er margt hægt með ofurtölvum nútímans og með því að ráða nógan mannskap, en ég bíð mjög spenntur eftir að heyra tillögur um einfalda útfærslu á því kerfi að fylgjast með því í fyrsta lagi í hvert einasta skipti sem eigendaskipti verða á íbúð sem hefur áhvílandi lán frá byggingarsjóðunum og í öðru lagi að fylgjast með því hvernig aðstæður einstaklinga breytast þannig að sanngjörn útfærsla verði til á því hversu háa vexti greiða skal af hverju og einu láni á hverjum tíma.

Mun einfaldara væri ef menn treystu sér til að gera þá grundvallarbreytingu á lánakerfinu að lægri vextir væru bundnir við fyrsta lán til einstaklings í hverju einstöku tilfelli og fylgdu honum síðan þannig að vextir væru fyrst og fremst mismunandi á grundvelli þess hvort um væri að ræða fyrsta lán eða síðara lán til viðkomandi einstaklings og síðan fylgdu lánin einstaklingnum sem þau tók í upphafi. Þá væri í sjálfu sér mjög auðvelt að fylgjast með því og tryggja að slíkar reglur kæmu sanngjarnt út. En um þetta atriði eru næsta fá orð í frv. og ég hef ekki í sjálfu sér heyrt neinar tillögur um útfærslu á þessu sem ég get í raun tekið afstöðu til.

Ég er ekki mótfallinn því að menn leiti einhverra leiða til að brúa vaxtamuninn með slíkum hætti því að öllum má vera ljóst að þar stefnir í hreint óefni ef ekki verður eitthvað að gert. Sá mikli munur sem orðinn er á vöxtum á þeim lánum sem byggingarsjóðirnir taka annars vegar og útlánum þeirra hins vegar og með jafnlitlu ríkisframlagi til sjóðanna og við upplifum á þessum árum gerir að verkum að það þarf ekki talnafróða menn til að sjá að þar stefnir í hreint gjaldþrot byggingarsjóðanna á tiltölulega stuttum tíma ef ekki verður gripið til einhverra ráðstafana.

Þær leiðir sem til greina koma í þessu efni eru fáar og skýrar og menn ættu að geta gert upp afstöðu sína til þeirra með einföldum hætti.

Það kemur í fyrsta lagi til greina að hækka vextina á öll útlán byggingarsjóðanna. Það er að sjálfsögðu langeinfaldasta og áhrifaríkasta aðferðin til að ná meiri peningum inn í byggingarsjóðina að minnka vaxtamuninn með því að hækka útlánsvexti byggingarsjóðanna. Frammi fyrir því standa menn og það geta menn gert upp við sig. Ég er því andvígur. Ég tel að ef einhvers staðar, fyrir utan e.t.v. námslán, sé ástæða til að reyna að halda vöxtum niðri í þjóðfélaginu sé það á lánum til að afla íbúðarhúsnæðis.

Annar möguleikinn er svo að hafa mismunandi vexti eða breytilega vexti jafnvel innan sömu lánaflokka. Því fylgja þau vandkvæði sem ég hef þegar að vikið og ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þó að ég taki fram að ég ætla ekki að útiloka að menn reyni að finna einhverja færa útfærsluleið hvað þetta varðar.

Í þriðja lagi, og því vil ég að menn muni eftir í þessari umræðu, er svo möguleikinn á því að ákveða það sem lið í langtímastefnumörkun í húsnæðismálum að stórhækka ríkisframlagið, að niðurgreiða vextina og halda þessum mikla vaxtamun með því ósköp einfaldlega að hafa ríkisframlagið hærra þannig að tvennt gerist, að hærra ríkisframlag sé til ráðstöfunar á hverjum tíma til að greiða vaxtamuninn og að einhver hluti af útlánum byggingarsjóðanna á hverjum tíma sé þeirra eigið fé, einhver umtalsverður hluti útlánanna á hverjum tíma sé eigið fé byggingarlánasjóðanna. Þá vegur vaxtamunurinn minna og sjóðirnir standa sterkar með sitt eigið fé og sínar eigin tekjur til að bera þann vaxtamun til langframa.

