23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4765 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

60. mál, iðnaðarlög

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja mikið við þessa 1. umr. málsins. Ég vil aðeins segja það að það kom mér satt að segja nokkuð á óvart að hlusta á hv. 1. þm. Norðurl. v. flytja sína ræðu. (Gripið fram í: Fjórða.) Það kom mér ekkert á óvart að hlusta á hv. 4. þm. Norðurl. v. Við því var búist sem kom frá honum. En hann hefur hingað til ekki verið einn þeirra sem lýst hafa eindregnum stuðningi við þessa ríkisstjórn né heldur stýrir hann enn sem komið er þingflokki framsóknarmanna þó að hann kannski eigi eitthvað andlega skylt við þá menn sem þar eru. (SvH: Það munaði litlu.) Já, það munaði litlu. Það er víst ábyggilegt. En það sem kom fram hjá honum var nánast stuðningur við þau sjónarmið sem hafa verið andstæð þeim sem koma fram í þessu frv. sem enginn hefur haldið fram að væri smámál. Þótt málið sé einfalt og ekki flókið þá er þetta ekkert smámál. Því hefur bara enginn haldið fram.

Það sem hefur komið fram í þessum umræðum og skiptir máli er að það er þróun sem hefur átt sér stað í nálægum löndum, í okkar viðskiptalöndum og meðal þjóða sem eru skyldastar okkur á Norðurlöndum, að menn hafa komið sér saman um að það beri að greiða fyrir því að hægt sé að stofna fyrirtæki af því tagi sem hér er verið að leggja til að hægt verði að gera, og þannig ýtt undir samstarf sem báðir aðilar, báðar þjóðirnar geta haft gagn af.

Það sem hefur enn fremur komið fram, og ég vil leggja áherslu á, er að þetta er nákvæmlega eins orðalag og var í lögum 1927–1978. Og af því að hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði að því sérstaklega hvort slíkt ákvæði hefði verið í lögum þá er svarið þetta: Nákvæmlega eins orðað ákvæði var í iðnaðarlögum 1927–1978. Árið 1970 og 1971 þegar Íslendingar ákváðu að ganga í Fríverslunarbandalagið var þetta ákvæði sérstaklega skoðað og talið vera ein af forsendum þess að við gætum tekið þátt í því samstarfi en í 16. gr. samningsins er tekið fram sérstaklega hvernig með slík mál skuli fara. Það hefur ekkert komið fram annað en það. Og það er ekki ádeila á einn eða annan mann og allra síst á fyrrv. varaformann Sjálfstfl. og fyrrum iðnrh. Gunnar Thoroddsen, þótt frv., sem flutt var árið 1978, hafi verið orðað þannig að þetta ákvæði félli út. Við höfum leitað að skýringu á þessu, starfsmenn iðnrn., og það verður ekki annað séð en það hafi gerst án ásetnings. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja. Það gerist ýmislegt slíkt hér í sölum Alþingis þegar mál koma hér fyrir og renna hér í gegn ákaflega mishratt.

Ég verð að segja það að ég tek það a.m.k. ekki til mín þegar hv. 1. þm. Norðurl. v. telur sig hafa áhyggjur af framhleypnum og fljótráðum ráðherrum. En ég vil aðeins minna á að ráðherrar sitja í krafti meiri hluta Alþingis og það getur auðvitað skipt máli við stofnun fyrirtækja að það þurfi ekki að leita til Alþingis í hvert einasta skipti. Alþingi situr ekki allt árið og það hefur sýnt sig að ferð frv. í gegnum Alþingi tekur stundum nokkuð langan tíma. En í viðskiptum þurfa menn oft að bregðast nokkuð snarpt við. Þess vegna er ekki verið að fara fram á annað í þessu máli en að endurvakið sé ákvæði sem var í lögum og ég tek undir það með öllum þeim sem hér hafa talað að með þetta heimildarákvæði ber okkur að fara ákaflega varlega.

Ég minni á það enn fremur að íslensk lögsaga gildir að sjálfsögðu um þessi fyrirtæki. Menn hafa hér verið að gera því skóna að þetta sé stórhættuleg innrás erlendra aðila inn í íslenskt atvinnulíf. Ég vil taka það fram að það er fjöldi ákvæða í íslenskum lögum, til að mynda í hlutafélagalögunum, sem krefjast þess að Íslendingar eða íslenskir ríkisborgarar og menn búsettir hér á landi sitji í meiri hluta í stjórnum fyrirtækja sem hér starfa, jafnvel þótt þau fyrirtæki séu að miklum meiri hluta í eigu erlendra aðila. Óg hver er nú munurinn á því ef erlendir aðilar lána fyrirtæki sem hér starfar allt það fjármagn sem þarf að nota í fyrirtækinu og hinu að þeir leggi fram 51% af því fjármagni sem myndar hlutafé í fyrirtækjum? Er ekki eins mikil hætta á því að lánardrottnar okkar setji þau skilyrði fram sem menn virðast óttast hér eins og a.m.k. kemur fram eða má skilja á ræðum þeirra? Auðvitað þurfum við alltaf að vera á varðbergi. Það er okkar skylda. En mér hefur sýnst það vera heldur lítill vandi að fá erlend lán og sum fyrirtæki eru rekin hér með erlendum lánum, beinum og óbeinum, og þá talar enginn um þessa stórkostlegu hættu að þessir erlendu lánardrottnar hafi sett einhver skilyrði á bak við.

