24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4808 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

69. mál, útvarpslög

Frsm. minni hl. menntmn. (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi leiðrétta það sem kemur fram í nál. mínu, minni hl. menntmn., og get tekið undir það með hv, 7. þm, Reykv. að rétt hefði verið að tala um einkastöðvar í staðinn fyrir frjálsar útvarps- og sjónvarpsstöðvar og þakka fyrir þessa ábendingu. Það sem varð til þess að ég kem hér upp aftur er það að nú þegar umræðu þessari er að ljúka hefur ekki verið tekið á aðalmálinu, en við flm. frv. höfðum vænst þess af þinginu, en það er þýðingarskyldan, hver vilji þm. væri í sambandi við hana og hvort það eigi að vera alfarið í höndum þeirrar nefndar sem sér nú um endurskoðun útvarpslaganna að taka á þessu máli. Ég mundi telja það æskilegt að það yrði í höndum þingsins áður en endanleg niðurstaða þessarar nefndar liggur fyrir, að það sé ljóst hver vilji þingsins er í þessu efni.

Það var hv. 3. þm. Vesturl. sem talaði um það áðan að þær umsagnir sem nefndin fékk hafi ekki verið jákvæðar gagnvart frv. Ég tel hins vegar þvert á móti að þær hafi allar verið í þá átt að það ætti að breyta núverandi útvarpslögum og frv. þetta kæmi mjög sterklega til greina. Að vísu tóku umsagnaraðilarnir til orða á mjög ólíkan hátt en litu þannig á að þarna væri um hugmyndir að ræða sem þyrftu að ræðast og kæmi mjög vel til greina að væru inni í hinum nýju lögum.

Ég verð að segja það að ég átti von á því frá hæstv. ráðherra menntamála að hann tæki skýrar til orða um þau atriði sem er verið að ræða um í frv. varðandi þýðingarskylduna og þa stefnu ríkisstjórnarinnar í því efni. Ég ætlaði áðan í fyrri ræðu minni að koma inn á það að spyrja hæstv. ráðherra hvaða leiðbeiningarreglur endurskoðunarnefndin fékk frá þeim aðilum sem skipuðu hana, hvort hún ætti að hafa frjálst val um það að hvaða niðurstöðu hún kæmist eða hvort einhverjar leiðbeiningarreglur kæmu frá ráðherra um hvaða atriði þyrfti sérstaklega að skoða. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að ákveðnar línur verði í þessu efni svo að þar megi fara fram mjög góð og málefnaleg umræða um þá hluti.

Varðandi íslenska tungu og áhrif þess að þýðingarskylda verði ekki lengur skilyrði fyrir því að taka á móti sjónvarpsefni er ég sannfærður um að það er það mikið efni hérna á enskri tungu og fleiri tungumálum að það sem slíkt hafi ekki úrslitaáhrif um það hvort við höldum okkar tungu eða ekki. Minni hl. bendir á það í nál. að til þess að viðhalda tungunni sé meira áríðandi að efla skólakerfið og leggja meiri áherslu á íslenska tungu í skólum.

Ég vil að lokum þakka fyrir þær umræður sem þetta mál hefur fengið en ég átti von á að lyktir þess yrðu aðrar en fyrirsjáanlegt er að verði á því.