17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4686 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

275. mál, átak í uppbyggingu dagvistarheimila

Flm. (Sigríður Lillý Baldursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um tímabundið átak í uppbyggingu dagvistarheimila fyrir börn á þskj. 574, en flm. ásamt mér eru hv, þingkonur Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir.

Enn erum við kvennalistakonur við sama heygarðshornið, í mjúku málunum, eins og svo margoft hefur verið bent á. En það er mikill misskilningur hjá mörgum þeim sem það hafa gert að við séum ekki í pólitík. Kjarni stjórnmálanna er mjúku málin. Ef þeim er ekki vel komið fyrir í samfélagi þá er velferðarstig þess samfélags lágt. En við skulum gera ráð fyrir því að sameiginlegt markmið stjórnmálamanna, karla og kvenna, sé að skapa gott samfélag manna í þröngri sem víðri merkingu og ekki einungis fyrir dagstundina sem er að líða heldur til framtíðar litið.

Börnin okkar, afkomendur okkar eru íslenskt samfélag framtíðarinnar. Í dag er lagður grunnur að því samfélagi með uppeldi barnanna en hvernig er því uppeldi komið? Hverjir annast það og hvernig? Hverjir eiga að annast það? Og hverjir hafa hag af því að uppeldi barna sé vel sinnt?

Á Íslandi í dag vinna allir sem vettlingi geta valdið hvenær sem því verður við komið, karlar, konur, unglingar og jafnvel börn. Atvinnuþátttaka foreldra, og þá á ég við vinnuframlag þeirra utan heimilis, hefur aldrei verið meiri hér á landi og fer hún vaxandi. Um 80% kvenna og ríflega 90% karla, sem eiga börn á forskóla- og skólaaldri, vinna meira en 1/4 úr ársverki og mjög margir foreldrar ungra barna vinna fullan vinnudag og yfirvinnu að auki til að ná endum saman í heimilisrekstrinum. Það er vissulega ekki ástand sem við verður unað og á því máli þarf að taka sérstaklega með því m.a. að hækka lágmarkslaun og dreifa stofnkostnaði eins og við húsnæðisöflun yfir lengra tímabil. En þó lágmarkslaun hækki þannig að ein laun dugi fjölskyldunni til framfærslu, eins og eðlilegt mætti teljast, snúum við ekki þeirri þróun við sem verið hefur á undanförnum missirum í aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Það er hluti af þróun samfélagsins. Konur hafa í sívaxandi mæli leitað sér aukinnar menntunar og aflað sér mikillar reynslu í atvinnulífinu sem hvorki þær né samfélagið má verða af að nýta sem best. Samfélagsgerðin hefur breyst eða eins og segir í uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili, er gefin var út af menntmrn. 1985, með leyfi forseta:

„Með aukinni iðnvæðingu og borgarmyndun fjölgar hröðum skrefum fjölskyldum sem búa í borgum og öðrum þéttbýliskjörnum þar sem atvinnuframboð er mest. Hér á landi búa 20% landsmanna í dreifbýli en 80% í þéttbýli. Þessu var öfugt farið fyrir 50 árum. Breyting á búsetu barnafjölskyldunnar og uppeldisskilyrðum þeim sem börnum er búin í nútímaþjóðfélagi er því gífurleg.

Borgarfjölskyldan býr oft við þröngan húsakost og misgóð lífskjör. Aðstaða til leikja innan húss er því oft af skornum skammti, utan dyra er litil sem engin aðstaða til útiveru og ekkert öryggi. Geigvænlega hætta af umferðinni blasir hvarvetna við. Við þetta bætist skortur á eðlilegum viðfangsefnum sem geta veitt börnum margvíslega þjálfun og eflt sjálfstraust þeirra og ábyrgðarkennd.