Við verðum aðeins að átta okkur á því, og það er rétt sem hér hefur komið fram, að okkur skortir fjármagn. Við höfum hingað til notast við erlent fjármagn að láni. Það fjármagn verðum við að greiða aftur hvort sem árar vel eða illa. Hér er verið að leggja það til að ef íslenskt fyrirtæki, íslenskir aðilar telja það vera heppilegra fyrir íslenskar aðstæður, íslensk fyrirtæki, fyrir Íslendinga að stofnsetja hér á landi fyrirtæki sem erlendir aðilar eiga meirihlutaeign í, þá sé heimilt að veita slíkt leyfi þegar sérstaklega stendur á. Það er reynt að skýra það út og það hefur komið fram í umræðum bæði í hv. Ed. og eins hér í Nd. hvernig með slíkt verður farið. Auðvitað hefur það ekki lagagildi, það er alveg hárrétt hjá lögfræðingnum hv. 4. þm. Norðurl. v., en það er til leiðbeiningar. Og á meðan ég sit í ráðherrastól mun ég að sjálfsögðu fara eftir því sem ég hef lýst yfir að gert muni í þeim ræðum sem ég hef flutt um þetta mál bæði hér í þessari hv. deild og eins í hv. Ed.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. tók undir þessar viturlegu ræður sem hann nefndi, viturlegu ræður. Auðvitað er það hans mat og ég veit að framsóknarmenn flytja viturlegar ræður. Ég vona að hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., sem er svona logandi hræddur við það að sá sem hér stendur fái þessa heimild, hann a.m.k. virði það mér til vorkunnar að ég tel að það séu fleiri vitrir menn í framsóknarþingflokknum heldur en hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 2. þm. Vestf. Við skulum nefna hæstv. sjútvrh., 1. þm. Austurl. Hann sagði í Ed. við umræðurnar að hann styddi þetta frv. sem hefur verið lagt fram og segir hér orðrétt: "... og tel það nauðsynlegt og skynsamlegt skref miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það eru miklar tækniframfarir í heiminum, það liggur alveg fyrir að við getum oft ekki notið þessarar tækni nema í samstarfi við erlend fyrirtæki og það hlýtur að vera okkur kappsmál að slík fyrirtæki séu starfrækt hér á landi en ekki annars staðar.“

Og síðar í sinni ræðu sagði hæstv. sjútvrh.: „Ég tel að það skref sem hér er stigið sé mjög varkárt og með því sé verið að tryggja að atvinnustarfsemi geti farið fram hér á landi sem mundi ella ekki verða, að með þessu sé tryggt í mörgum tilvikum að ýmis starfsemi eigi sér stað eins og skýrt kom fram hjá hæstv. iðnrh.“

Ég vona að hér rísi ekki framsóknarmenn í Nd. upp til handa og fóta og segi að þetta séu ekki viturleg orð. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi orð vera viturlegri en öll þau orð sem hafa farið fram í þessari umræðu hér sem hafa komið frá hv. stjórnarþm. Framsfl.

Og ég endurtek ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum að þetta er stjfrv. og stutt að auki af einum flokki sem er í stjórnarandstöðu sem er Borgarafl. Þetta vil ég að komi fram ef þetta hefur farið fram hjá einhverjum í þeim umræðum sem farið hafa fram í þessu máli fyrr á þessu þingi og þá í hv. Ed.

Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta mál og við eigum eftir síðar á þessu þingi að ræða um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi í miklu víðara samhengi. Og þá kemur í ljós í þeim umræðum hverjar eru hindranir fyrir slíku og þá verður væntanlega gerð grein fyrir því í ítarlegu máli á hvaða ferð nágrannaþjóðirnar og þær þjóðir, sem við viljum hafa mest samskipti og viðskipti við, eru í þessum málum- þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar, hv. 1. þm. Norðurl. v. Og það ætti nú hv. 1. þm. Norðurl. v. að þekkja mjög vel því að stundum halda menn að hann sé fremur þm. þeirra en þm. síns kjördæmis. (Gripið fram í: Það er rétt.) Já, það er rétt er sagt frá kollega hans í Norðurlandaráði. Ég bið hv. þm., frænda minn og vin, þegar hann verður næst á ferðinni - og það verður áreiðanlega innan skamms því að ég veit að hann er að fara til Óslóar en þar verður Norðurlandaráðsfundur — að kynna sér nú vel á því tungumáli sem honum er tamast um þessar mundir hvað er að gerast í þessum efnum, kynna sér m.a. niðurstöður ráðherranefndar iðnaðarráðherranna og koma svo heim að því þingi loknu, sem vonandi verður fyrir vorið, og skýra okkur í þessari hv. deild frá því að hverju hann komst. Ég hlakka til þess og ég veit að hv. þm. kemur vitrari heim en hann fór. Það gerir hann alltaf, það má hann eiga, blessaður, enda er batnandi manni best að lifa.

Herra forseti. Þessi umræða er kannski komin út á hálan ís og nokkuð karp. Ég veit að auðvitað er mönnum mál sem hafa ekki setið á þingi um nokkra hríð að koma hér upp og skamma ríkisstjórnina. Það er vinsæl íþrótt og ég tek það ekkert nærri mér. En ég veit og vona að hv. 1. þm. Norðurl. v., sem á sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, greiði fyrir þessu máli og sýni því skilning og átti sig á því að hér er um framfaramál að ræða sem hann þarf ekkert að skammast sín fyrir í framtíðinni að hafa stutt.