25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4886 í B-deild Alþingistíðinda. (3399)

270. mál, leigukjör Stöðvar 2

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 569, 270. mál Sþ., leyfi ég mér að leggja eftirfarandi fsp. í fjórum liðum fyrir hæstv. samgrh. varðandi leigukjör Stöðvar 2:

„1. Hvað greiðir Stöð 2 fyrir afnot af dreifikerfi Pósts og síma?

2. Við hvað miðast ákvörðun leigugreiðslunnar?

3. Hver er gildistími leigusamningsins?

4. Stendur dreifikerfi Pósts og síma öðrum aðilum, er hyggjast hefja rekstur sjónvarpsstöðva, til boða og á sömu kjörum?"

Meginkjarni fsp. þessarar felst í síðustu spurningunni, en svör við hinum fyrri eru jafnframt nauðsynleg til að fullnægjandi svör fáist varðandi þau kjör sem hér um ræðir. Með setningu nýrra útvarpslaga á sínum tíma var stefnt að auknu frjálsræði og samkeppni í rekstri útvarps og sjónvarps. Verður ekki annað séð en að myndarlega hafi verið af stað farið í kjölfar laganna og enginn lofar frjálsræðið og samkeppnina meira en þeir sem standa að rekstri Stöðvar 2, enda hefur dagskrárgerð beggja sjónvarpsstöðvanna batnað með tímanum að því er virðist. Því má hins vegar ekki gleyma í þessu sambandi að grundvöllur frjálsrar samkeppni hlýtur að vera sá að aðilum séu skapaðir sem jafnastir möguleikar til reksturs eftir því sem kostur er.

Stöð 2 hefur nú samningsbundin afnot af dreifikerfi opinberrar stofnunar og er ekki að efa að þetta atriði hefur dregið verulega úr stofnkostnaði stöðvarinnar. Er því eðlilegt að ráðherra upplýsi þá aðila, sem áhuga kynnu að hafa á sjónvarpsrekstri, hvort hann muni beita sér fyrir því að þeir fái sams konar afnot af dreifikerfi Pósts og síma og á sömu kjörum og Stöð 2. Er ekki að efa að ef svör ráðherrans verða jákvæð muni það vera mikil hvatning til þeirra sem nú eru í startholunum.