Tæplega verður sú þversögn hrakin að í þéttbýli sé mest hætta á félagslegri einangrun manna. Lítil börn í borgarsamfélagi fara ekki varhluta af þeirri einangrun, einkum þau sem engin systkini eiga. Barneignum fækkar, fjölskyldan verður æ fámennari og meira úr tengslum við aðra ættingja. Á þetta einnig í vaxandi mæli við um fjölskylduna í dreifbýli.

Kjarnafjölskyldan er talin einkennandi fyrir fjölskyldugerð nútímaþjóðfélags. Hin dæmigerða stórfjölskylda er á undanhaldi ef ekki horfin með öllu. Enda þótt fjölskyldan hafi misst flest hinna fjölþættu hlutverka sem stórfjölskyldan gegndi í bændasamfélagi fyrri tíma gegnir hún enn veigamiklu hlutverki. Kjarnafjölskyldan er fyrst og fremst tengd nánum tilfinningaböndum, það er styrkur hennar og veikleiki. Hún er griðastaður einstaklinganna, foreldra og barna og þarf að vera þess megnug að fullnægja þörfum þeirra fyrir náin tilfinningatengsl, ást og öryggi. Mikilsvert er því að gefa gaum að fjölskyldunni sem tilfinninga- og félagsmótandi afli í uppeldi barna og gera sér grein fyrir því hvernig hún er í stakk búin til að anna því hlutverki.

Óstöðugleiki kjarnafjölskyldunnar er meiri en svo að unnt sé að loka augunum fyrir honum. Hjónaskilnaðatalan vex hröðum skrefum, barnsfæðingum utan hjónabands eða utan sambúðar foreldra fjölgar. Einstæðir foreldrar verða hlutfallslega æ fleiri. Fleira kemur til sem raskað hefur hefðbundnu mynstri fjölskyldunnar. Konan hefur til skamms tíma borið meginábyrgð á uppeldi barnanna innan vébanda heimilisins. En breytt staða konunnar í nútímaþjóðfélagi og aukin þátttaka hennar í atvinnulífinu hefur bein áhrif á stöðu móðurinnar sem foreldris, raskar hefðbundinni fjölskyldugerð og hefur afdrifarík áhrif á uppeldisskilyrði barnanna.

Í anda jafnréttis fer í vöxt að báðir foreldrar taki þátt í atvinnulífinu, einnig meðan börnin eru enn í bernsku. Jafnrétti til starfa er lögum samkvæmt í flestum menningarlöndum, þar á meðal á Íslandi, sbr. lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976. Því má ekki gleyma. Þjóðfélagið verður að taka þeim afleiðingum af raunsæi, með heill fjölskyldunnar að leiðarljósi.

Á tiltölulega skömmum tíma hafa orðið örar og miklar breytingar á lífsháttum manna í hinum vestræna heimi sem hafa geigvænleg og afdrifarík áhrif á uppeldisaðstæður barna. Bitnar þessi þróun mest á ungum börnum ef ekkert er að gert. Engum eru þó ljósari afleiðingar þessarar félagslegu þróunar en hugsandi foreldrum. Aukin almenn menntun gerir það að verkum að foreldrar eru yfirleitt betur upplýstir um mikilvægi barnauppeldis og uppvaxtarskilyrði barna en nokkru sinni fyrr. Þeir eru einnig mjög móttækilegir fyrir þekkingu á því sviði, enda slíkur fróðleikur meiri og aðgengilegri en áður í gegnum bækur, blöð og aðra fjölmiðla.

