17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5839 í B-deild Alþingistíðinda. (3937)

291. mál, tjón Norræna fjárfestingarbankans af gjaldþroti Kongsbergs Våpenfabrikk

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fsp. þessari er beint til tveggja ráðherra, ráðherra norrænna samstarfsmála og viðskrh., en þannig háttar til að hæstv. núv. viðskrh. hefur verið annar tveggja stjórnarmanna Íslands í stjórn bankans frá því að hann var stofnaður 1976, þar til hann tók sæti í ríkisstjórn Íslands á miðju þessu ári, og hyggst hann svara fsp. spyrjanda. Ég leyfi mér því að vísa jafnframt til þess er fram kemur í hans svari.

Bankaráð Norræna fjárfestingarbankans, þar með taldir fulltrúar Íslands í stjórn bankans, hafa samþykkt tvö lán til Kongsbergs Våpenfabrikk A/S, hið fyrra á árinu 1977 og hið síðara á árinu 1984. Lánin gengu til þeirra greina fyrirtækisins sem framleiðir bifreiðavarahluti, einkum fyrir sænskar bifreiðaverksmiðjur. Rétt er að taka það skýrt fram, þar sem fyrirspyrjandi spyrst fyrir um ríkisábyrgð, að í samþykktum bankans er ekki kveðið sérstaklega á um ríkisábyrgðir en lán skulu veitt gegn fullnægjandi tryggingum og metur bankaráð bankans hverju sinni hvað teljast vera fullnægjandi tryggingar.

Þannig hagar málum að fyrirtækið er hlutafélag sem er að öllu leyti í eigu norska ríkisins. Með hliðsjón af stöðu fyrirtækisins, niðurstöðum ársreikninga þess og eigenda var ekki talið skorta á að fullnægjandi tryggingar væru fyrir láninu.

Mál þetta var rætt á Norðurlandaráðsþingi í Osló í sl. viku þar sem fjmrh. Noregs kvað ekki venjulegt að veita ríkisábyrgð fyrir þeim lánum sem fyrirtæki í ríkiseign öfluðu sér. Því er hins vegar ekki að leyna að sú afstaða norska ríkisins að það telji sig ekki ábyrgt fyrir endurgreiðslu þessara lána hefur komið mönnum á óvart og þótt mjög gagnrýnisvert.

Í ársskýrslu bankans fyrir árið 1987 kemur fram að bankaráð Norræna fjárfestingarbankans hefur ákveðið að afskrifa upphæð sem nemur 6 millj. sérstakra yfirdráttarréttinda (SDR), eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda, á reikningi þessa árs vegna áætlaðs taps af lánveitingu þessari sem hér er um rætt. Þrátt fyrir þetta tjón er hagnaður af rekstri bankans fyrir árið 1987 um 34 millj. sérstök yfirdráttarréttindi (SDR), og þá ber að undirstrika að hér er um að ræða fyrsta tap bankans frá stofnun hans 1976.

Um 2. lið fsp. vísa ég alfarið til svars hæstv. viðskrh.

Varðandi 3. lið fsp. er rétt að taka fram að ársskýrsla bankans 1987 var lögð fyrir 36. þing Norðurlandaráðs í sl. viku eins og venjan hefur verið, að leggja skýrslu bankans fyrir Norðurlandaþing, og urðu þar nokkrar umræður um viðskipti bankans við Kongsbergs Våpenfabrikk. En Norðurlandaráð er vettvangur málefna bankans.

Ég vil geta þess hér og það kom fram þegar skýrsla hæstv. utanrrh. var hér til umræðu að gert er ráð fyrir að fram verði lögð skýrsla af hálfu samstarfsráðherra og þingmannanefndar í Norðurlandaráði, þannig að málefni Norðurlandaráðs verða þá til umræðu. Þá má og geta pess að það eru auk stjórnenda bankans af hálfu Íslands tilnefndir tveir endurskoðendur við bankann, annar tilnefndur af hálfu ríkisstjórnar Íslands, hinn tilnefndur af hálfu þeirra þm. sem kjörnir hafa verið af Alþingi til setu í Norðurlandaráði.