29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5091 í B-deild Alþingistíðinda. (3441)

108. mál, opinber ferðamálastefna

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá skoðun eða stefnu eða hvað menn vilja kalla það sem kemur fram í þeirri þáltill. sem fjallar um mótun opinberrar ferðamálastefnu á þskj. 112, sem er 108. mál þessarar hv. stofnunar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að mótun opinberrar ferðamálastefnu. Í því skyni verði hraðað störfum nefndar sem skipuð var í júní 1987 til þess að undirbúa slíka stefnumörkun.“

Formaður þeirrar nefndar, hv. 2. þm. Vesturl., fagnar því að margir hv. alþm. hafi áhuga fyrir ferðamálum. Ég harma með honum að ekki skuli meira fé veitt til ferðamála en raun ber vitni, en við erum jú að della í marga staði tiltölulega lítilli upphæð í samkeppni við sívaxandi útgjöld ríkissjóðs á öðrum sviðum.

Það kemur fram í upphafi grg. hversu mjög ferðamannastraumur til landsins hefur aukist á undanförnum árum og er það alls ekki svo lítil aukning sem þýðir að hér er verið að skapa gríðarlega mörg ný atvinnutækifæri á sama tíma sem þm. hver af öðrum standa upp og kvarta undan því hversu mikið af vinnuaflinu fer nú í þjónustustörf miðað við hvað erfitt er að fá mannskap í hina hefðbundnu undirstöðuatvinnuvegi. Þá segir að ferðalög Íslendinga innan lands og utan hafi aukist verulega.

Ég vil minna á að áður en Alþingi setti nokkur lög um ferðamál og móttöku ferðamanna þá voru hér starfandi - og það er ekki svo langt síðan, það eru innan við 20 ár síðan - þá voru starfandi hér ferðamálafélög og Ferðamálafélag Íslands sem var drifið af áhugamönnum, ekki kostað af opinberum aðilum. Einn af forsprökkum ferðamálafélaganna var Gísli Sigurbjörnsson, betur þekktur fyrir sín störf við ellimál. Og í framhaldi af hans starfi og starfi áhugamanna um ferðamálafélög á Íslandi komu hingað erlendir aðilar, aðallega þó danskir, en í framhaldi af samskiptum við danska aðila um ferðamál kom hingað franskur maður, sem mig minnir að hafi heitið Levesque og eftir úttekt hans á íslenskum ferðamálum og hans frumkvæði var síðan haft samráð og samstarf við Sameinuðu þjóðirnar og þá deild sem kostar skoðun á uppbyggingu ferðamála í hinum ýmsu löndum veraldarinnar. Og Sameinuðu þjóðirnar gera eins konar útboð með fyrirtækjum sem eru sérstaklega valin og samþykkt og viðurkennd af Sameinuðu þjóðunum sem hæf til þess að taka þátt í úttekt á ferðamálum í hverju landi. Þessi fyrirtæki voru held ég sex á sínum tíma, um það leyti sem Ferðamálaráð var stofnað samkvæmt lögum settum að beiðni þeirra sem ráku þá Ferðamálaráð og formanns Ferðamálaráðs, fyrsta formanns Ferðamálaráðs, Lúðvíks Hjálmtýssonar. Var það Gunnar heitinn Thoroddsen sem bar þau lög til samþykkis hér á Alþingi. Þessi sex fyrirtæki, sem voru viðurkennd af Sameinuðu þjóðunum, sýndu áhuga á því að gera úttekt á íslenskum ferðamalum. Þar á meðal var eitt fyrirtæki sem heitir Tourist Consult, svissneskt fyrirtæki sem ég hef áður getið um eða sagt frá hér í þessum ræðustól. Tourist Consult var með ákaflega nýstárlegar hugmyndir um ferðamál á Íslandi sem voru raunverulega framkvæmanlegar. En Tourist Consult hafði m.a. unnið sér það til ágætis - og er það verkefni enn þá í gangi þó að það sé langt komið - að hafa flutt þær hugmyndir til Mónakó að flytja hluta af fjöllum út í sjó til að skapa undirlendi. Nú er undirlendi Mónakó allt að því tvöfaldað og hefur ferðamannafjöldinn margfaldast en það var komið að því að þetta litla ríki gat ekki tekið á móti fleiri ferðamönnum en þangað komu. En nú hefur það pláss fyrir allt það fólk sem vill heimsækja landið.