Foreldrar ungra barna í dag óska eftir uppeldisaðstoð til handa börnum sínum og þurfa á henni að halda. Fjölskyldan sem griðastaður og uppeldisathvarf barna stendur mjög höllum fæti. Staða fjölskyldunnar er mjög alvarleg og gefur fullt tilefni til aðgerða henni til styrktar og verndar. Meðal raunhæfra og viðeigandi aðgerða er fjölgun dagvistarheimila sem veita börnum markvisst uppeldi í samræmi við þroska þeirra og þarfir.“

Þetta er einfalt mál. Það þarf að fjölga dagvistarheimilum sem veita börnum markvisst uppeldi í samræmi við þroska þeirra og þarfir. En hver á að borga? Þeir sem hafa hagsmuna að gæta. Og hverjir eru það? Fyrsta ber að nefna foreldrana því augljóslega hlýtur það að vera þeirra hagur að börn þeirra fái gott uppeldi. Afar og ömmur? Á sama hátt hlýtur það að vera þeirra hagur að afkomendurnir hljóti gott uppeldi. Aðrir nákomnir? Það þarf ekki að staldra sérstaklega við að rökstyðja það. Börnin sjálf? Vissulega, því með góðu, markvissu uppeldi í samræmi við þroska þeirra og þarfir skyldi maður ætla að átt sé við uppeldi sem nýtist barninu til farsæls lífs í flóknu samfélagi manna. En þau eru ekki borgunarmenn í dag en verða það væntanlega síðar. Atvinnurekendur? Eiga þeir hagsmuna að gæta? Já. Bæði beint og óbeint. Foreldrarnir eru væntanlega betri starfsmenn þegar þeir vita af börnum sínum í öruggri og góðri umsjá. Það kemur sér væntanlega vel fyrir atvinnureksturinn í landinu í framtíðinni að landið byggi vel kostum prýtt fólk, því lengi býr að fyrstu gerð.

Ég vil geta þess að hér á ég ekki við að uppeldi barna skuli miðast við að þau verði vinnudýr í atvinnurekstri framtíðarinnar, enda verður ekki séð í dag hvernig hann muni þróast. Til þess að börnin megi nýtast sér og þjóðfélaginu sem best í framtíðinni hlýtur uppeldið m.a. að miða að því að gera þau sem sjálfstæðust.

En hvað varðar fólk um uppeldi annarra manna krakka og þá sérstaklega: Hvað í ósköpunum kemur það barnlausu fólki við hvernig börn eru?

Það eru margvísleg verðmæti sem ná út fyrir okkar eigin persónu sem við deilum með okkur. Engum eða nánast engum er alveg sama um hvernig mannlíf og menning verður hér í þessi samfélagi í framtíðinni, jafnvel þótt við sjálf verðum komin undir græna torfu. Við viljum að fólkið í landinu búi við almenna farsæld og komi vel fram hvert við annað. Við viljum að í landinu ríki réttlæti. Sumum er það mikið kappsmál að skáklíf haldi áfram að blómstra, aðrir láta sig það ekki svo miklu varða. En við viljum öll, barnlausir sem aðrir, að mannlíf og menning blómstri með einhverjum hætti og haldi áfram að gera það, líka þegar við erum öll, þótt okkur greini eitthvað á um í hverju það ætti helst að felast og á hvaða hluti beri að leggja mesta áherslu. Eitt er þó ljóst: Almennt skilyrði þess að þjóðfélagið haldist gangandi, svo ekki sé sagt blómstri, er að uppeldismál almennt séu í góðu lagi. Ekki bara hjá sumum heldur sem víðast, því ólag, þó ekki sé nema á fáum stöðum, eitrar út frá sér og getur reynst afdrifaríkt.

Í stuttu máli eru það allra hagsmunir að uppeldi sé almennt gott. Þess vegna er uppeldi ekkert einkamál foreldra og barna þeirra. En þetta breytir þó ekki þeirri almennu reglu að það séu foreldrar sem að jafnaði beri meginábyrgð á uppeldi barna sinna og beri stærsta kostnaðinn þar af. Það er án efa besti hátturinn enda býður náttúran okkur að hafa hann á. En það er engin sanngirni að ætla þeim alla ábyrgð og allan kostnað.

Uppeldi er í eðli sínu félagslegt mál sem varðar alla í samfélaginu. Hin almenna skylda til að leggja þar eitthvað af mörkum er ekki bara kristileg skylda til að gera góðverk, heldur er uppeldi þess háttar hlutur að hagsmunir allra eru skertir ef illa tekst til og það þjónar sameiginlegum hagsmunum allra að vel takist til. Þess vegna er það samfélagsleg skylda að standa að uppeldi barns.