Fjórði möguleikinn, sem mönnum finnst e.t.v. næstum guðlast að ræða hér en er þó óhjákvæmilegt að minna á, er sá að minnka vaxtamuninn úr hinni áttinni með því að reyna að lækka vexti í landinu, með því að reyna að leita eftir ódýrara lánsfjármagni til byggingarsjóðanna. Stærstur hluti vandans sem við stöndum frammi fyrir eru þeir okurvextir sem tíðkast í þjóðfélaginu. Ég er ekkert að ásaka forsvarsmenn lífeyrissjóðanna í landinu sem að sjálfsögðu leita hagkvæmustu ávöxtunar fyrir sína félaga og sína sjóði á hverjum tíma, en þeir gera það með tilliti til vaxtastigsins í þjóðfélaginu. Hverjir fara þar á undan með fögru fordæmi aðrir en hæstv. ríkisstjórnin sjálf? Það er hæstv. ríkisstjórn sem er að pína vaxtastigið upp í landinu með vöxtum á ríkisskuldabréfum og með ýmsum öðrum ákvörðunum í efnahagsmálum þannig að þetta er að verulegu leyti heimatilbúinn vandi hæstv. ríkisstjórnar. Ef vaxtastigið á Íslandi væri raunhæft, hóflegt, væri þessi staða í byggingarsjóðunum miklum mun léttbærari en raun ber vitni því að vaxtakröfur lífeyrissjóðanna á sitt fé taka mið af vaxtastiginu almennt, eins og ég hef þegar að vikið og allir gera sér væntanlega ljóst. Þannig er líka ástæða til að muna eftir því í þessari umræðu að ríkisstjórnin sjálf með ákvörðunum sínum í vaxta- og peningamálum ræður miklu um þennan enda málsins, hverjar vaxtakröfur þeirra sem leggja byggingarsjóðunum til fé eru á hverjum tíma. Þær hafa verið að hækka á undanförnum mánuðum. Byggingarsjóðirnir standa nú á grundvelli nýrra samninga frammi fyrir nýjum vanda, nýju gati upp á fleiri hundruð millj. kr. einfaldlega vegna þeirrar hækkunar á vöxtum sem lífeyrissjóðirnir kröfðust í framhaldi af hækkandi vöxtum úti í þjóðfélaginu.

Ég vil svo koma að einum þætti enn og það varðar ásókn í þessi lán. Það hefur gerst, eins og menn vita, að umsóknir hafa orðið fleiri og ásókn í lán hjá byggingarsjóðunum hefur orðið meiri en menn gerðu ráð fyrir þegar rætt var um kerfisbreytingar í húsnæðismálum á öndverðu ári 1986. Ég verð að segja alveg eins og er að það kemur mér á óvart að menn skuli vera hissa á þessu. Ég er hissa á að menn skuli ekki skilja og hafa áttað sig á fyrir löngu að öðruvísi gat þetta ekki farið. Það þarf enginn að vera undrandi á því þó að það sé mikil eftirsókn í lán hjá Húsnæðisstofnun, Byggingarsjóði ríkisins. Og hvers vegna er það nú? Fyrir því eru nokkrar ástæður og flestar væntanlega kunnar.

Í fyrsta lagi eru hér á ferðinni lán, mjög hagstæð lán. Í þjóðfélagi sem hefur einhverja hæstu vexti í heimi eru þarna á ferðinni lán með tiltölulega hóflegri raunávöxtun. Þetta segir um leið að betri ávöxtunarkjör bjóðast annars staðar í þjóðfélaginu, mun betri. Þar af leiðandi er það svo að fyrir einstaklingana er freistandi að ná í lánsfé hjá byggingarsjóðunum en ráðstafa sínu eigin fé annars staðar. Það er mjög freistandi.

Svo kemur það til í öðru lagi að með verðtryggingu fjárskuldbindinga í þjóðfélaginu og minni verðbólgu hefur steinsteypa sem slík, íbúðarhúsnæði eða önnur steinsteypa, að verulegu leyti misst gildi sitt sem ávöxtunaraðferð eða trygging á fjármagni. Þar af leiðandi er af þeim sökum einnig minni áhugi á því að binda eigið fé í íbúðarhúsnæði. Það kostar að eiga húsnæði og þegar auðvelt er orðið að verðtryggja fjárskuldbindingar annars staðar og fá fyrir þær mun hærri ávöxtun er eðlilegt að einstaklingar hafi minni áhuga á því en ella að leggja sitt eigið fé í byggingu íbúðarhúsnæðis.

