23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4789 í B-deild Alþingistíðinda. (3290)

293. mál, áfengislög

Forseti (Jón Kristjánsson):

Það er vissulega óþarft að við séum að deila hér, ég og hv. 2. þm. Vestf., um minnisleysi hvors annars. Við getum rætt þau mál á öðrum vettvangi og ég sé ekki ástæðu til að eyða tíma þingsins í þau mál.

Hitt ætla ég að ákveða, fyrst deilur eru komnar upp og það er sýnt að þeir sem hyggjast tala gegn þessu máli ætla að halda uppi miklum umræðum um málið, og ég hef fengið tilmæli frá hv. þm. sem hafa ráðstafað sér á fundi úti í bæ á fundartíma þingsins, að fresta þessari umræðu. Ég hef fengið það frá fleirum en þeim þm. sem hv. 2. þm. Reykn. gat um.

Ég verð að átelja þetta harðlega og ég vænti þess að þm. skipuleggi ekki sinn fundartíma á tíma þingsins. (ÓÞÞ: Hver er tími þingsins?) Það er tíminn frá klukkan eitt til sjö á þriðjudögum. Fundartíma hefur oft lokið klukkan fimm, en við höfum iðulega haldið áfram til sjö ef svo hefur verkast. En hér hafa menn ráðstafað sér á fundi og úti í bæ á tímanum frá klukkan tvö til fimm sem er þó alveg öruggt að er fundartími þingsins.

Hins vegar vil ég ekki láta ásaka mig um valdníðslu í þessu máli og ég mun skera svo úr að þessari umræðu verður nú frestað þó að það sé ekki ástæða til þess. Ég vænti þess að framhald málsins muni ráðast af því og ég sem einn af flytjendum þessa máls verði ekki ásakaður um valdníðslu í forsetastóli í framhaldi af þessari umræðu. Ég vísa því algjörlega á bug og ég vísa algjörlega á bug öllum óheiðarlegum vinnubrögðum af hálfu forseta í þessu máli. Það hefur aldrei verið ætlunin að níðast á einum né neinum í sambandi við þetta mál.