Þá eru þeir upp taldir sem hafa hagsmuna að gæta í uppeldi barna. Enn er eftir að meta hvernig kostnaðurinn við uppeldið á að skiptast, en með því frv. til. l. sem ég mæli hér fyrir gerum við flutningskonur þess tillögu að skiptingu kostnaðarins.

Eins og segir í 1. gr. frv. er markmið þess að bæta verulega og með skjótum hætti úr skorti á dagvistarrými fyrir börn um allt land. Það vita allir sem vilja að verulega skortir á að nægjanlegt framboð á dagvistarrýmum sé hér á landi og hefur svo verið um langt árabil án þess að á því væri tekið af einhverri alvöru. M.a. gerðist það við gerð kjarasamninga ASÍ í október 1980 að ríkisstjórnin greip inn í til að liðka fyrir samningum og lofaði að taka til höndum við uppbyggingu dagvistarheimila og fullnægja þörf fyrir dagvistarþjónustu á næstu tíu árum. Það þarf ekki að orðlengja það að ríkisstjórnin stóð ekki við loforð sem hún gaf verkafólki þessa lands 1980.

Í 2. gr. frv. segir að stofnaður skuli byggingarsjóður dagvistarheimila fyrir börn. Stjórn sjóðsins skuli skipuð þremur mönnum, einum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, einum frá menntmrn. og einum frá Fóstrufélagi Íslands.

Í greininni er gert ráð fyrir að stofnaður verði einn sjóður fyrir allt landið sem einungis skuli notaður til uppbyggingar dagvistarheimila í landinu. Einnig kveður greinin á um með hvaða hætti stjórn sjóðsins skuli skipuð. Ástæða þykir til að sveitarfélögin og ríkið hafi sinn fulltrúann hvort vegna aðildar þeirra að sjóðnum og þá þykir eðlilegt að í stjórninni sé fóstra enda hafi hún þekkingu á því hvaða kröfur gott dagvistarheimili þarf að uppfylla.

Í 3. gr. frv. er þess getið að byggingarsjóður dagvistarheimila fyrir börn skuli vera í vörslu Sambands ísl. sveitarfélaga og fjár til hans skuli aflað sem hér segir:

„a. Sveitarstjórnir skulu leggja 0,11% álag í fimm ár á aðstöðugjaldsstofn sem renna skal að fullu í sjóðinn. Einnig skal skattstjórinn í Reykjavík leggja 0,11% álag í fimm ár á aðstöðugjaldsstofn þeirra félaga sem greiða landsútsvar og skal það einnig renna að fullu í sjóðinn.“ - Álag þetta er að meðaltali 2300 kr. á fyrirtæki á mánuði í þessi fimm ár.

„b. Á móti framlagi því sem getið er í a-lið skal greiða úr ríkissjóði jafnháa upphæð í sjóðinn eigi síðar en þremur mánuðum eftir að álagning aðstöðugjalda og álags samkvæmt þessari grein liggur fyrir.“

Nefnd sem menntmrh. skipaði árið 1980 til að gera áætlun um þá uppbyggingu dagvistarheimila, sem ríkisstjórnin lofaði við kjarasamninga ASÍ í október 1980, lauk störfum 30. apríl 1982 og byggði hún álit sitt á tveimur mismunandi forsendum fyrir þörf á dagvistarrými.

Eins og fram kemur í grg. með frv. var annars vegar notuð forsenda 1, sem gerði ráð fyrir að 10% barna þriggja til tólf mánaða væru á dagvistarheimili, 25% eins árs barna, 65% barna á aldrinum tveggja til fimm ára og 8% sex til níu ára barna. Hins vegar var notuð forsenda 2, þar sem gert er ráð fyrir að 22% þriggja til tólf mánaða barna væru á dagvistarheimilum, 50% eins árs barna, 80% barna á aldrinum tveggja til fimm ára og 17% sex til níu ára barna.