Í þriðja lagi er húsnæði að verða dýrara að raungildi í landinu. Það er talið að fasteignaverð nú sé sambærilegt eða jafnvel hærra en það hefur hæst verið áður að raungildi á Íslandi. Það kemur því til viðbótar að menn þurfa af þeim sökum einum hlutfallslega meira fé til að komast yfir húsnæði.

Í fjórða lagi mega menn ekki gleyma þeirri sérkennilegu stöðu sem uppi er á Íslandi að mjög mikið af húsnæði í landinu er skuldlaust eða skuldlítið. Það eru gífurleg verðmæti bundin í hverju þjóðfélagi í íbúðarhúsnæði og sennilega hvergi í heiminum annað eins og hér á Íslandi, hjá okkur sem byggjum stórt og flott og dýrt og höfum byggt mikið á stuttum tíma. Það er ekki mikið um húsnæði hér, sem enn er notast við til íbúðar, sem er jafnvel margra alda gamalt eins og þekkist í ýmsum nágrannaþjóðfélögum. Obbinn af íbúðarhúsnæði á Íslandi er tiltölulega nýlegur og stór.

Síðan kemur það til að fyrir daga verðtryggingar og á tímum verðbólgu brunnu þau lán sem hvíldu á húsnæði mjög hratt upp. Þar af leiðandi er íbúðarhúsnæði, sem byggt var eða keypt eða með öðrum hætti skipti um eigendur fyrir tíma verðtryggingar, yfirleitt skuldlítið. Hafi það ekki skipt um eigendur síðan hvíla yfirleitt á því lítil lán. Þetta gerir að verkum að það er alveg geysilegt pláss fyrir lán í íbúðarhúsnæði landsmanna. Það er óhemjulegt magn af veðum til úti í þjóðfélaginu til að festa þessi lán á vegna þess að fyrir tíma verðtrygginganna gufuðu upp þau lán sem tekin voru á þetta húsnæði á stuttum tíma. Nú gerist það að sögn fróðra manna að á fasteignamarkaði til að mynda í Reykjavík er ekki óalgengt að íbúðir skipti um eigendur á 7–10 ára fresti og það þýðir ósköp einfaldlega að á næstu 5–15 árum skiptir mjög mikið af íbúðarhúsnæði um eigendur og safnar upp á sig lánum því að stór hluti kaupendanna á hverjum tíma verður fólk sem hefur lánsrétt og fær lán frá byggingarsjóðunum. Þess vegna verður geysilegt útstreymi fjármagns úr byggingarsjóðunum í íbúðarhúsnæði á næstu árum og þar er til nóg pláss fyrir þessi lán, þar eru til nóg veð. En að þessum tíma liðnum má ætla að úr þessu útstreymi dragi þegar uppsöfnun lánanna í húsnæðinu er farin að valda því að minna og minna af því húsnæði sem gengur kaupum og sölum hefur pláss fyrir umtalsverð lán úr byggingarsjóðunum. Þetta þurfa menn að hafa í huga.

M.ö.o.: það er verið að færa gífurlegt fjármagn úr lífeyrissjóðunum út í íbúðarhúsnæðið í landinu. Ég slæ á það á fingrum mínum án þess að hafa kannað það nákvæmlega að verðmæti íbúðarhúsnæðis í landinu geti hlaupið á 2–3 hundruðum milljarða kr. Það er alla vega ekki fjarstæðukennt. Og hvað þýðir það? Það þýðir að verðmæti íbúðarhúsnæðisins er jafnvel tvöfalt meira en allt það fé sem gert er ráð fyrir að streymi úr lífeyrissjóðunum inn í byggingarsjóðina á næsta aldarfjórðungi. M.ö.o.: svo mikið er plássið fyrir lán í íbúðarhúsnæði landsmanna, svo mikil veð eigum við í húsnæði sem ekki hvíla lán á.

Síðan væri fróðlegt, herra forseti, að segja nokkur orð um fasteignamarkaðinn á Íslandi því að ekki er hægt að gleyma honum þegar menn ræða um húsnæðismál og breytingar á húsnæðislánakerfinu. Það er orðið alveg ljóst og hefur reyndar lengi verið að fasteignamarkaðurinn á Íslandi er sérstakt fyrirbrigði. Svo virðist sem þessi fasteignamarkaður, ekki stærri en hann er, hafi þó bolmagn til þess, kannski vegna þess hvað hann er lítill, að gleypa allar tilraunir sem menn hafa haft uppi á undanförnum árum til að hækka lán og auka fyrirgreiðslu við íbúðakaupendur. Það verður ekki séð annað af þróun fasteignamarkaðarins síðustu missirin en að stór hluti eða verulegur hluti þeirrar fyrirgreiðslu, þeirrar hækkunar á lánum sem meiningin var að aðstoða íbúðakaupendur með hafi horfið, sogast út á þennan fasteignamarkað, bæði í formi raunhækkunar á íbúðaverði og í formi hærra útborgunarhlutfalls.

