03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5413 í B-deild Alþingistíðinda. (3618)

297. mál, fiskimjölsverksmiðjur

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir góð svör. Það sem kom fram í hans máli er að fyrir 15 árum var fyrst byrjað að athuga hagkvæmni þess að nota jarðhita í stað olíu. Það er fyrst núna sem eitthvað virðist vera að gerast í þessum málum. Ég þykist vita að það sé búið að semja margar skýrslur og allar hafi þær verið á einn veg, en samt hefur ekkert verið gert. Harma ég þetta mjög og bendi á að sá mikli kostnaður sem felst í olíunni hefur leitt til þess að verð til sjómanna fyrir t.d. loðnu hefur verið mjög lágt.

En ég þakka engu að síður ráðherra fyrir þessi góðu svör og vonast svo sannarlega eftir að hafist verði handa um að koma verksmiðju af stað sem notar innlenda orkugjafa til þessarar framleiðslu.