Skipting dagvistarstofnana var einnig metin af nefndinni og miðuð við tvær forsendur: Forsendu A, þar sem gert er ráð fyrir að 30% barna verði á dagheimili lengur en 5 stundir á dag en 70% í leikskóla 5 stundir á dag, og forsendu B, þar sem skiptingin er áætluð 45% á dagheimili og 55% í leikskóla.

Útreikningar vegna 0–5 ára aldurshóps voru annars vegar gerðir samkvæmt forsendum 1 og A, hins vegar samkvæmt 2 og B og gefa því áætluð ystu mörk þarfarinnar á þessum tíma. Fyrir börn á aldrinum sex til níu ára var þörfin reiknuð samkvæmt forsendu 1 og forsendu 2.

Áætlað var að ríkið þyrfti að greiða 50 millj. kr. í tíu ár miðað við byggingarvísitölu 909 stig til að uppfylla þörf samkvæmt forsendum 2 og B. Hins vegar var talið að árlegt framlag ríkisins í tíu ár samkvæmt forsendum 1 og A þyrfti að vera 30 millj. kr. við sömu vísitölu. ávísitölu í febrúar 1988 samsvara þessar tölur 280 millj. kr. og 168 millj. kr. Heildarframlag ríkisins til uppbyggingar dagvistarþjónustu hefði því þurft að vera á bilinu 1680 millj. kr. til 2800 millj. kr. Ástæða er til þess að ætla að forsendur 2 og B falli betur að þörfinni eins og hún hefur þróast síðastliðin ár. Því eru þær lagðar hér til grundvallar.

Framlag ríkisins til byggingar dagvistarheimila á árunum 1980–1987 var samkvæmt tölum frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun samtals 501 722 000 kr. Sveitarfélögin hafa verið ívið duglegri að leggja fé til þessa máls og samkvæmt upplýsingum frá menntmrn. var skuld ríkisins við sveitarfélögin sl. áramót vegna þessa samtals 207 millj. kr. sem þýðir að framlag sveitarfélaganna til þessa máls frá því 1980 hefur verið u.þ.b. 707 millj. Þannig vantar 5600 millj. að frádregnum 1207 millj. eða 4393 millj. til uppbyggingar dagvistarheimila í landinu, ef miðað er við byggingarvísitölu í febrúar 1988. Gert er ráð fyrir í frv. að í byggingarsjóð dagvistarheimila fyrir börn safnist tveir þriðju hlutar þessa fjár í fimm ár.

Helmings þeirrar fjárhæðar, eða 1465 millj. kr. sem er 293 millj. kr. á ári, verði aflað samkvæmt a-lið greinarinnar með álagi á aðstöðugjaldsstofn þeirra einstaklinga og lögaðila sem greiða aðstöðugjald og á aðstöðugjaldsstofn hjá þeim félögum sem greiða landsútsvör. Samanlagður stofn þessi var við álagningu aðstöðugjalda og landsútsvars í júlí 1987 u.þ.b. 260 milljarðar kr. miðað við byggingarvísitölu í febrúar 1988. Því er gert ráð fyrir 0,11 % álagi á stofninn. Úr ríkissjóði komi síðan jafnhá upphæð eða u.þ.b. 293 millj. kr. á ári í fimm ár. Samtals færi í sjóðinn, ef miðað er við byggingarvísitölu í febrúar 1988, nálægt 3 milljörðum á þessu tímabili.

Í 4. gr. frv. segir að sveitarstjórnir skuli sækja formlega um framlag úr byggingarsjóði dagvistarheimila fyrir börn til stjórnar sjóðsins. Í umsókninni skuli koma fram gerð og stærð fyrirhugaðs dagvistarheimilis, fyrir hvaða aldurshóp það á að vera, hvort reisa eða kaupa á dagheimili, leikskóla, skóladagheimili eða annað, mat sveitarstjórnar á þörf fyrir slíkt dagvistarheimili og annað það sem nauðsynlegt er til að stjórnin geti tekið afstöðu til úthlutunar.