En fyrirtækið Tourist Consult var ekki valið. Það var valið annað fyrirtæki, bandarískt, sem hér er getið um í grg. og það gerði tillögu um það fræga og stóra hús og skemmtistað sem átti að vera í Krýsuvík. Það var eina tillagan sem kom frá því fyrirtæki og hún var ekki samþykkt af íslenskum aðilum til framkvæmda. Því miður var Tourist Consult ekki valið því að Tourist Consult fór eins að með Ísland og Mónakó, þeir gerðu ráð fyrir því að tengja Ísland við þá hringiðu sem er í ferðamannastraumi um veröldina þannig að Ísland hefði orðið einn af stoppistöðum alþjóðaferðamála eða -ferðalaga á borð við þær stóru borgir sem draga mest að sér ferðamenn eins og París, Róm, Ríó og fleiri slíkir staðir sem mynda túristahringiðu í veröldinni. Út frá þessari hringiðu var svo minni hringiða sem var innan lands, að ferðamenn væru fluttir sem fyrst út frá Reykjavík til annarra staða á landinu sem væru aðlaðandi fyrir túrismann almennt. En til þess þurfti svo að byggja upp innan lands, til að taka á móti þessum aukna ferðamannastraumi, alls konar möguleika, ekki bara í hótelum heldur þjónustu, telex- og þyrluþjónustu ásamt bílum og skipum. Allt var þetta mjög nýstárlegt fyrir okkur og frumlegt en gerlegt, og miðað við hæga uppbyggingu sem við hefðum ráðið við til viðbótar við þá fjárfestingu sem gat verið til hagsbóta með þátttöku stórra erlendra ferðaskrifstofa og þeirra sem hafa áhuga og ágóða af ferðaþjónustunni í veröldinni allri, en binda sig ekki við neitt eitt þjóðland, en vinna eins og stórir hótelhringir o.fl. En því miður bárum við ekki gæfu til þess að semja við réttan aðila.

Ég vil að þetta komi hér fram og ég vil beina því til hv. 2. þm. Vesturl., sem ég veit að hlustar á góð ráð og tekur tillit til þess sem aðrir segja, að hann reyni nú að láta grafa upp þá bæklinga sem eiga að vera til í samgrn. frá Tourist Consult og skoði þær hugmyndir og þær tillögur sem komu frá því fyrirtæki á sínum tíma — þó svo kostnaðaráætlanir hafi ekki verið unnar vegna þess að fyrirtækið var ekki valið til að gera kostnaðaráætlun eða útfæra sínar hugmyndir frekar, en þeir gerðu á eigin spýtur til að kynna sitt fyrirtæki - það verði dregið fram og þær hugmyndir kynntar fyrir nefndinni. Það verður fróðlegt ef formaðurinn finnur þessa bæklinga að hann kynni hugmyndirnar fyrir hv. Alþingi til þess að sýna hvaða möguleika aðra má hugsa sér en að byggja hér skemmtihús sem lítur út eins og eskimóakofi margstækkaður með alls konar þjónustu undir þaki í Krýsuvík.

Það hefur óskaplega mikið verið gert frá því að lögin um ferðamál voru sett og ég ætla ekki að fara að tína það til. Við fórum þá úr fornöld til framtíðar þegar hugmyndum Lúðvíks Hjálmtýssonar og Gísla Sigurbjörnssonar var hrint í framkvæmd með stofnun hótelskólans hér, með stofnun Þjóna- og veitingaskólans eða hvað hann heitir og margt annað sem hefur verið gert á undanförnum árum þrátt fyrir skort á peningum. Það er alveg með eindæmum og satt að segja óskiljanlegt hvað mikið hefur verið gert við afskaplega bág kjör í ferðamálum.

Ég tek undir og mun halda áfram að styðja á allan þann hátt sem ég get ferðamálin. Því miður tókst mér ekki að gera það á eins myndarlegan hátt og ég hefði viljað þegar ég var fjmrh. en ég mun halda áfram á sama hátt og ég gerði áður en ég varð fjmrh., meðan ég var fjmrh. og eftir að ég hætti að vera fjmrh. - að því að fjármagna ferðamál. Í því liggur veruleg framtíð og atvinnutækifæri fyrir utan þá gríðarlega miklu gjaldeyrisöflun sem þetta er ef við ekki kæfum það með alls konar óþarfa sköttum á ferðalög til að fjármagna allt annað, t.d. til að fjármagna halla á ríkissjóði en ekki til þess að fjármagna uppbyggingu ferðamála.

Ég vildi geta þess sem hefur verið gert. Það eru til gögn, ef það er ekki búið að týna þeim eða henda þeim þá eiga að vera til gögn í samgrn., þau fóru þangað frá Ferðamálaráði, sem hafa að geyma nýjar og ferskar hugmyndir, langtum betri hugmyndir en nokkur íslenskur maður getur hugsað upp vegna þess að þarna er alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur mikla reynslu í uppbyggingu á þekktustu ferðastöðum heims eins og t.d. Mónakó.