03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5392 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

267. mál, jöfnuður í verslun við einstök lönd

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 566 leyfi ég mér að leggja fram fsp. til hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. um jöfnuð í verslun við einstök lönd. Fsp. hljóðar svo:

„Hyggjast ráðherrar gera eitthvað til að jafna þann óhagstæða mun sem er á innflutningi Íslendinga frá allmörgum löndum og útflutningi þeirra þangað?"

Herra forseti. Þegar litið er í Hagtölur mánaðarins, janúar 1988, á bls. 23 undir fyrirsögninni VII, Utanríkisviðskipti, V. kafli, Verðmæti inn- og útflutnings eftir löndum, kemur í ljós að frændur okkar á Norðurlöndum geta tæpast kvartað undan viðskiptum við okkur Íslendinga þar sem þessi tafla leiðir í ljós að mismunur á fob-útflutningi okkar til Norðurlanda og cif-innflutningi þeirra til Íslands er 9,4 milljarðar okkur í óhag. Þannig flytjum við út til Danmerkur fyrir 1 milljarð 597 millj. en þeir selja okkur hins vegar í staðinn vörur að verðmæti 4 milljarðar 448 millj. Mismunur okkur í óhag er m.ö.o. upp á 2 milljarða 851 millj.

Við seljum Finnum fyrir 664 millj. en þeir okkur fyrir 1 milljarð 183 millj. eða mismunur okkur í óhag er upp á 519 millj. Við seljum Svíum fyrir hellar 884 millj. en þeir okkur fyrir aðeins 3 milljarða 910 millj. Mismunur okkur í óhag er upp á 3 milljarða 26 millj. Til Noregs seljum við fyrir 692 millj. en þeir okkur fyrir 3 milljarða 687 millj. eða mismunur okkur í óhag upp á aðeins 2 milljarða 995 millj. Eftir að hafa skoðað slíkar tölur okkur Íslendingum svo mjög í óhag finnst mér vel þess virði að athuga hvort ekki megi beita slíkum staðreyndum við samningaborðið. Ég er sannfærður um að það er þess virði að láta á það reyna hvort þessum ágætu frændþjóðum okkur finnist ekki muna um þessi viðskipti. Það verð ég að segja eins og er að á sama tíma og við verðum að gjöra svo vel að henda þúsundum tonna af landbúnaðarframleiðslu okkar, jafnlítil og hún þó er, finnst mér að við eigum að reyna að beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir slíkt, m.a. með því að fara fram á sem mestan jöfnuð í viðskiptum við aðrar þjóðir. Tel ég reyndar að það sé að einhverju leyti gert þegar átt er við blessaða Rússana, en það má gera við fleiri.

Þess vegna legg ég þessa fsp. fyrir bæði þann ráðherrann sem nú fer með málefni utanríkisverslunar og þann ráðherrann sem fer með málefni innflutningsverslunarinnar. Hvað hyggjast ráðherrarnir fyrir í þessum efnum? Má eiga von á því að markaðsmálum verði betur sinnt en hingað til? Verður leitað nýrra markaða? Hvað með fullvinnslu afurða og markaðssetningu? Verður gert átak þar? Verður bryddað upp á einhverjum nýjungum hvað söluaðferðir snertir? Hvernig hyggjast þeir styrkja stöðu útflutningsgreinanna? Á að ráðast enn frekar á innflutningsverslunina? Eitthvað hljóta mennirnir að hafa á prjónunum þegar sett er fram sú fullyrðing að viðskiptahalli á árinu 1988 verði 10 milljarðar í það minnsta.