07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5564 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

265. mál, launabætur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á það að þessi till. til þál. á þskj . 564 sem er til umræðu hún er ekki ný eða nýtt kerfi. Hún er um það að hækka persónuafslátt við álagningu tekjuskatts úr tæpum 15 þús. kr. upp í rúmar 19 þús. kr. og síðan að jafnframt verði teknar upp launabætur þannig að ónýttur persónuafsláttur verði greiddur út úr ríkissjóði til launþega. Ég hugsa að það sé hægt að fá allar upplýsingar um kerfið eins og það liggur fyrir, hvað hverjar þúsund kr. þýði þannig að þess vegna er ekki formgalli á tillögunni. Það er mikið langt frá því.

Ég vil líka benda hv. þm. á það að það eru ekki bara Reykvíkingar sem stunda veitingahúsin í Reykjavík. Það eru ekki bara Reykvíkingar sem fara til útlanda í ferðalög. Það kemur alls staðar að af landinu þannig að við skulum hætta að tala eins og það sé Reykvíkingum einum að kenna að boginn er spenntur til hins ýtrasta. Og að þorri Íslendinga falli ekki undir þessar láglaunabætur. Við skulum vera guði þakklát fyrir það, en við skulum gera það sem þarf að gera til þess að hjálpa þeim sem þurfa á þeim ráðstöfunum að halda sem við erum hér að leggja til.

Að sjálfsögðu er það rétt að verðbólga gerir mikið og illt. En hv. 2. þm. Norðurl. e. talar um að við megum passa okkur að hækka ekki laun við þá lægst launuðu, við verðum að halda verðbólgunni í skefjum, á sama tíma og ríkisstjórnin sem hann styður kemur með hækkanir og hann hefur greitt atkvæði með öllum þeim hækkunum sem hún hefur komið fram með. Fjárlögin hækka um meira en 50%, úr 42–43 milljörðum í 65 milljarða. Við erum að lækka gengið um 6%. Hvað haldið þið að það þýði þegar útreikningurinn í tolli kemur á vöruna? Við skulum segja að varan taki engan toll, hún tekur 17,5% vörugjald, 25% söluskatt, og ég vil nú frekar segja 10 en ríkisstjórnin sagði 50% álagningu í heildsölu. Haldið þið að það sé ekki verðbólguhvetjandi? Og svo á að vara þjóðina við að verkakonur og verkamenn megi ekki fá hærri lágmarkslaun en 31 400 kr. sem að sjálfsögðu fólkið svarar nú eins og áður með atkvæðagreiðslu í félögunum, eins og kom fram hjá einum af helstu forustumönnum þjóðarinnar í verkalýðsmálum hér úr þessum ræðustól rétt áðan. Það eru ekki þeir, forustumennirnir, sem taka ákvarðanir. Það er fólkið sjálft. Og fólkið er að svara þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem leyfir sér að koma með gengislækkun, aukið álag á erlendan gjaldeyri, aukið álag á nýbyggingar og hitt og þetta meira, allt til hækkunar, allt verðbólguhvetjandi, nokkrum klukkutímum eftir að samningar eru undirritaðir. Leitið ekki til verkakvenna og verkamanna um verðbólguaukningu. Kostnaðaraukningin er öll hjá ríkisstjórninni sjálfri.

Ég fagna því ef hv. þm. Karvel Pálmason hefur aðrar leiðir sem vísa veginn að sama marki og ég fagna því ef Kvennalistinn er með aðrar leiðir. Ég er reiðubúinn til að styðja allar þær aðrar leiðir sem eru betri en þessi sem byggð er á langri reynslu hv. 16. þm. Reykv. Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur af samningaviðræðum. Við vitum það, og ég hef áður sagt það hér, að samningar verkalýðshreyfingarinnar sl. 70 ár, frá því að þeir voru skipulagðir, hafa ekki borið þann árangur að verkamaður geti lifað af 8 stunda vinnudegi og 5 daga vinnuviku. Og þegar einn af þeim sem setið hafa við samningaborðið við hlið annarra verkalýðsforustumanna kemur inn á Alþingi og miðlar okkur af reynslu sinni, þá getum við ekki kastað því út um gluggann. Við verðum að hlusta á það og við verðum að samþykkja það eða koma með eitthvað betra í staðinn.

Ég er reiðubúinn til þess að samþykkja hvað sem er betra. En á meðan Kvennalistinn kemur ekki með eitthvað annað betra þá reikna ég með að Kvennalistinn samþykki þessa tillögu. Hún er þá það besta sem völ er á í augnablikinu fyrir verkamanninn, fyrir láglaunafólkið. En Kvennalistinn segi ekki: Við köstum þessu og reynslu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur út um gluggann af því að við ætlum að koma einhvern tíma seinna með eitthvað annað sem lögbindur kaup. Það er ekki komið fram.

Hér hafa talað fulltrúar frá Alþfl., Sjálfstfl., Alþb., Borgarafl. og allir verið jákvæðir. Allir talað um að eitthvað þurfi að gera sem allra fyrst, og Kvennalistinn líka, sem allra fyrst til að hækka láglaunafólk. En ég hef ekki heyrt neina rödd frá Framsfl. og ég auglýsi eftir henni. (KP: Hún kemur ekki strax.) Ég auglýsi eftir henni. Ég ætla ekki að blanda þessum umræðum inn í nýfrjálshyggjutal á milli Alþfl. og Sjálfstfl. Mig langar að nota orðatiltæki sem þekkt er í Reykjavík því að þeir eru svo líkir núna þessir flokkar að það væri réttast að ég notaði það, en það er of dónalegt til þess að fara með það í ræðustól hér. En það er sama hvor flokkurinn er í augnablikinu.

Ég vil aðeins í lokin segja að það er margt rétt af því sem hæstv. iðnrh. sagði hér og ég tek undir hans orð, en það er nú einu sinni svo að það er íslenska þjóðin og með Alþingi í broddi fylkingar sem hefur beitt sér fyrir því að byggja raforkuver og það er íslenska þjóðin sem á fyrst og fremst að njóta þeirra gæða sem raforkuverin bjóða upp á. Við vitum það að með miklum tilkostnaði á þjóðina alla höfum við meira rafmagn í augnablikinu en við notum sjálf. Og ég sé enga ástæðu til þess að fólkið úti á landi fái ekki notið þeirrar umframorku í lægri upphitunartöxtum en það hefur í dag. Þetta er spursmál um að við skiljum málflutning hver annars. Þetta er spursmál um það hvort embættismenn, sem vilja gegna stöðum sínum vel, vilja reka sín fyrirtæki og stofnanir vel, fá að gera það á þann hátt sem þeir vilja eða hvort þeir fá að gera það á þann hátt sem við viljum hér sem tökum ákvörðun. Og þá er það ákvörðun okkar um að orkuverin verði rekin með meira tapi en þau eru rekin með eða ekki. Ég er alveg reiðubúinn til þess að standa að því, og ég veit að Borgarafl. er það, standa að því að raforkuverð úti á landi verði lækkað.