Byggingarsjóði dagvistarheimila fyrir börn er ekki einungis ætlað að veita fé til nýbyggingar dagvistarheimila heldur einnig til kaupa á eldra húsnæði og nauðsynlegra breytinga á því.

Í 5. gr. frv. kemur fram að úr byggingarsjóði dagvistarheimila á að úthluta tveimur þriðju hlutum áætlaðs kostnaðar við uppbyggingu dagvistarheimilis og miða á við að úthlutun komi til greiðslu í samræmi við verkstöðu á hverjum tíma samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin beri þriðjung kostnaðar við uppbyggingu dagvistarheimila hvort sem um nýbyggingu eða kaup á eldra húsnæði er að ræða, sbr. samt skerðingarákvæði 6. gr.

Í 6. gr. frv. kemur fram að telji stjórn sjóðsins að ekki sé gætt hagkvæmni í hönnun og byggingu dagvistarheimilis er henni heimilt að hafna umsókn eða skerða hana, enda skal miða við eðlilegan kostnað hverju sinni að uppfylltum fullnægjandi aðbúnaði. Ef fyrirhugað dagvistarheimili uppfyllir ekki þau skilyrði sem stjórn sjóðsins þykir eðlilegt að setja er henni heimilt að hafna umsókn.

Í 7. gr. frv. er forgangur sveitarfélaga til úthlutunar skilgreindur, en miða skal við fjölda barna á þau dagvistarrými sem fyrir eru. Það sveitarfélag þar sem flest börn eru um hvert dagvistarrými skal að öllu jöfnu ganga fyrir við úthlutun úr sjóðnum.

Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að menntmrh. setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdir þar sem m.a. skuli vera ákvæði um meðferð sjóðsins, ávöxtun hans og hvar hann skuli geymdur.

Í 9. gr. er gert ráð fyrir að ef frv. þetta verði að lögum muni þau koma til framkvæmda við álagningu skatta nú í ár vegna tekna og gjalda sl. árs.

Frv. tekur einungis til uppbyggingar dagvistarheimila en ekki reksturs þeirra sem vissulega er mjög stór þáttur í kostnaðinum. Eins og málum er komið í dag greiða foreldrar u.þ.b. 1/3 af rekstrarkostnaði dagvistarheimila, en sveitarfélagið það sem á vantar. Vel má hugsa sér önnur form á þessu þar sem foreldrar greiddu misháa upphæð eftir tekjum þeirra. Ríkið kæmi inn í með einhverjum hætti, t.d. eins og hv. varaþm. Alþb. í Reykjavík, Ásmundur Stefánsson, lagði til að gert væri í frv. hans til laga á þskj. 110 fyrr á þessu þingi. En hvernig sem þeim greiðslum væri komið í skiptingu milli þessara aðila eða e.t.v. fleiri er borðleggjandi að það þarf aukið fé til reksturs dagvistarheimila, þá sérstaklega til að hækka laun fóstra og annarra sem starfa á þeim, en laun þeirra eru til háborinnar skammar fyrir alla þá sem að þeim standa og enn ein vísbending um að „stjórnmálamenn“ hafa ekki áttað sig á því hver kjarni stjórnmálanna er.

Það er efnahagsleg skammsýni að átta sig ekki á því að þörf er á skjótu átaki í dagvistarmálum. Efnahagsráðstafanir þær sem taka mikinn tíma þm. hér á hinu háa Alþingi eru iðulega skammtímaráðstafanir eða skyndibjörgun. Átak í uppbyggingu dagvistarheimila er hins vegar efnahagsstefna fyrir framtíðina því ef ekki verður gripið inn í og fólki veittur sá valkostur að eiga börn og vænta þess að þau geti fengið sæmandi uppeldi hjá þeim og samfélaginu stefnir í óefni.