Ég er þeirrar skoðunar að eitt af því sem ekki tókst sem skyldi í ráðstöfunum í húsnæðismálum á árinu 1986 hafi verið að menn gleymdu að gera samhliða átak í félagslega íbúðabyggingakerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að menn nái aldrei tökum á húsnæðismálum á Íslandi nema taka á þeim öllum í samhengi. Það er ekki hægt að slíta almenna kerfið úr samhengi við annað og grípa þar til ráðstafana en ætla svo að geyma og sjá til og bíða með það í nokkur ár að skoða hinn enda húsnæðismálanna. Þetta hefur ósköp einfaldlega áhrif hvað á annað.

Ég get nefnt sem dæmi að á Akureyri eru um 1500 nemendur í framhaldsskólum, þar af um helmingur utanbæjarfólk, og þegar þessi innrás, ef svo má að orði komast, dynur yfir bæinn á hverju hausti leiðir af sjálfu sér að í 15 þúsund manna bæjarfélagi veldur það mikilli breytingu á leigumarkaðnum. Leigan hækkar og fasteignaverðið hækkar einnig vegna þess að þetta tvennt hangir saman.

Ég held að ástand húsnæðismálanna og fasteignamarkaðarins í Reykjavík, þar með talið leigumarkaðarins, væri betra en raun ber vitni ef hér væri t.d. á stúdentagörðum húsnæði fyrir 1000 námsmenn, ef hér væri betur séð fyrir húsnæðismálum aldraðra, ef hér væri betur séð fyrir húsnæðismálum fatlaðra, ef hér væru jafnvel garðar fyrir farandverkafólk o.s.frv. Skyldi þá ekki ástandið á hinum almenna húsnæðismarkaði vera annað og betra? Skyldi ekki leigumarkaðurinn vera hóflegri o.s.frv.? Ég held að mönnum hafi verulega yfirsést í þessu efni þegar þeir ímynduðu sér að með því að hækka lán og auka fyrirgreiðslu í hinu almenna kerfi í gegnum Byggingarsjóð ríkisins tækist að leysa allan vanda vegna þess að þeir sem þar eiga ekki innangengt þurfa líka að búa í húsnæði og kjör þeirra hafa áhrif á þetta kerfi. Það er að mínu viti hinn mikli misskilningur að hægt sé að leysa þessi mál án þess að taka á þeim öllum í samhengi.

Að lokum þetta, herra forseti: Ég styð hæstv. félmrh. til allra góðra verka í húsnæðismálum. Ég vil gjarnan reyna að lagfæra þetta kerfi með hæstv. félmrh. Það eru að vísu á ferðinni í þessu frv. tiltölulega léttvægar breytingar sem litlu munu skipta um heildarútkomu og ásigkomulag húsnæðismálakerfisins. Það er kannski það versta, herra forseti, að allur þessi styrr og allar þessar umræður skuli þurfa að eiga sér stað um jafnléttvægar breytingar og raun ber vitni. Það væri miklum mun skemmtilegra að eyða tíma hins háa Alþingis í umræður um veigameiri og afdrifaríkari breytingar á húsnæðismálakerfinu sem maður gæti bundið vonir við að hefðu meiri áhrif til frambúðar og leystu meiri vanda en raun ber vitni.

Hæstv. ráðherra á greinilega á brattann að sækja með sín mál í hæstv. ríkisstjórn. Það hefur komið fram. Ég ætla ekki að fella dóma um hvernig vinnubrögðin hafa verið við undirbúning frv., það er ekki mitt hlutskipti, hvorki hvort nægjanlegt samráð hafi verið haft við hina ýmsu aðila, lífeyrissjóði eða verkalýðshreyfingu, og þaðan af síður ætla ég að gerast dómari um samstarfið innan hæstv. ríkisstjórnar um þetta mál. Ég segi það eitt að ég mun styðja þær af þessum breytingum sem ég tel til bóta og ég hef gert grein fyrir og ég hirði þá aldrei hvort þeir stjórnarliðar rífast um þær lengur eða skemur.