Verulega hefur fækkað barnsfæðingum hér á landi undanfarna áratugi. Á árabilinu 1950–1965 voru að meðatali 3,6 börn í hverri fjölskyldu, en nú eru þau að meðaltali 1,7 sem er undir viðhaldsmörkum og ef börnum fer ekki fjölgandi í fjölskyldum verða árgangarnir sem fæðast eftir 40 ár helmingi fámennari en þeir sem nú eru að stíga sín fyrstu skref. Lífaldur fólks fer sífellt vaxandi, en starfsaldur þess ekki að sama skapi. Þannig fjölgar þeim stöðugt sem þurfa umönnunar við á meðan vinnufærum fækkar. Eftir um það bil 40 ár lætur nærri að fólk á besta vinnualdri verði um það bil helmingi færra en það sem komið er vel yfir miðjan aldur sem þýðir meira en tvöfalt álag á sérhvern vinnufæran og þá hræðist ég að menningu okkar og efnahagslífi muni vera hætta búin.

Forsaga þessa frv. er tillaga sem borgarfulltrúar minni hlutans í Reykjavík báru sameiginlega fram í borgarstjórn Reykjavíkur sl. haust og allir sameinuðust um að kalla stefnumarkandi í dagvistarmálum. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Borgarstjórn samþykkir að beita sér fyrir sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga og atvinnurekenda sem hafi það að markmiði að leysa þá þörf sem nú er fyrir dagvistarrými á næstu þremur árum. Hvað Reykjavík varðar verði átakið við það miðað að koma upp 42 nýjum dagvistardeildum og 30 nýjum leikskóladeildum með möguleika á allt að sex tíma vistun í hverjum. Stofnkostnaður þessara nýju heimila verði greiddur til jafns af Reykjavíkurborg, ríkinu og atvinnurekendum í borginni þannig að hver um sig greiði þriðjung. Til þess að þetta geti náð fram að ganga þurfi sveitarstjórnir að fá lagaheimild til þess að leggja 5–10% álag á aðstöðugjöld í þrjú ár. Jafnframt samþykkir borgarstjórn að taka gjaldskrá dagvistarheimila til endurskoðunar þannig að lágmarksgjald verði áfram óbreytt, en fari stighækkandi í samræmi við tekjur foreldra. Breyting á gjaldskránni taki gildi á næsta ári. Samþykki borgarstjórn að kjósa fimm manna nefnd til að vinna að þessum verkefnum.“

Í minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur eru Kvennalisti, Alþfl., Alþb. og Framsfl. Ég geri ráð fyrir að allir nefndir flokkar hafi sömu stefnu og hugsjónir að standa að í borgarmálum sem landsmálum. Því geri ég mér vonir um góðar undirtektir við frv. þetta á hinu háa Alþingi og lít raunar á það sem formsatriði að leggja það hér fram. Slíkur er meiri hluti þessara flokka hér.

Hugsast getur að einhver sjái ekki hvar skuli taka þá peninga sem þarf til verksins. Þeim vil ég benda á að það eru ætíð til peningar til þeirra verka sem sameinast er um að takast á við. Dæmin eru ótal mörg. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er nýlegt dæmi. Einnig heyrði ég ekki betur en hæstv. menntmrh. hafi, með leyfi forseta, blásið á þá miklu kostnaðaraukningu sem var við byggingu og frágang Listasafns Íslands við opnun þess á dögunum. Hvet ég hv. þm. á sama hátt til að blása á þann kostnað sem uppbygging dagvistarheimila hefur í för með sér því hér er á ferðinni mikið hagsmunamál fyrir okkur öll, þingkonur, þingmenn sem og aðra landsmenn. Með því að blása á kostnaðinn sýnum við ekki ábyrgðarleysi heldur ábyrgð því að þannig setjum við þetta verkefni fremst í forgangsröðina.

Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.